Verslun Viðskiptavinur kallaði Guðmund „Gumma Allteins“ í tölvupósti.
Verslun Viðskiptavinur kallaði Guðmund „Gumma Allteins“ í tölvupósti. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðmundur Marteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lágvöruverslunarinnar Bónuss, sagði í gær á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, að margir kvörtuðu í dag undan skorti á fyrirsjáanleika í rekstri, vegna mikillar verðbólgu,…

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Guðmundur Marteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lágvöruverslunarinnar Bónuss, sagði í gær á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, að margir kvörtuðu í dag undan skorti á fyrirsjáanleika í rekstri, vegna mikillar verðbólgu, óvissu varðandi kjarasamningsmál og ástands í heimsmálunum m.a., en slíkt hefði aldrei verið vandamál í Bónus. „Uppsetningin er svo einföld og við svo sveigjanleg. Við erum því fljót að laga okkur að breyttum aðstæðum,“ sagði Guðmundur.

Í samtalinu rakti hann í stuttu máli sögu Bónuss og aðkomu sína að fyrirtækinu, en hann hóf störf við áfyllingar í Faxafeni árið 1992. Nú 32 árum síðar er hann hættur störfum, en hann var framkvæmdastjóri í 25 ár, frá 1998 til ársloka 2023. Hann segir árin hafa liðið hratt. „Það var einhvern veginn alltaf föstudagur. Ég uppgötvaði að það er líf fyrir utan Bónus,“ sagði Guðmundur.

Hann var á fundinum spurður að því hvort Jón Ásgeir Jóhannesson, annar stofnenda Bónuss, sem nú er við stjórnvölinn hjá fjárfestingarfélaginu Skel, sem meðal annars rekur Heimkaup og fleiri smásöluverslanir, hefði ekki falast eftir kröftum hans fyrst hann væri hættur hjá Bónus. Hann sagði að það hefði vissulega komið til tals en hann hefði hafnað því. Ef hann hefði viljað vera áfram í smásölugeiranum hefði hann einfaldlega haldið áfram í Bónus.

Þrýstu á birgja

Eins og alkunna er hefur Bónus lagt áherslu á að vera með lægsta verð á markaðnum og sett þrýsting á birgja um lægra innkaupsverð. Fyrstu árin þegar fyrirtækið var smærra en það er í dag var ekki eins auðvelt að krefjast lægra verðs að sögn Guðmundar. Hann segir að það hafi komið fyrir að birgjar hafi neitað að selja Bónus vörur því verslunin lagði lítið á þær. Bónus hafi framan af oft fengið vörurnar dýrari frá heildsölum en samkeppnisaðilar þess tíma eins og Hagkaup og Nóatún.

Guðmundur segir Bónus hafa brugðist við þessu með því að leita fanga erlendis. „Það er gaman að segja frá því að athafnamaðurinn og heildsalinn Herluf Clausen lagði okkur þar lið. Hann ferðaðist um allan heim og leitaði að merkjavörum fyrir Bónus og við byrjuðum að flytja inn á fullu.“

Guðmundur segir að í kjölfarið hafi íslenskir birgjar áttað sig á að mögulega væri hægt að fá betra verð fyrir Ísland erlendis. „Ísland er skilgreint sem velmegunarríki og því er háu heildsöluverði haldið uppi. Oft voru birgjar að bjóða okkur vörur án virðisaukaskatts á hærra verði en þær voru á út úr búð í nágrannalöndunum. Birgjar þurftu að breyta vinnubrögðum sínum og pressa á tengiliði sína erlendis til að fá betra verð. Öll sú vinna hefur skilað sér til neytenda.“

Guðmundur sagði frá bréfi sem hann fékk eitt sinn frá viðskiptavini sem kvartaði yfir að Bónus væri stöðnuð verslun – hún væri alltaf eins. „Hann sagði: „Þú ert kallaður Gummi Marteins en ættir frekar að vera kallaður Gummi Allteins.““

Seldu helmingi meira af lauk

Guðmundur var á fundinum spurður út í sjálfsafgreiðslukassana og hvort þeir og aðrar lausnir eins og Gripið og greitt myndu alfarið taka yfir afgreiðslu í Bónusbúðum. Hann svaraði því neitandi. „Í dag fara 60% af veltunni í gegnum sjálfsafgreiðslukassana. Þeir virka vel og fólk kann að meta þá. En við verðum alltaf með venjulega kassa líka. Við viljum ekki þvinga fólk í sjálfsafgreiðsluna.“

Spurður um rýrnun segir Guðmundur að hún væri fylgifiskur verslunar. Það myndi líklega aldrei breytast. Um það hvort rýrnun hefði aukist eftir að sjálfsafgreiðslukassarnir voru teknir í gagnið sagði Guðmundur að svo væri og að sala á lauk hefði til dæmis stóraukist. „Við seljum helmingi meira af lauk en við kaupum inn. Það er einhver ástæða fyrir því,“ sagði Guðmundur og uppskar hlátur úr sal.

Höf.: Þóroddur Bjarnason