Markahæst Embla Steindórsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Selfoss í Laugardalshöllinni í gærkvöldi en fær óblíðar móttökur frá vörninni.
Markahæst Embla Steindórsdóttir úr Stjörnunni sækir að marki Selfoss í Laugardalshöllinni í gærkvöldi en fær óblíðar móttökur frá vörninni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjarnan og Valur mætast í bikarúrslitum kvenna í handbolta í fjórða skipti á morgun eftir ólíka sigra í undanúrslitunum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Stjarnan hafði betur gegn Selfossi, 26:25, eftir æsispennandi og framlengdan leik

Bikarinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Stjarnan og Valur mætast í bikarúrslitum kvenna í handbolta í fjórða skipti á morgun eftir ólíka sigra í undanúrslitunum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.

Stjarnan hafði betur gegn Selfossi, 26:25, eftir æsispennandi og framlengdan leik. Var staðan 23:23 eftir venjulegan leiktíma og við tók framlenging. Þar hafði Stjarnan að lokum betur með minnsta mun, en Selfoss fékk nokkur tækifæri til að jafna í lokin en án árangurs.

Stjörnukonur hafa óvænt verið í miklum erfiðleikum í úrvalsdeildinni í vetur og staðið í ströngu í fallbaráttu, þrátt fyrir að vera með marga sterka leikmenn á sínum snærum. Eru liðsmenn Stjörnunnar með ófáa landsleiki á ferilskránni. Á sama tíma eru Selfyssingar búnir að vera með gríðarlega yfirburði í 1. deildinni, enda með þrjár landsliðskonur í sínu liði, og mátti því búast við hörkuleik, sem varð raunin.

Katla María Magnúsdóttir, ein landsliðskonan í liði Selfoss, fór meidd af velli í fyrri hálfleik og munaði um minna. Ekki er ósennilegt að úrslit leiksins hefðu verið önnur ef Katla hefði spilað allan leikinn.

Embla Steindórsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Helena Rut Örvarsdóttir fimm. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði átta fyrir Selfoss og Tinna Sigurrós Traustadóttir sex.

Stjarnan er á leiðinni í bikarúrslit í 16. skipti og í fyrsta skipti frá árinu 2017, en það ár vann Stjarnan annað árið í röð.

Þriðja árið í röð hjá Val

Valur leikur til úrslita þriðja árið í röð og í fjórða skiptið á síðustu sex árum eftir öruggan 29:21-sigur á ÍR. Valsliðið, sem er í toppsæti úrvalsdeildarinnar, var með yfirhöndina frá upphafi til enda og munaði sjö mörkum í hálfleik, 17:10. Þann mun náði ÍR ekki að brúa og Valur leikur enn og aftur til úrslita um bikarinn.

ÍR-ingar geta verið stoltir af framgöngu síns liðs á leiktíðinni og er það afrek fyrir Breiðholtsliðið að komast í undanúrslit. Liðið lék síðast til úrslita árið 1984 og vann bikarinn í fyrsta og eina skiptið ári fyrr. Hefðin og reynslan var því með Valskonum í liði.

Þrátt fyrir að vera nýliði í deild þeirra bestu hefur ÍR ekki verið í fallbaráttu í vetur. Það eitt og sér er afrek og að fá undanúrslitaleik í Laugardalshöllinni fyrir framan stórgóða áhorfendur var aukagulrót. Ekki þarf að skammast sín fyrir tap gegn besta liði landsins.

Valur tapaði fyrir ÍBV í úrslitaleiknum fyrir ári, 29:31. Árið á undan hafði Valur betur gegn Fram, 25:19. Valur hafði einnig betur gegn Fram 2019, 24:21.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val með níu mörk. Elín Rósa Magnúsdóttir gerði sex og Hildigunnur Einarsdóttir fimm. Eru þær allar landsliðskonur. Karen Tinna Demian var markahæst hjá ÍR með sex mörk. Sigrún Ása Ásgrímsdóttir skoraði fjögur.

Sagan með Val í liði

Stjarnan og Valur mættust fyrst í úrslitum árið 1988 og hafði Valur þá betur með fimm marka mun, 25:20. Fimm árum síðar mættust þau aftur og aftur hafði Valur betur. Rétt eins og árið 1988 skoraði Valur 25 mörk, en nú gegn 23 mörkum Stjörnunnar.

Liðin mættust í þriðja sinn í úrslitum árið 2014 og enn fagnaði Valur sigri, 24:19. Sagan er því með Valskonum, sem eru með 100 prósent sigurhlutfall gegn Garðbæingum í bikarúrslitum.