— TT/AFP/Anders Wiklund
Sænski fáninn verður dreginn að húni við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel á mánudag, en Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, afhenti Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær formlega aðildarskjöl um inngöngu Svía

Sænski fáninn verður dreginn að húni við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel á mánudag, en Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, afhenti Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær formlega aðildarskjöl um inngöngu Svía. Svíþjóð er 32. aðildarríki bandalagsins.

Kristersson sagði við þetta tækifæri að aðild Svía að Atlantshafssáttmálanum væri sigur frelsisins. Svíþjóð hefði tekið frjálsa, lýðræðislega og einróma ákvörðun um að ganga í NATO. Blinken sagði að aðild Svía sýndi fram á þær hernaðarlegu ógöngur sem Rússar væru komnir í eftir innrásina í Úkraínu.

Sænska ríkisstjórnin hélt einnig sérstakan aukafund í gær til að staðfesta aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu.

Saumastofur í Svíþjóð keppast nú við að sauma fána Atlantshafsbandalagsins, en sveitarfélög, stjórnarstofnanir og fyrirtæki vilja flagga fánanum þegar aðild landsins tekur formlega gildi. Á myndinni sést Tove Lycke, starfsmaður Flagghuset í Åkersberga skammt frá Stokkhólmi, leggja síðustu hönd á slíkan fána.