Kjarasamningar Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra féllust í faðma í Safnahúsinu í gær eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt stuðningsaðgerðir sínar, sem metnar eru á um 80 milljarða kr.
Kjarasamningar Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra féllust í faðma í Safnahúsinu í gær eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt stuðningsaðgerðir sínar, sem metnar eru á um 80 milljarða kr. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnvöld munu verja 80 milljörðum króna í stuðningsaðgerðir á samningstíma stöðugleikasamningsins sem Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn, undirrituðu í Karphúsinu í gær

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Stjórnvöld munu verja 80 milljörðum króna í stuðningsaðgerðir á samningstíma stöðugleikasamningsins sem Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn, undirrituðu í Karphúsinu í gær. Samningurinn gildir til fjögurra ára og bindur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra vonir við að hann skapi frið á vinnumarkaði og setji fordæmi fyrir komandi kjaraviðræður annarra stétta.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist fullviss um að aðkoma stjórnvalda að samningnum muni skipta sköpum fyrir lífskjör á komandi árum. „Við ákváðum að forgangsraða aðgerðum í þágu kjarasamninga því við mátum sem svo að það væri gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt að ná friði á vinnumarkaði til lengri tíma til þess að geta náð verðbólgu og vöxtum niður,“ segir Katrín og bætir við að hún líti svo á að þetta sé fjárfesting í þjóðarhag.

Húsnæðismálin veigamikil

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist í samtali við Morgunblaðið vera ánægður með þær aðgerðir sem ríkisstjórnin grípur til í húsnæðismálum. „Við höfum talað um það lengi að þessir samningar muni snúast um húsnæðismál og hvað við getum gert. Ég er mjög ánægður með þær aðgerðir sem við erum að leggja hér til en líka heildarmyndina er varðar stuðning við fjölskyldur og barnafólk,“ segir Sigurður Ingi.

Áhersla er lögð á öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við þörf en stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra segir að stuðningur stjórnvalda við langtímakjarasamning sýni að stjórnvöld setji barnafjölskyldur í forgang. Hún segir að aðgerðirnar kalli einnig á aðhald í rekstri á næstu árum sem gæti birst í uppstokkun, breytingu á ríkiskerfum og sölu ríkiseigna.

„Þetta er ekki sársaukafullur niðurskurður. Þetta er eðlileg og skynsamleg breyting á ríkiskerfum þar sem við getum staðið vörð um og bætt þjónustu við fólk en minnkað yfirbyggingu og farið í aðgerðir sem eru eðlilegar og skynsamlegar. Það er verkefnið fram undan.“

Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga standa bæði að aðgerðunum, sem er ætlað að styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld með auknum kaupmætti, auk þess að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Þá munu aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Sérstakur vaxtastuðningur

Ríkisstjórnin leggur sérstaka áherslu á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Ríkissjóður á að leggja til 7-9 milljarða króna í stofnframlög á ári og tryggja hlutdeildarlán, en sveitarfélögin eiga að leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til þess að mæta uppbyggingarþörf. Þá verður unnið að skilvirkari stjórnsýslu húsnæðis- og byggingamála auk rýmri heimilda lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.

Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila verður á árinu 2024 greiddur út sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán, sem tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Til stuðnings leigjendum verður grunnfjárhæð húsaleigubóta hækkuð um 25%. Þá verður dregið úr tekjuskerðingum vegna barnabóta og á það að fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Loks verða boðnar fram gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hærri fæðingarorlofsgreiðslur auk fleiri aðgerða.

Gjaldskrár ríkisins munu þá almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025 og hafa sveitarfélögin lýst yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verður gjaldskrárhækkunum á samningstímanum stillt í hóf eins og nokkur kostur er.

Rafiðnaðarsambandið

Funda í Karphúsinu í dag

Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins gefur lítið upp um það hvernig honum líst á samning SA og breiðfylkingarinnar enda standa rafiðnaðarmenn utan hans. Fundað verður í Karphúsinu í dag.

„Við erum að vinna með svipað upplegg og í samningnum eru atriði sem við höfum verið að semja um. Við þurfum líka að vinna önnur mál og erum ekki búin með þetta, ekki komin alla leið. Það hefur verið ágætis samtal í gangi og ég geri ráð fyrir mikilli vinnu í dag,“ segir Kristján Þórður. vidar@mbl.is