Þjálfari Guðmundur Þórður Guðmundsson fylgist með á hliðarlínunni.
Þjálfari Guðmundur Þórður Guðmundsson fylgist með á hliðarlínunni. — Ljósmynd/Fredericia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í danska handknattleiksfélaginu Frederica hafa komið mörgum á óvart á yfirstandandi keppnistímabili.

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í danska handknattleiksfélaginu Frederica hafa komið mörgum á óvart á yfirstandandi keppnistímabili.

Fredericia situr sem stendur í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 30 stig, fimm stigum minna en topplið Aalborg, þegar tveimur umferðum er ólokið af deildarkeppninni.

Guðmundur Þórður, sem er 63 ára gamall, tók við þjálfun Fredericia sumarið 2022 en liðið hafnaði í þriðja sæti á síðustu leiktíð eftir að hafa hafnað í sjöunda sæti deildarkeppninnar.

Landsliðsþjálfarinn fyrrverandi er gríðarlega reynslumikill þjálfari en hann hefur stýrt stórliðum á borð við Rhein-Neckar Löwen og Melsungen á þjálfaraferlinum, ásamt því að stýra landsliði Íslands frá 2001 til 2004, frá 2008 til 2012 og frá 2018 til 2023. Íslenska liðið vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 undir stjórn Guðmundar, sem og bronsverðlauna á EM í Austurríki árið 2010.

Þá hefur hann einnig stýrt landsliðum Danmerkur og Barein á þjálfaraferlinum en hann gerði Dani að Ólympíumeisturum í Ríó í Brasilíu árið 2016.

„Þetta hefur verið ævintýri líkast,“ sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.

„Þegar ég tók við liðinu gerðum við ákveðið plan um að eftir þrjú ár væri liðið byrjað að keppa um þær medalíur sem í boði voru. Hlutirnir hafa hins vegar gengið mun betur fyrir sig en við þorðum að vona. Við unnum til bronsverðlauna á síðustu leiktíð þegar við lögðum Skjern í leiknum um þriðja sætið en þetta var fyrsta medalía Fredericia í 43 ár. Það má því með sanni segja að síðasta tímabil hafi verið stórkostlegt, sem og úrslitakeppnin í fyrra,“ sagði Guðmundur.

Stórt skref fram á við

Líkt og áður sagði hefur gengi Fredericia á tímabilinu verið frábært en liðið var taplaust í tíu deildarleikjum í röð frá október og fram í febrúar.

„Síðasta tímabil var í raun ákveðinn forsmekkur yfirstandandi tímabils þar sem gengið hefur verið framar vonum. Við höfum verið að spila mjög góðan handbolta, á öllum sviðum leiksins og sýnt mikinn stöðugleika. Við höfum stigið mjög stórt skref fram á við á stuttum tíma og það má alveg segja sem svo að þetta sé ný staða fyrir klúbbinn í heild sinni. Þetta var topplið Danmerkur árið 1975 en síðan þá hefur gengið verið upp og ofan.

Eins og staðan er í dag eigum við mjög góða möguleika á því að enda í öðru sæti deildarkeppninnar sem yrði frábært afrek. Við fórum alla leið í úrslitahelgi bikarkeppninnar þar sem við töpuðum naumlega fyrir GOG í framlengingu í undanúrslitum en þetta er í fyrsta sinn sem Fredericia fer í undanúrslit bikarkeppninnar. Félagið hefur tekið mörg skref fram á við eins og ég kom inn á áðan og það er sérstakt að vera kominn í þá stöðu að önnur topplið í Danmörku séu allt í einu að elta okkur.“

Þekkir ekkert annað

En hver er lykillinn að góðu gengi Fredericia undir stjórn Guðmundar?

„Í fyrsta lagi hefur það verið mjög skemmtilegt að móta þetta lið. Lykillinn að velgengninni er meðal annars frábær varnarleikur, markvarslan og svo hraðaupphlaupsmörkin sem við höfum verið að skora. Okkur hefur líka tekist að búa til góðan sóknarleik úr mannskapnum sem við erum með en staðreyndin er sú að það eru ekki margir landsliðsmenn sem leika með liðinu. Það er stærsti munurinn á okkar liði og hinum toppliðunum í Danmörku sem við erum að berjast við á toppi deildarinnar.

Aalborg er með 13 núverandi landsliðsmenn innan sinna raða og tvo fyrrverandi landsliðsmenn. Bjerringbro/Silkeborg er með átta, fyrrverandi og núverandi, landsliðsmenn og það er svipað hjá GOG. Við erum því talsvert öðruvísi samsett lið en liðin sem við erum að bera okkur saman við. Við höfum því þurft að hafa mikið fyrir því að komast á þann stað sem við erum á í dag. Það hefur farið gríðarlega mikil vinna í það að byggja upp og móta liðið. Ég geri miklar kröfur líka til allra sem hér starfa og ég geri miklar kröfur til sjálfs mín. Ég þekki ekkert annað og aðeins þannig næst árangur.“

Allt á öðrum endanum

Guðmundur er ánægður með umgjörðina hjá félaginu þar sem er allt til alls.

„Ég hef fengið mikinn stuðning frá bæði stjórn félagsins sem og leikmönnum liðsins. Stemningin á heimaleikjunum okkar í Fredericia hefur líka verið vægast sagt mögnuð. Það er erfitt að lýsa henni með orðum ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Fredericia er mikill handboltabær og eftir að okkur fór að ganga svona vel hefur nánast allt verið á öðrum endanum í bænum. Ég vil meina það að við séum með bestu stuðningsmenn deildarinnar og þeir eiga svo sannarlega sinn þátt í árangri liðsins á tímabilinu.

Þegar við spiluðum við Aalborg á dögunum, í toppslag deildarinnar, minnti stemningin á leiknum á leiki í Meistaradeildinni í Austur-Evrópulöndum, svo góð var hún. Áhorfendur lifðu sig vel inn í leikinn og voru mjög vel með á nótunum. Það er því mikil jákvæðni í kringum klúbbinn þessa dagana og það eru ótrúlega mikil forréttindi að fá að vera þátttakandi í því. Maður getur varla farið út í búð að versla án þess að fólk komi til manns og tali um handbolta. Ég er mjög stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og því sem árangurinn hefur gert fyrir bæinn.“

Allt getur gerst

Að hefðbundinni deildarkeppni lokinni tekur við úrslitakeppni í Danmörku þar sem átta efstu lið deildarinnar skiptast í tvo fjögurra liða riðla. Liðin sem enda í efstu tveimur sætunum taka með sér tvö stig inn í úrslitakeppnina, liðin í þriðja og fjórða sæti taka með sér eitt stig en liðin í 4.-8. sæti fara stigalaus inn í úrslitakeppnina.

Í riðlakeppninni verða svo leiknar tvær umferðir þar sem liðin mætast heima og að heiman en tvö efstu lið hvors riðils fyrir sig komast áfram í undanúrslitin.

„Þegar komið er inn í þessa úrslitakeppni getur allt gerst og við sýndum það á síðustu leiktíð. Markmiðið sem við settum okkur, farandi inn í tímabilið, var að tryggja okkur Evrópusæti og það er ennþá markmið liðsins. Við ætluðum okkur einnig í undanúrslit bikarkeppninnar sem tókst líka þannig að við erum á réttri leið með þetta allt saman. Eftir gott gengi á tímabilinu fórum við að setja stefnuna hærra í deildinni og voru efstu fjögur sætin eitthvað sem við horfðum til en í dag erum við að horfa á það að enda í efstu tveimur sætunum.

Það er of snemmt að segja til um það í dag hvernig úrslitakeppnin mun þróast. Það veltur mikið á því hjá okkur að allir leikmenn liðsins haldist heilir enda erum við ekki með sömu breidd og liðin sem við erum að keppa við. Allir leikir í Danmörku eru erfiðir enda er deildin mjög jöfn. Það er enginn leikur auðveldur hérna, hvað þá þegar komið er inn í úrslitakeppnina. Taktískt eru liðin hérna mjög góð líka og hver leikur er mikil áskorun fyrir þjálfarann. Á sama tíma er mikil tilhlökkun innan félagsins að fara inn í úrslitakeppnina í þeim gír sem við höfum verið í og spennan er mikil,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við Morgunblaðið.