Charlotta Olsen Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 8. mars 1936. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 17. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Þórður Ágúst Jónsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu í Reykjavík, f. 26.8. 1896, d. 14.9. 1975, og Josefine Charlotta Olsen, f. 19.12. 1895, d. 19.4. 1971. Systur hennar eru 1) Hulda, fv. bankastarfsmaður, f. 21.2. 1927, d. 25.12. 2011. 2) Svana Ingibjörg, hárgreiðslumeistari, f. 11.10. 1930. Sonur hennar er Þórður Kristinn Kormáksson, f. 27.9. 1951.

Charlotta giftist 19.4. 1956 Úlfari Gunnar Jónssyni húsasmíðameistara , f. 24.1. 1936, d. 22.9. 2014. Börn þeirra eru: 1. Karl Ágúst, læknir, f. 3.2. 1956, d. 1.12. 1990. Kona hans er Henríetta Haraldsdóttir. Dætur þeirra eru: a) Charlotta, maður hennar er Halldór Kári Hreimsson og eiga þau dæturnar Móeiði Dóru, Sigurrós Huldu og Eirdísi Sögu. b) Josefine. Fyrir átti Henríetta dæturnar Jórunni Sólveigu og Sigríði Margréti. 2. Hulda Hrönn, f. 27.7. 1963, gift Aðalsteini Finsen. Börn þeirra eru: a) Úlfar Gunnar, kona hans er Kristín Rut Jónsdóttir og eiga þau Jón Jökul og Indíönu Huldu. b) Karen Ósk, maður hennar er Erling Proppe og eiga þau tvíburana Aron Óla og Breka Þór. c) Ólafur Karl. d) Dagur Kári. e) Eva Hrönn. 3. Edda Sólveig, f. 16.8. 1967. Unnusti hennar er Elías Guðmundsson. Börn Eddu eru: a) Karl Hrannar, kona hans er Herdís Magnúsdóttir og eiga þau tvö börn, Elmar Mána og Írisi Birtu. b) Árni Freyr. c) Elín Edda.

Charlotta ólst upp í Austurbænum í Reykjavík, lengst af í Norðurmýrinni að Skeggjagötu 7. Charlotta gekk í Austurbæjarskóla. Eftir gagnfræðaskóla vann hún við verslunarstörf. Hún var glæsileg kona og var valin í fyrstu fegurðarsamkeppni Íslands sem haldin var í Tívolí í Reykjavík árið 1954.

Dódó og Gunni, eins og þau voru ávallt kölluð, hófu búskap í Hæðargarði og fluttu síðan í nýbyggða blokk sem Gunnar byggði í Fellsmúla 13. Þar bjuggu þau í 13 ár. Síðan fluttust þau stutt á Skeggjagötuna meðan Gunnar kláraði byggingu einbýlishúss þeirra í Seljahverfinu í Breiðholti. Í Vaðlaselinu bjuggu þau þar til börnin uxu úr grasi. Fóru þau þá aftur á fornar slóðir í Háaleitishverfið, í Safamýrina og enduðu svo Gullsmára 7, fallegri íbúð fyrir eldri borgara.

Charlotta útskrifaðist sem sjúkraliði úr Sjúkraliðaskóla Íslands árið 1984. Hún starfaði sem sjúkraliði út starfsævina á Borgarspítalanum, Fæðingardeild Landspítalans og lokum á Lungnadeild Vífilsstaðaspítala.

Charlotta lést eftir mjög stutt veikindi á Landspítalanum. Hún verður jarðsungin í dag, 8. mars 2024, á 88 ára afmælisdegi sínum. Jarðsungið verður frá Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku amma mín, amma Dódó, er búin að kveðja þennan heim eftir stutt veikindi og er nú komin til afa Gunna, pabba og Huldu frænku. Ég vildi óska að ég hefði náð til þín í hinsta sinn, elsku amma. Ég er samt mjög þakklát fyrir kveðjustundina sem ég fékk með þér eftir að þú varst búin að kveðja þennan heim.

Mínar minningar af ömmu Dódó eru minningar af konu sem var sjálfstæð, glæsileg, félagslynd og mjög skemmtileg. Hún fór sínar eigin leiðir og hugsaði einstaklega vel um heimili og fjölskyldu. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu Dódó og afa Gunna. Móttökurnar einkenndust af hlýju, góðgæti og ískaldri kók. Oftast sátum við amma við eldhúsborðið að spjalla á meðan afi stóð og hlustaði. Á seinni árum, eftir andlát afa, á ég margar minningar af heimsóknum með stelpunum mínum í Gullsmárann. Stelpunum fannst langamma hávær og voða fyndin og höfðu aldrei séð svona hreint heimili. Það var yfirleitt til blómaís eða randalín og svo fengu þær auðvitað gos. Hún kveikti alltaf á sjónvarpinu fyrir þær og leyfði þeim að fletta í gömlum albúmum.

Amma og afi ferðuðust mikið og var amma dugleg að segja mér frá ferðunum, sérstaklega hringferðunum um Ísland. Við áttum margar góðar stundir síðastliðin ár, bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Síðustu utanlandsferðir ömmu voru einmitt til okkar í Svíþjóð, sem skilur eftir dýrmætar minningar. Amma naut þess að skoða Lund, fara á kaffihús, borða góðan mat, hvað þá að skjótast til Kaupmannahafnar í smá ferðalag. Kaupmannahöfn var nefnilega í miklu uppáhaldi hjá bæði ömmu og afa og þótti henni voða gaman að koma þangað aftur. Amma naut Svíþjóðarferðanna og talaði alltaf um að koma aftur í heimsókn til okkar til Lundar.

Að lokum vil ég minnast símtalanna okkar ömmu. Við töluðum mikið saman í síma alla tíð og má segja að það hafi verið sameiginlegt áhugamál að spjalla við fólk. Amma var ótrúlega minnug, stöðug fréttaveita um mál og menningu á Íslandi og afar áhugasöm að heyra um fjölskylduna í Svíþjóð. Ég er svo þakklát fyrir síðasta samtalið okkar áður en hún veiktist. Við töluðum heillengi saman og amma rifjaði upp að núna væri hlaupár eins og þegar Sigurrós dóttir mín fæddist fyrir 12 árum. Afi Gunni talaði einmitt alltaf um að ef það hefði ekki verið hlaupár það árið, hefði amma fengið Sigurrós í afmælisgjöf. Amma Dódó var einstaklega hress á meðan á samtalinu stóð og hlakkaði mikið til að fara í bollukaffi. Hún endaði símtalið, eins og alltaf, á því að segja: „Ég vildi að ég væri bara komin til þín, Charlotta mín.“ Þó að ég hafi vitað að amma væri með erfitt krabbamein þá óraði mig ekki fyrir því að þetta yrði síðasta samtalið okkar.

„Elsku amma Dódó, ég er svo þakklát að hafa átt þig að. Ég kveð þig með miklum söknuði og ég mun sakna löngu samræðnanna okkar. Þú munt lifa áfram í hjarta mínu.“

Þín

Charlotta.