[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er fæddur í Lúxemborg, afi minn og amma komu hingað fyrir mjög löngu, vegna þess að afi minn fékk starf hér sem flugmaður.“

Ég flutti til Þýskalands fyrir rúmum 15 árum, því maðurinn minn, sem er þýskur, fékk prestsembætti hér. Mamma mín þekkti fólk í Lúxemborg og við fórum í heimsókn þangað og þá kom í ljós að það var mikill áhugi á að fá mig til að vera með guðsþjónustur þar, enda mun auðveldara fyrir mig að ferðast þangað frá Þýskalandi heldur en presta frá Íslandi. Það tekur rúma tvo klukkutíma að keyra heiman frá mér og til Lúxemborgar. Þegar ég byrjaði, fyrir 12 til 13 árum, var söfnuðurinn með samskot til að greiða fyrir kirkju, organista, prest og kór og ég kom bara þegar kallað var á mig, ég kallaði þetta viðhaldið mitt. Um haustið 2020 tók ég svo við starfi prests Íslendinga í London og Lúxemborg,“ segir Sjöfn.

Í hverju felst að vera prestur í Lúxemborg?

„Það sem ég geri einna helst er að koma suður eftir og messa. Ég sé líka um útfarir, fermingarfræðslu, fermingar og skírnir. Sálgæsla er líka stór hluti af starfinu mínu. Stundum er ég beðin um að gifta fólk, en það er bara hægt ef fólk hefur fyrst gift sig hjá sýslumanni. Ég þjóna líka íslenska söfnuðinum í London, þar sem ég geri svipaða hluti og í Lúxemborg.“

Hvernig er samfélag Íslendinga á svæðinu?

„Það hefur verið stór hópur Íslendinga í Lúxemborg síðan upp úr 1960. Íslendingar komu þangað þegar Loftleiðir fóru að fljúga þangað og voru þá allir tengdir fluginu. Síðan fór að vera bankastarfsemi hér líka og á tímabili voru upp undir þúsund Íslendingar hérna. Það hefur nú fækkað mikið í hópnum og upphaflegi hópurinn farinn að eldast en barnabörnin þeirra eru núna á fermingaraldri. Þetta er sem sagt þriðja kynslóð Íslendinga í Lúxemborg og þau tala öll mjög góða Íslensku. Það er aðdáunarvert.“

Eru mörg fermingarbörn í ár?

„Það stóð til að þau yrðu sex í þetta sinn en tveir forfölluðust á síðustu stundu. Undanfarið hefur hópurinn verið fimm til tíu fermingarbörn, en það koma líka börn frá Hollandi og Belgíu og einstaka sinnum frá Þýskalandi. Mest vorum við 14 fyrir sennilega tíu árum.“

Fermingarfræðslan eins og í Grimmsævintýrunum

Sjöfn leggur mikla áherslu á að kalla fram góða stemningu í fermingarhópnum.

„Þegar ég byrjaði að sjá um fermingarfræðsluna, fyrir um 13 árum, þá fór ég suður til Lúxemborgar og hitti þau um helgar, en mér fannst ég aldrei ná nægilega góðri stemningu. Mér finnst mikilvægt að tvinna saman fræðsluþáttinn, upplifunina og samfélagið og langaði að reyna að endurskapa Vatnaskógarstemninguna hér úti. Það er alltaf einstakt að fara með fermingarhóp í Vatnaskóg. Ég var á þessum tíma afleysingaprestur í EKD, þýsku mótmælendakirkjunni, og hafði farið með fermingarhóp í söfnuðinum í Linnich hingað upp í Hohes Venn í Belgíu í alveg einstakt hús, lengst uppi í sveit, við skógarjaðarinn, einum kílómetra frá þýsku landamærunum. Ég féll alveg fyrir svæðinu og húsinu og var þarna búin að finna staðinn þar sem ég var viss um að ég næði að endurskapa þessa nostalgísku Vatnaskógarstemningu sem ég sakna svo mikið. Síðan þá hef ég komið hingað með hópa.

Við höfum notið þess að vera hér í algjöru netleysi, kyrrð og undurfagurri náttúru sem minnir á lýsingar úr Grimmsævintýrunum. Við byrjum alltaf á að skreyta kerti, við spáum í tilveruna okkar og hvernig Guð passar þar inn í, hvernig Guð er og hvernig við getum náð tengingu við Guð. Tenginguna reynum við að fá, þegar við setjumst niður seint á kvöldin og höfum bænastund. Svo er líka altarisganga og það finnst fermingarbörnunum alltaf vera mjög hátíðleg stund. Við spáum í það hvaða boðskap Jesús flytur okkur í dag og hvernig við getum lifað lífinu sem kristið fólk, hvernig Biblían hjálpar okkur að skilja Guð og boðskap Jesú og að það sé mikilvægt að muna að Guð er enn að tala og að við þurfum að leggja við hlustir til að heyra orð Guðs.

Við erum svolítið í því að föndra og svo undirbúum við guðsþjónustu sem fermingarbörnin taka þátt í, í Lúxemborg. Það er svolítið merkilegt að segja frá því að það sem oft stendur upp úr hjá fermingarbörnunum er næturgangan. Við förum hérna út í skóg, ég kveiki á kertum og stilli þeim upp á göngustíg og skil fermingarbörnin eftir við upphaf stígsins. Þau koma svo eitt í einu og ganga ein til mín í gegnum myrkrið, með Davíðssálminn fallega nr. 23, Drottinn er minn hirðir, í huganum, „jafnvel þó ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér.“ Ég hafði ætlað mér að hætta þessu núna, því mér hafði einhvern veginn fundist að þetta gæti verið svolítið mikið að ætlast til af þeim, en fermingarbörnin í ár tóku það ekki í mál og vildu endilega fá að gera þetta líka,“ segir Sjöfn.

Fermast börn í Lúxemborg eða er einhver athöfn sem svipar til okkar hefðar?

„Kaþólska kirkjan er stærsta kirkjudeildin í Lúxemborg og í henni er athöfn sem svipar til fermingarinnar, en þá fá börnin í fyrsta sinn að taka á móti brauðinu í altarisgöngunni. Börnin eru um það bil tíu ára þegar þau fara í fræðsluna tengda þessu og að henni lokinni fermast þau. Mótmælendakirkjan er líka með fermingar og eru þær mjög svipaðar og hjá okkur hvað varðar athöfnina og fræðsluna en veisluhöldin eru miklu minni í sniðum. Oft fara nánasta fjölskyldan og skírnarvottarnir út að borða saman en það er sjaldgæft að þetta séu 100 manna veislur. Íslensku börnin í Lúxemborg velja mörg hver að fermast heima á Íslandi en sum þeirra fermast í Lúxemborg.“

Gott að búa í Lúxemborg

Leon Ari Ottósson fermist í vor. Hann hefur verið í fermingarfræðslu hjá Sjöfn Müller Þór í Lúxemborg.

„Ég er fæddur í Lúxemborg, afi minn og amma komu hingað fyrir mjög löngu, vegna þess að afi minn fékk starf hér sem flugmaður. Ég er mjög feginn að búa í Lúxemborg. Hér eru góðir skólar, gott fólk og almennt hafa allir það mjög gott hér,“ segir Leon Ari um hvernig það er að búa í Lúxemborg.

Leon Ari segir ekki óvenjulegt að hitta aðra íslenska unglinga í fermingarfræðslunni þar sem stór hluti fjölskyldu hans býr í Lúxemborg. „Ég á marga íslenska ættingja í Lúxemborg, frændsystkini mín voru líka í fermingarbúðunum og ég hitti þau oft. Það er samt gott að vita að maður er ekki eini Íslendingurinn í Lúxemborg,“ segir hann.

Hvað hefur verið skemmtilegast í fermingarfræðslunni

„Það var margt mjög skemmtilegt en skemmtilegast var altarisgangan og að heimsækja lítinn bæ sem heitir Monschau.“

Hvernig var í fermingarbúðunum?

„Mér fannst mjög gaman í fermingarbúðunum. Við töluðum mikið um hlutina og fengum að spyrja alls konar spurninga. Við vorum líka að vinna verkefni en fengum líka fullt af frítíma sem við gátum notað til að vera í borðtennis og svoleiðis. Almennt fannst mér ekkert leiðinlegt.“

Ætlar þú að halda veislu?

„Ég er að spá í að halda litla fermingarveislu.“

Hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Mig langar mest í peninga í fermingargjöf.“

Eru jafnaldrar þínir úti að fermast líka?

„Já, sumir jafnaldrar mínir eru að fermast. Og þau halda svipaðar veislur og ég.“

Flatkökur með hangikjöti ómissandi en sleppa kransakökunni

Móðir Leons Ara, Anna María Jóhannesdóttir, segir að það stefni í að veislan fari fram í Mósedalnum.

„Við erum lengi búin að vera velta fyrir okkur hvort við eigum að vera með veisluna hér eða á Íslandi. Það þarf alltaf að ferja töluvert af ættingjum á hvorn staðinn. Í okkar tilfelli þá eru systkin og frændsystkin að fermast saman. Eins og stendur þá stefnir líklega í fermingu hér í Lúxemborg og að veislan verði haldin í Móseldalnum, sem eru okkar heimahagar hér úti.

En við erum ekkert farin að pæla eða græja skreytingar, greiðslur eða sparifötin.“

Finnið þið fyrir því að hefðirnar séu öðruvísi á Íslandi en þar sem þið búið?

„Hér í Lúxemborg eru langflestir kaþólikkar þannig að „communion“ eða altarisgangan er gerð þegar börnin eru níu ára. Að því leyti er ekki hægt að bera það saman.“

Ber veislan eða fermingardagurinn keim af siðum sem þið hafið tileinkað ykkur af dvöl ykkar erlendis eða verður dagurinn og veislan mjög íslensk?

„Mér sýnist nú að íslensku veislunar séu almennt orðnar frekar alþjóðlegar. Við munum örugglega líka fara pinnamatarleiðina. En hangikjöt og flatkökur eru ómissandi. Hins vegar erum við öll sammála um að sleppa kransakökunni. Okkur finnst franska kökuhefðin betri.“

Fagnið þið áfanganum með öðrum Íslendingum?

„Við erum með nokkuð stóra íslenska fjölskyldu, þrjár kynslóðir, sem býr hér í Lúxemborg. Börnin okkar eru því önnur kynslóðin sem fæðist hér úti. Við það bætast lúxemborgskar, finnskar og amerískar tengdafjölskyldur og aðeins af vinafólki héðan. Svo bjóðum við líka ættingjum frá Íslandi, en þar sem það komast ábyggilega færri en vilja hendum við kannski í gott grill í sveitinni á Íslandi í sumar.“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |