Lilja Jónasdóttir fæddist á Varmavatnshólum í Öxnadal 21. október 1928. Hún lést á sjúkrahúsinu á Húsavík 26. febrúar 2024.

Hún var dóttir hjónanna Jónasar Rósants Jónssonar og Elínborgar Aðalsteinsdóttur, bænda á Varmavatnshólum og síðar á Hrauni í Öxnadal. Systkini Lilju voru Sóley, Valgerður, Jón, Aðalsteinn, Kristjana, Sigurður, Herdís og Hallur.

Lilja giftist Sigvalda Gunnarssyni frá Hólsseli á Hólsfjöllum á sumardaginn fyrsta, 20. júní 1950. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Klara, f. 1951, gift Bolla Eiðssyni. Börn þeirra eru Ella Lilja, Guðríður, Eiðunn, Ragnhildur Berta, Sigrún og Ísak Örn. Klara og Bolli eiga fjórtán barnabörn og sex barnabarnabörn. 2) Heiðar, f. 1953, giftur Margréti G. Þórhallsdóttur. Dætur þeirra eru Rebekka og Sif. Börn Heiðars með Kristínu Fjeldsted eru Sigvaldi, Heimir og Lilja Dögg. Heiðar og Margrét eiga átta barnabörn. 3) Elínborg, f. 1955, gift Þorvaldi Yngvasyni. Börn þeirra eru Heiðar Smári og Hugrún Ásdís. Elínborg og Þorvaldur eiga sjö barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 4) Sigríður Kristín, f. 1959, sambýlismaður Einar G. Jónasson. Börn þeirra eru Jónas Hreiðar, Kristjana Lilja, Sigvaldi Þór og Ásrún Ósk. Sigríður og Einar eiga sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn.

Lilja ólst upp á Varmavatnshólum til tíu ára aldurs en þá flutti fjölskylda hennar að Hrauni í Öxnadal. Sigvaldi og Lilja byggðu nýbýlið Lyngás í Kelduhverfi. Þar voru þau bændur í 30 ár eða þar til að þau fluttu til Húsavíkur árið 1980. Lilja vann við margt um dagana m.a. vann hún í síld á Raufarhöfn, í sláturhúsi, við ráðskonu- og hótelstörf, á saumastofu, á leikskóla og við ræstingar á sjúkrahúsi Húsavíkur. Hún var virk í Kvenfélagi Keldhverfunga. Blómaræktun og útivist voru Lilju líf og yndi.

Útför Lilju fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 14.

Elsku besta amman mín.

Nú sit ég hér í lopapeysunni þinni og það renna tár, sem eru í senn saknaðartár en einnig gleðitár hversu heppin ég varð í lífinu að hafa fengið að kalla þig ömmu mína. Þú varst yndisleg og mjög hreinskilin, enda var alltaf best að koma til þín ef mann vantaði hreinskilið svar því þú sagðir yfirleitt bara hlutina eins og þeir voru. Síðustu dagar hafa verið mjög erfiðir, erfitt að koma ekki við á Skógarbrekku og kyssa þig góðan daginn. Alltaf tókstu á móti mér með faðmlagi og kossi og sagðir „nei, ert þú komin, elskan“.

Það var alltaf jafn dásamlegt að koma til ykkar afa og hlusta á ykkur tala um gömlu dagana. Svo brást ekki að borðið var alltaf fullt af kræsingum enda gerðir þú bestu kökurnar eins og þú sagðir alltaf sjálf og varst ekki að ljúga neinu um það.

Mínar mestu uppáhaldsferðir voru þær sem við fórum í saman, voru þær nokkrar og allar dásamlegar. En þessi mun alltaf standa upp úr. Það var þegar við fórum Botnsvatnshringinn þegar þú varst 91 árs. Við stoppuðum oft á leiðinni og ræddum um allt á milli himins og jarðar. Er ég svo óendanlega þakklát fyrir að við fórum, þar sem ég var pínu stressuð að fara með þig, 91 árs konuna. En þú taldir að þetta væri nú ekkert mál, hefðir oft farið og var það líka alveg rétt hjá þér.

Ég veit að afi hefur tekið vel á móti þér og nú eruð þið sameinuð á ný.

Takk fyrir allt, elsku amma mín, þú ert og verður alltaf mín fyrirmynd í lífinu.

Þín

Kristjana Lilja.

Í dag kveðjum við ömmu okkar Lilju. Amma var það sem við myndum segja uppskriftin að góðri ömmu. Hún var hlý og góð en einnig mjög hreinskilin. Svo hreinskilin að stundum svitnaði maður þegar hún var að gefa okkur álit sitt. En það var eitt af því sem gerði ömmu svo skemmtilega og eftirminnilega, og uppsprettan að mörgum góðum sögum sem við getum yljað okkur við. Hún var stolt af sínum afkomendum og sagði oft að þetta væri fallegur og góður hópur og eru það orð sem okkur þykir afskaplega vænt um.

Hún var mikil húsmóðir. Pönnukökurnar, frönsku vöfflurnar, flatbrauðið og berjafrómasinn gerði enginn jafn gott og hún. Það var alltaf notalegt að kíkja í heimsókn til hennar og afa. Fá hlýtt faðmlag, kaffi, belgja sig út af veitingum og tala um daginn og veginn. Amma var líka mikill náttúruunnandi, elskaði blómin sín og garðinn og var mjög stolt af útkomunni. Sagði hún að garðurinn sinn á Torginu hefði verið talinn fallegasti blómagarðurinn þar í hverfinu. Garðurinn er því miður ekki lengur til í þeirri fallegu mynd. Því þegar eitt okkar átti að taka við honum eftir að hafa keypt af þeim húsið varð það viðkomandi ofviða. Amma kom samt reglulega við meðan heilsan leyfði til að athuga hvernig gengi og hreinsaði aðeins úr blómabeðunum þegar henni blöskraði, án þess að segja frá því.

Hún var listamaður í höndunum og vildi meina að ef öllu því sem hún hefði prjónað í gegnum tíðina væri safnað saman væri komið heilt fjall. Það erum við viss um að hafi verið hárrétt hjá henni því hún var afar afkastamikil líkt og í öðru sem hún tók sér fyrir hendur. Myndavélin var aldrei langt undan og er það henni að þakka að til eru miklar heimildir í myndum af lífi fjölskyldunnar í gegnum tíðina.

Síðustu ár var heilsan orðin léleg og minnið hafði brugðist henni. Hún hélt samt alltaf reisn og þessum skemmtilega hlýja persónuleika sem prýddi hana alla tíð. Nú eru þau sameinuð hjónin úr Lyngási. Afi sem hún saknaði svo mikið hefur tekið á móti henni með bros á vör.

Það er sárt að kveðja en við höfum margs að minnast sem við hlýjum okkur við.

Takk fyrir allt, amma Lilja, og góða ferð.

Sigvaldi, Heimir, Lilja, Rebekka og Sif.

• Fleiri minningargreinar um Lilju Jónasdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.