Kristín Rósa Skarphéðinsdóttir fæddist í Kópavogi 11. febrúar 1942. Hún lést á Hrafnistu Skógarbæ 3. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Guðrún Kristjánsdóttir, f. 13.10. 1910, d. 30.9. 1973, og Skarphéðinn Guðmundsson, f. 27.8. 1908, d. 15.12. 1987.

Systkini sammæðra: Elísabet Þorgeirsdóttir, f. 12.12. 1931, d. 19.11. 2013, Þorgeir Þorgeirson, f. 30.4. 1933, d. 30.10. 2003, stúlka Þorgeirsdóttir, f. 18.6. 1934, d. 23.7. 1934, Kristján Rósant Þorgeirsson, f. 29.8. 1935, d. 5.10 1964, Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, f. 9.9. 1944. Alsystkin: Sigríður Stefanía Skarphéðinsdóttir, f. 18.6. 1948, d. 2.11. 1948, Kolbrún Skarphéðinsdóttir, f. 20.9. 1946.

Rósa giftist fyrri eiginmanni sínum Einari Þór Halldórssyni, f. 5.10. 1935, þann 5.10. 1960, en hann fórst með Stíganda þann 12.12. 1971. Börn þeirra eru: 1) Kristinn Halldór, f. 22.6. 1960, kvæntur Kristínu Sjöfn Valgeirsdóttur og eiga þau soninn Jón Héðin. 2) Guðrún Kristín, f. 12.9. 1961, og á hún soninn Viktor Emile. 3). Sigríður Stefanía, f. 17.6. 1963, og á hún Rósu Maríu, d. 2001, Þór Wayne, Kristófer Halldór og Matthías Paul. 4) Sólveig Sól Einarsdóttir, f. 15.2. 1965, gift Svavari Þór Guðjónssyni. Hún á Einar Óla, Önnu Silvíu og Rúnar Leó. 5). Þórey Björg Einarsdóttir, f. 17.3. 1972, gift Jakobi S. Antonssyni, þau eiga Söru Rós, Valgeir Þór og Karitas Ýri. Rósa giftist þann 31.12. 1974 Jóni Sigurðssyni, f. 24.6. 1932, d. 12.5. 2013. Þeirra sonur er Einar Björn, f. 23.12. 1973, kvæntur Helenu Vattar Baldursdóttur. Þau eiga Elinóru, Emmu og Ástu Marín. Langömmubörnin hennar Rósu eru 13.

Rósa var fyrstu árin heima með allan barnaskarann. Hún starfaði svo við hin ýmsu störf í Neskaupstað. Rósa var mikil húsmóðir, saumaði og prjónaði á öll sín börn, barnabörn og barnabarnabörn meðan heilsan leyfði. Allar hannyrðir lágu vel fyrir henni og hafði hún mikið yndi af því að hafa eitthvað á prjónunum. Hún var mikil félagsvera og tók virkan þátt í Kvenfélaginu Nönnu og var einnig formaður Kvennadeildar Slysavarnafélagsins Gerpis í Neskaupstað um árabil. Þegar Rósa fluttist til Reykjavíkur árið 2001 starfaði hún við matseld á Arnarholti á Kjalarnesi og í Lágafellsskóla. Eftir að hún flutti í borgina var hún fljót að finna gamlar vinkonur sem hittust svo reglulega. Hún var umsjónarmaður samkomusalar á Prestastíg meðan hún bjó þar og þar voru sett upp m.a. bingó og hannyrðadagar. Einnig lét hún gamlan draum rætast og fór í kórinn Senjoríturnar og naut þess mjög. Síðustu árin bjó Rósa í Fróðengi 7-11 og tók þar einnig þátt í þeim félagsskap sem þar var í boði.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 11.

Elsku mamma.

Nú er upprunnin kveðjustundin sem í tímans rás mætir okkur öllum.

Þegar litið er yfir þinn farna lífsins veg kemur berlega í ljós að á köflum hefur þú mætt þar þungum mótbyr, en á öðrum tímum hefur þú fangað hamingjuríkan meðbyr. Áföll og missir á unga aldri höfðu óhjákvæmilega mótandi áhrif á þig en um það er engum blöðum að fletta að sú lífsreynsla varð til þess að styrkja þig.

Þau gildi sem þú tileinkaðir þér hafa haft mótandi áhrif við uppeldi okkar systkina. En það eru ekki bara við systkinin sem höfum notið góðs af frumkvæði og krafti þínum heldur það samfélag sem þú hefur tilheyrt á hverjum tíma. Þar hefur þú verið máttarstólpi og þess vegna verið valin til forystu meðal annars í kvennadeild Slysavarnafélagsins Gerpis í Neskaupstað. Allt starf sem var unnið þar var þér mjög kært. Þú miðlaðir af reynslu þinni til ungra kvenna sem höfðu misst eiginmenn sína af slysförum, minnug þess að þegar þú misstir pabba í sjóslysi, þá um þrítugt með fjögur ung börn og eitt á leiðinni, var ekki talað um þá látnu og það fannst þér alltaf erfitt. Hafa þær talað um hversu mikið þetta létti þeim sorgarferlið.

Stærsta afrek þitt á lífsins vegi sem hefur veitt þér mestu hamingjuna er öll barnabörnin og barnabarnabörnin, en þau eru samtals tuttugu og átta. Þú hefur alltaf notið þess að vera í samvistum við þau. Öll munu þau muna eftir ömmu Rósu, hjartahlýju þinni og þeim áhuga sem þú sýndir því sem þau voru að fást við á hverjum tíma. Öll erum við börn, makar, barnabörn og barnabarnabörn ríkari af kærum minningum og gefandi samvistum við þig.

Þegar við fæðumst ráðum við engu um það hvernig foreldrar okkar eru. Það er því hálfgert happdrætti hvers konar foreldra við fáum við fæðingu. Það að þú hafir orðið mamma mín er eins og að hafa unnið stóra vinninginn í foreldrahappdrættinu.

Hvíl í friði,

Kristinn Halldór.

Elsku mamma. Allt í einu ertu farin. Einhvern veginn var ég bara ekki tilbúin í það. Þetta gerðist allt svo hratt þegar þér hrakaði. En það var orðið erfitt að horfa upp á þig tapa minni, verkviti og lífsgæðum síðustu ár, svo ég hugga mig við að þinn tími var kominn og þú færð hvíld. Mikið var samt erfitt að kveðja. Þú varst mamma mín í 52 ár. Ég hef alltaf verið talin mjög lík þér, í bæði útliti og skapi. Þegar eldri systkini mín voru flutt að heiman var ég hjálparhella þín og við eyddum því oft góðum tíma saman við bakstur og önnur heimilisstörf. Ísbíltúrarnir á vorin og sumrin voru líka okkar, þar sem við náðum góðu spjalli.

Þegar ég var 17 ára fór ég sem skiptinemi til Kanada, að þínu frumkvæði. Mikið sem ég er þér þakklát fyrir það tækifæri. Fjarlægðin gerði okkur gott, og þegar leið á dvölina fann ég svo sterkt hvað ég saknaði þín mikið og hvað þú hafðir gert fyrir mig með því að bjóða mér þetta tækifæri. Þegar farið var í gegnum dótið þitt fundust bréf sem ég hafði sent heim á þessu ári og mikið er dýrmætt að geta lesið þau og rifjað upp allt sem ég vildi segja þér.

Ég leitaði mikið til þín þegar ég var að byrja að búa og ala upp börn, enda þú með ráð við öllu. Þegar ég flutti svo suður var hringt nánast daglega, annaðhvort bara til að spjalla eða leita ráða. Þegar þú svo fluttir til Reykjavíkur 2001 var alltaf gott að koma í kökur og spjall, eða bjóða þér og pabba í kökur og spjall. Börnin mín nutu góðs af að fá ömmu til Reykjavíkur, þar sem þú varst sú sem reddaði alls konar fataviðgerðum, prjónapöntunum, að ótöldum öllum danskjólunum sem þú saumaðir á Söru Rós. „Hvar er Valli?“ peysan og húfan sem þú prjónaðir á Valla hefur slegið í gegn og Karitas fékk margar fallegar prjónaflíkur eftir þig.

Þú fylgdist vel með því sem krakkarnir mínir voru að gera og mættir á flest þau dansmót sem haldin voru, meðan heilsan leyfði, og komst með okkur Söru í þrjár ferðir á dansmót erlendis sem þér þótti nú ekki leiðinlegt, enda hafðir þú mjög gaman af því að ferðast. Og þegar við börnin þín ferðuðumst eitthvað var nú oft viðkvæðið „ég ætti nú kannski að skella mér með“ og það sagðir þú nánast fram á seinasta dag. Ég skrapp í vikuferð í byrjun febrúar og þá léstu mig vita það að þú hefðir nú mikið viljað komast í sólina. Og alltaf þegar við vorum á ferðalagi hringdir þú oftar en vanalega til að tékka á okkur, full áhuga.

Þú varst alltaf mjög stolt amma af öllum þínum afkomendum. Þú elskaðir líka að fá allt fólkið þitt saman, og oft var þröng á þingi. En þá varstu í essinu þínu, að sjá til þess að allir fengju nóg að borða. Þú varst mjög virk alla tíð, bæði í félagsmálum og hannyrðum og þér fannst ekkert betra en að taka sundsprett og fara í heitan pott á eftir, og var það þér erfitt þegar þú hafðir ekki burði til þess lengur fyrir nokkrum árum.

En nú er komið að kveðjustund, elsku mamma. Þú varst orðin þreytt og vil ég trúa að þú fáir nú að sameinast þeim sem þú saknaðir svo mikið og fóru svo langt á undan þér. Hvíldu í friði. Ég elska þig.

Þín

Þórey Björg.

„Margur er knár þótt hann sé smár“ eru orð sem eiga svo vel við um mömmu. Hún var ekki há í loftinu en stórhuga var hún og með risastórt hjarta. Þegar ég var þrítug þá hugsaði ég mikið um það hvernig hennar lífshlaup var miðað við mitt líf á þeim tíma og var mikill munur þar á. Mamma fékk lömunarveiki tveggja ára að aldri og var lokuð inni á spítala þar sem enginn mátti heimsækja hana í meira en eitt ár. 16 ára flyst hún til Neskaupstaðar og kynnist pabba. 17 ára og ólétt að fyrsta barninu deyr tengdamamma hennar og hún tekur við heimilinu, fjórum bræðrum og tengdaföður. Í desember 1971, tveimur mánuðum fyrir 30 ára afmælisdaginn hennar, ferst pabbi í sjóslysi ásamt bróður sínum og var mamma þá ólétt að þeirra fimmta barni. Föðurafi okkar flutti þá til okkar en fyrir bjó yngsti bróðir pabba hjá okkur. Einu og hálfu ári eftir sjóslysið dó móðuramma okkar sem var mikið áfall fyrir unga ekkju með fimm börn. Okkur fjölskyldunni til happs þá kom mikill fjölskylduvinur inn í líf mömmu og eignuðust þau okkar yngsta bróður. Þrátt fyrir áföllin öll þá hélt lífið áfram þó að sumir árstímar, og þá sérstaklega tíminn í kringum jólin, hafi verið henni og okkur mjög erfiður. Haustið 2000 dó yngsti bróðir pabba sem var eins og hennar elsti sonur. Vorið eftir dó elsta barnabarn mömmu sem hafði búið hjá henni meira og minna í tíu ár á undan. Eftir þetta yfirgáfu þau hjónin fjörðinn fagra og fluttu til Reykjavíkur. Þrátt fyrir öll þessi áföll þá hélt mamma sinni léttu lund sem líklega kom henni í gegnum allar hennar raunir og áföll þó maður vissi alltaf af því þegar minningarnar sóttu á. Með hugarfari sínu kenndi hún okkur börnunum að sama hvað á dynur, þá gefst maður ekki upp. Maður heldur áfram.

Mamma var mjög félagslynd kona og þurfti á því að halda að vera í félagsskap og sótti í það og gaf það henni mikið. Hún elskaði að fara á tónleika og taka þátt í kórstarfi og að halda veislur þar sem allur hópurinn kom og að hitta vini og ættingja. Hún var afskaplega bóngóð og var fyrst til að bjóða fram aðstoð þegar einhverjir áttu um sárt að binda því hún þekkti af eigin raun hvernig var að standa í þeim sporum. Mamma var afar stolt af börnunum sínum og barnabörnum og þær eru ófáar flíkurnar sem hún hefur skapað á okkur og þau og fleiri í gegnum árin en að sjálfsögðu saumaði hún allt á okkur börnin öll okkar uppvaxtarár, náttföt jafnt sem ný föt fyrir jólin og sjómanndaginn. Ég ólst upp við að standa á eldhúsborðinu á Þorláksmessukvöld með hangikjötið í pottinum og títuprjóna í jólakjólnum sem verið var að máta og var svo tilbúinn næsta dag ásamt öðru sem þurfti að gera. Mamma gat allt og það var eitt af því sem ég tók með mér út í lífið frá henni: Þú getur allt sem þú ætlar þér.

Ég man þig – elsku mamma

ég man þig alla tíð.

Við þraut svo þunga og ramma

þú þögul háðir stríð.

Sem hetja í kvöl og kvíða

þú krýnd varst sigri þeim

sem á sér veröld víða

og vænni en þennan heim.

(Rúnar Kristjánsson)

Hvíl í friði, elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Guðrún Kristín Einarsdóttir.

Þegar ég rifja upp minningar með nöfnu minni eins og hún kallaði mig oft þá kemur upp í hugann góðmennska, dugnaður og útsjónarsemi. Rósa var einstaklega góð kona sem sýndi mér áhuga í öllu sem ég tók fyrir hendur. Stórir dagar eins og fæðing strákanna minna voru stórir fyrir Rósu líka sem kom og heimsótti okkur á sjúkrahúsið með fallega handverkið sitt. Barnabörnin mín fengu líka heimsókn og við skírnir, giftingar og stóra afmælisdaga þar var Rósa. „Á ég ekki að baka skírnartertuna nafna mín?“ voru orð sem komu þegar synir mínir voru skírðir því Rósa vissi að mér þótti súkkulaðikakan hennar best af öllum og alltaf á þremur hæðum og fallega skreytt. Rósa var dugleg að kíkja í heimsókn, bæði austur í Neskaupstað og í Reykjavík, hringdi til að kanna hvernig gengi hjá okkur. Síðast kíkti hún á okkur hér í Karfavoginum og eins og alltaf fann maður að hún var stolt af okkur. Má segja að Rósa eigi stóran hlut í því hversu góður samgangur milli barna hennar og mömmu er því hún var einstaklega dugleg að finna tilefni til að koma saman. Þegar við misstum strákinn okkar, hann Skarphéðin Andra, þá hugsaði Rósa vel um okkur og var í góðu sambandi. Nærvera hennar var einstaklega góð og einlæg. Heimsóknir á fallegu heimili hennar, bæði Breiðablik og Prestastíg, voru alltaf góðar. Opin faðmur Rósu og fallega brosið hennar og þolinmæði alltaf til staðar.

Nú á haustmánuðum fór ég að hitta Rósu reglulega þegar mamma kom á hjúkrunarheimilið í Skógarbæ. Þær systur hafa ekki alltaf verið bestu vinkonur en væntumþykja þeirra í garð hvor annarrar hefur alltaf verið til staðar. Bersýnilega kom það í ljós í Skógarbæ þar sem þær þurftu að faðmast og kyssast þegar þær hittust. Þær héldu oft í hendur hvor annarrar og ræddu málin. Við Þóra Gunna brostum út í annað og hugsuðum með okkur að svona yrðum við kannski, fengjum konfektmola hvor hjá annarri, aðeins að skipa hvor annarri til og ef við gætum skellt hurðum þegar önnur okkar fór ekki eftir fyrirmælum hinnar. Samband þeirra systra var fallegt og yndislegt að sjá þær saman síðustu mánuðina.

Rósa er fyrirmynd mín í mörgu í lífinu, tók mótvindinn í fangið og gerði hann að verkefni ekki vandamálum. Takk fyrir allar stundirnar, væntumþykjuna, heilræðin og þolinmæðina, elsku Rósa.

Farin er góð og dugleg kona sem þurfti að þola mikla erfiðleika í lífinu sem hún komst yfir með seiglu og áræðni. Kveð ég því nú elsku nafna og hitti þig þegar minn tími kemur.

Þín

Steinunn Rósa.

• Fleiri minningargreinar um Kristínu Rósu Skarphéðinsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.