Soffía Sæmundsdóttir var fædd 28. ágúst 1940 að Bessastöðum í Sæmundarhlíð, Skagafirði. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Sauðárkróki þann 2. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Mínerva Gísladóttir, f. 1915, d. 1998, og Sæmundur Jónsson, f. 1915, d. 1993. Systkini hennar voru: Erla Sigurjónsdóttir, f. 1936, d. 2010, Jón, f. 1939, Sigurbjörg, f. 1942, Oddný, f. 1943, Sigríður, f. 1946, d. 2014, Gísli, f. 1947, drengur, f. 1949, d. 1949, Nanna, f. 1950, d. 2022.

Soffía var gift Hafsteini Lúðvíkssyni, f. í Stapa, Lýtingsstaðahreppi, þann 4. febrúar 1940. Börn þeirra eru: 1) Sæmundur Þór, f. 1. júní 1961, börn hans eru a) Lúðvík Freyr, barn hans er Lilja Dögun Lúðvíksdóttir, b) Valgeir Þór, c) Perla Rós og d) Hekla Kolbrún, maki hennar er Steinunn Agnes Ragnarsdóttir. 2) Hallfríður Hulda, f. 16. desember 1964, gift Snæbirni Hólm Guðmundssyni, börn þeirra eru a) Elí Hólm, maki Sonja Ósk Gunnarsdóttir, börn þeirra eru Leon Smári og Rúrik Smári, b) Soffía Dröfn, börn hennar eru Tristan Elí og Indíana Líf. 3) Harpa Hrund, f. 24. apríl 1975, gift Birni Grétari Friðrikssyni, börn þeirra eru a) Friðrik Snær, maki Sandra Ósk Sævarsdóttir, b) Hafsteinn Máni og c) Birta Lind.

Soffía og Hafsteinn bjuggu fyrst á Sauðárkróki en fluttu að Ytra-Vallholti fyrsta vetrardag 1964 og bjuggu þar með kýr, kindur og hross til fyrsta vetrardags 1999 er þau fluttu í Gilstún 19 á Sauðárkróki, þar sem Soffía bjó til æviloka.

Útförin fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 14.

Streymt verður frá athöfninni á YouTube-síðu kirkjunnar.

Stytt streymi:

https://www.mbl.is/go/jns9r

Sólin er farin að hækka á lofti og daginn farið að lengja. Þetta er alltaf skemmtilegur tími fyrir bóndann, hættan á stórveðrum farin að minnka og klakaböndin að leysast. Mamma var líka alltaf svo ánægð með þennan tíma, undanfarin ár þó mest yfir að snjórinn minnkaði og hún átti auðveldara með að komast um úti. Henni fannst ekkert skemmtilegra en að fara í bíltúr og skoða hvað var að gerast í sveitinni og mamma og pabbi voru dugleg við það. En nú skyggir sorgin aðeins á sólina úti þegar maður áttar sig á að hún á aldrei eftir að hringja aftur og spyrja „hvað er að frétta í sveitinni?“. Það sló mig í gærkvöldi að ég hafði ekki heyrt í mömmu í þrjá daga og það er líklega það lengsta í mínu lífi. Tómið er og verður mikið en huggunin er líka til staðar, að nú sé mamma hætt að finna til. Ekki það að hún kvartaði, en oft var hún miklu betri í dag en í gær, hún hafði verið dálítið slæm í gær.

Við mamma vorum mjög nánar, við áttum nefnilega svo margt sameiginlegt. Við vorum miklir bókaormar, pabba til mikillar armæðu stundum. Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi kunnum við báðar utan að og gátum pirrað okkur á Jóni á Nautaflötum reglulega eða vorkennt Þóru í Hvammi að búa með honum Sigurði. Svo í seinni tíð náðum við saman með hljóðbækur. Við gáfum mömmu einu sinni iPad í afmælisgjöf sem hún var alveg á móti, hún gæti aldrei lært á þetta. En það hafðist og mig grunar að hún hafi elskað iPadinn aðeins meira en mig, hann fylgdi henni alltaf. Stundum fékk ég símtal, hvort ég væri nokkuð á leiðinni í bæinn, iPadinn væri aðeins bilaður. Þá þurfti aðeins að endurstilla hann þegar hún var búin að fikta smá.

Hún ól mann upp með rólegheitunum, aldrei æsingi, en aldrei hefði maður þorað að fara á móti henni. Maður átti að vera kurteis, stundvís og ekki í krumpuðum fötum. Þegar við Bjössi fluttum svo í Vallholt og hún í Krókinn tók við nýr kafli. Hún var óþreytandi að koma og aðstoða, hvort sem var í eldhúsinu eða barnapössun því hún var yndisleg amma, það geta börnin mín vitnað um. Hún gaf þeim kannski ríflega af nammi en hver var að fást um það?

Mamma var einstök kona og kenndi manni margt. Hún var mikil söngmanneskja og fannst ekkert skemmtilegra en að radda söng. En hún var líka ákveðin í hægðum sínum. Ef maður tók milliröddina í söng var það alveg klárt að það varð að vera milt og skyggja ekki á laglínuna og textinn þurfti að vera réttur, það var enginn afsláttur af því. Því enginn kunni fleiri texta en mamma og stundum héldum við að hún semdi erindi jafnóðum því það kunni þetta enginn annar.

Tómið verður mikið en minningin lifir. Við skálum fyrir henni og tökum svo nokkur lög, hlæjum og gleðjumst, því að það er það sem hún hefði viljað. Elsku mamma mín, ég á eftir að sakna þín svo mikið en ég veit að þú hefur það gott með þínu fólki þarna uppi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,

þú logar enn,

í gegnum bárur, brim og voðasker.

Nú birtir senn.

Og ég finn aftur andans fögru dyr

og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.

(Matthías Jochumsson)

Þín

Harpa.

Ó elsku hjartans amma mín, það eru ekki til nægilega mörg orð í orðabókinni yfir það hversu dásamleg amma þú varst. Ég er svo þakklát fyrir öll árin okkar saman, þú varst besta vinkona mín, fyrirmynd mín og ég kveð þig með brotið hjarta en á sama tíma held ég fast í minningarnar okkar.

Þú varst einstök kona, sterk, dugleg, traust og þú varst svo þolinmóð við okkur öll. Ég gleymi því ekki þegar þú vaktir mig á morgnana, straukst vanga minn og hvíslaðir að mér „eigum við ekki að opna augun núna, nafna mín“. Þú varst einstök amma og ég var litla stelpan þín sem þú passaðir að aldrei vantaði neitt, eldaðir bestu kjötbollurnar þínar handa mér þegar ég vildi, sast með mig á lærinu og skrældir kartöflurnar sama hversu gömul ég var orðin, þú sást til þess að mér leið alltaf vel og verðlaunaðir mig þegar þér þótti ég vera dugleg. Það er sterk minning þegar þú bauðst mér í bíltúr í kaupfélagið og gafst mér fyrstu gúmmítútturnar mínar, vá hvað ég var glöð.

Sumarfrí, jólafrí, vetrarfrí, páskafrí, helgarfrí, ef það hét frí var ég komin til ykkar afa, þú stóðst í dyrunum og beiðst mín. Við brölluðum svo mikið saman, rökkurkórsæfingar, heyskapur, sauðburður, allar ferðirnar á gulu þrumunni upp á heiði með kindurnar og auðvitað stoppuðum við alltaf á Gili hjá Erlu og Frigga sem hafa tekið vel á móti þér núna og fengum við kaffi, djús og bakkelsi hjá þeim.

Þú gladdir mig og passaðir upp á að vernda mig og þegar þú varst sem veikust sagðir þú mér alltaf að þetta væri smávægis og þú yrðir komin heim eftir nokkra daga, sem þú gerðir svo margoft. En í þetta skipti varstu orðin lúin eins og þú sagðir við mig eftir hádegismatinn í Vallholti, Soffía mín, núna ertu orðin lúin, og kúrði ég í fanginu þínu og söngst þú mig í svefn. Amma mín, ég er svo þakklát að hafa fengið að syngja nokkrar vísur fyrir þig á síðustu tímunum þínum því þú tekur það með þér upp til englanna og mun ég aldrei gleyma þessari fallegu stund okkar.

Ég mun varðveita fallegu orðin þín og allar minningarnar okkar, elsku amma mín. Megi góður guð varðveita þig og passa upp á þig, hvíldu í friði fallegasti engillinn minn.

Amma mín

Amma, amma, ég er sko ekkert þreytt

þú varst nú ekki lengi að fá því breytt

í draumaheim komin var í

kleinur og kaffi biðu þín

Að tala við þig var svo gaman

á öllum þeim stundum sem við eyddum saman

Hún var svo góð, hún var svo klár

Æ hvað þessi söknuður er sár

Elsku hjartans amma mín

guð mun þig geyma

yfir okkur munt þú sveima

en eitt vil ég að þú vitir nú

mín allra besta amma það varst þú

Ég elska þig, virði, dái og dýrka

þín nafna

Soffía Dröfn (Lola litla).

Drottinn blessi alla, er unna þér,

sem eru farnir, eða dvelja hér,

og gefi þeim að lifa í ljóssins trú,

sem leggur milli sólkerfanna brú.

Mér gefur sýn, þú kemur heill í hlað,

heilsa vinir þér á fögrum stað.

Mér gefur sýn, og gleðin hrífur mig,

guðleg birta ljómar kringum þig.

(Jón Jónsson, Skagfirðingur)

Svo kvað afi Soffíu frá Bessastöðum í Sæmundarhlíð. Við hjónin, fjölskyldur okkar og stór hópur ættingja og vina kveðjum í dag skagfirskan höfðingja, en bjartar minningar um stórbrotna konu, vináttu hennar og tryggð munu lifa áfram í hugum okkar.

Soffía ólst upp í skagfirskum dal við búskap og sveitamenningu. Hún giftist ung Skagfirðingnum Hafsteini Lúðvíkssyni frá Sauðárkróki, sem syrgir nú ástkæra eiginkonu. Margar ógleymanlegar ánægjustundir áttum við Oddný með þeim hjónum í meir en sextíu ár og þær systur Oddný og Soffía frá barnæsku. Minningarnar hrannast upp frá samverustundum okkar yfir veislumat eða kaffibolla er við ræddum um Skagafjörðinn, búskapinn eða bara um lífið og tilveruna. Það var ávallt tilhlökkunarefni fyrir okkur þegar við komum á heimili þeirra í Skagafirðinum, fyrst að Ytra-Vallholti og síðar á Sauðárkróki og mæta þar einstakri hlýju og gestrisni. Við minnumst þeirra samverustunda með söknuði og virðingu.

Heimili þeirra hjóna var alltaf afar smekklegt og glæsilegt í senn, enda þau einstaklega gestrisin og höfðingjar heim að sækja. Soffía var einstök húsmóðir, listagóð matreiðslukona og við borð hennar var alltaf pláss. Heimilishættir þeirra hjóna voru rómaðir eins og mætur maður skrifaði. Allir sem sóttu þau hjónin heim hafa góðar minningar frá heimili þeirra.

Soffía var gædd miklum mannkostum, góðum gáfum, velviljuð og vinaföst. Hún var einstaklega hæfileikarík og allt virtist leika í höndunum á henni. Hún var afar söngvin og kunni ógrynni af ljóðum. Mikill lestrarhestur og það var aldrei langt í gleðina og húmorinn hjá henni. Hún þráði heitt að fá að lifa enn eitt ættarmótið í Melsgili nú í sumar. Þar verður hennar sárt saknað, en við munum minnast hennar þar með söng og gleði. Soffía var trygg vinum sínum og afar heilsteypt manneskja og hnjóðaði aldrei í neinn.

Síðustu æviárin hennar átti hún við vanheilsu að stríða, en hún var einstök hetja í baráttunni við ýmsa sjúkdóma og var alltaf ákveðin í að lifa lífinu lifandi og það gerði hún svo sannarlega.

Það voru forréttindi að fá að kynnast henni og eiga hana að systur, mágkonu og vinkonu um langt árabil. Að leiðarlokum er okkur efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu og samskipti sem aldrei bar skugga á. Hún var traustur félagi, hrein og bein, vinaföst og frá henni stafaði mikil innri hlýja. Fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfa konu með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hana.

Við vottum Hafsteini, Sæmundi, Hallfríði, Hörpu og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar.

Sveinn Runólfsson og fjölskylda.

• Fleiri minningargreinar um Soffíu Sæmundsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.