Sigrún Þorgeirsdóttir
Sigrún Þorgeirsdóttir
Um alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars og verkefni Soroptimistasambands Íslands.

Sigrún Þorgeirsdóttir

Soroptimistasamband Íslands er hluti af alheimshreyfingu kvenna og eru markmið hreyfingarinnar m.a. að vinna að bættri stöðu kvenna, jafnrétti, framförum og friði í heiminum.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 8. mars og Soroptimistar um allan heim munu vekja athygli á baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á þessum degi. Slagorð okkar þennan dag er Hvar kreppir skórinn? Víða kreppir skórinn í okkar samfélagi og Soroptimistasystur ganga saman til góðra verka til að vinna að því að styrkja og efla konur. Verkefni Soroptimista á Íslandi miðast m.a. að því að styðja við menntun kvenna sem búa við erfiðar aðstæður, berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og valdefla konur í viðkvæmri stöðu.

Í tilefni dagsins hefur verið skipulagður hádegisfundur á Akureyri í samvinnu Soroptimistaklúbbs Akureyrar og fleiri klúbba á svæðinu. Konur á átakasvæðum er umfjöllunarefni fundarins. Soroptimistar á Íslandi hafa undanfarin ár stutt við konur á átakasvæðum í samvinnu við Evrópusamband Soroptimista.

Norrænir Soroptimistar vinna saman að markmiðum sínum með því að styrkja ungar stúlkur til að fara á leiðtoganámskeið og skiptast löndin á að skipuleggja námskeiðið. Íslenskar systur héldu leiðtoganámskeið á Bifröst fyrir tveimur árum og þótti það takast mjög vel.

Mikilvægur þáttur í stuðningi íslenskra Soroptimista við konur er að styrkja þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Soroptimistar hafa á undanförnum árum veitt styrki til þolendamiðstöðvanna Bjarkarhlíðar í Reykjavík, Bjarmahlíðar á Akureyri og Sigurhæða á Selfossi. Og núna nær þjónusta við þolendur ofbeldis til kvenna um allt land.

Höfundur er forseti Soroptimistasambands Íslands.