Baldur Þorsteinsson fæddist í Sauðlauksdal við Patreksfjörð 5. ágúst 1924. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 23. febrúar 2024.

Foreldrar Baldurs voru hjónin Guðrún Petrea Jónsdóttir, húsfreyja og prestsfrú, f. 24.12. 1901 í Keflavík, d. 2.5. 1977, og séra Þorsteinn Kristjánsson, sóknarprestur í Sauðlauksdal, f. 31.8. 1891 á Þverá, Hnappadalssýslu, d. 18.2. 1943. Systkini Baldurs voru Guðrún, kennari, f. 28.7. 1921, d. 28.3. 1983, Bragi, verkfræðingur, f. 8.3. 1923, d. 25.6. 2016, Jóna, bókasafnsfræðingur og prestsfrú, f. 21.2. 1927, d. 6.1. 2001, og Helgi, skólastjóri og menntaskólakennari, f. 13.9. 1936, d. 25.11. 2008. Hinn 23. júní 1951 kvæntist Baldur Jóhönnu Arnljótu Friðriksdóttur, menntaskólakennara og húsmóður, f. 12.2. 1929. Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Hólmfríður Hemmert, talkennari í Kópavogi, og Friðrik Jónasson, kennari í Reykjavík. Börn Baldurs og Jóhönnu eru fimm: 1) Þorsteinn, kennari, f. 7.3.1952, kvæntur Evu-Mariu Petterson-Baldursson, sjúkraliða. Þorsteinn var kvæntur Ingileif Steinunni Kristjánsdóttur, líffræðingi. Þau skildu. Dóttir þeirra er Kristín Þyri, félagsráðgjafi, f. 10.9. 1977, börn hennar eru Sunneva Eldbjörg Sigtryggsdóttir, f. 3.4.2004 og Daníel Viljar Sigtryggsson, f. 20.11.2006. Sambýliskona Þorsteins var Carina E. Lindh, sjúkraliði. Þau skildu. Sonur þeirra er Johan Fredrik Lindh, f. 27. apr. 1987. 2) Björn Eðvald Baldursson, rafmagnstæknifræðingur, f. 13.2. 1954. 3) Friðrik Már Baldursson, stærðfræðingur, f. 11.4. 1957, kvæntur Kristínu Björnsdóttur, hjúkrunarfræðingi og prófessor við Háskóla Íslands. Börn þeirra eru Jóhanna Katrín, miðaldafræðingur, f. 1.4. 1980, gift Anders Winroth, sagnfræðingi, og Björn Már, sérnámslæknir, f. 11.6. 1990. Sambýliskona Björns er Guðbjörg A. Finnbogadóttir, hjúkrunarfræðingur. 4) Baldur Tumi Baldursson, læknir og sérfræðingur í húðsjúkdómum, f. 30.6. 1959, kvæntur Sólveigu Önnu Bóasdóttur, guðfræðingi og prófessor við Háskóla Íslands. Börn þeirra eru Nína, verkfræðingur, f. 24.1. 1986, dóttir hennar er Sólveig Freyja Agnarsdóttir, f. 31.7. 2014, og Kolbeinn Tumi, sjúkraþjálfari, f. 24.2. 1991. Sambýliskona Kolbeins er Katrín Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, dóttir þeirra er Eldey, f. 1.10. 2022. 5) Guðrún Margrét Hemmert Baldursdóttir, lögfræðingur, f. 26.6. 1968. Sambýlismaður Guðrúnar er Alexander Karlsson, háskólanemi. Sambýlismaður Guðrúnar var Gunnar Sturluson, lögfræðingur. Þau skildu. Dóttir þeirra er Borghildur, háskólanemi, f. 8.5. 1998.

Baldur ólst upp í Sauðlauksdal þar til hann hóf nám við Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent þaðan 1945. Það haust hóf hann nám í skógfræði við Den Kongelige Veterinær- og Landbohøjskole í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi sem skógfræðikandídat árið 1951. Þá réði hann sig til Skógræktar ríkisins og starfaði þar allan sinn feril, síðast sem aðstoðarskógræktarstjóri. Á langri starfsævi kom hann að flestum þáttum skógræktar á Íslandi, hafði meðal annars yfirumsjón með rekstri gróðrarstöðva á vegum Skógræktar ríkisins og sá um fjármál stofnunarinnar. Hann lék stórt hlutverk í áætlanagerð á sviði skógræktar og gerði meðal annars fyrstu skóghagfræðilegu greininguna á arðsemi skógræktar til stuðnings áætlunar um ræktun lerkis á Héraði. Síðasta verk Baldurs hjá Skógræktinni var vinnsla nákvæmrar skráar um öll trjáfræ sem Skógrækt ríkisins hafði aflað og afhent á árabilinu 1933 til 1992. Í þessu verkefni kom sér vel orðlögð nákvæmni og vandvirkni Baldurs.

Baldur og Jóhanna reistu sér hús í Grænutungu 5 í Kópavogi og bjuggu þar í um fimmtíu ár.

Útför Baldurs fer fram frá Digraneskirkju í dag, 8. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Sauðlauksdalur er gróðursælt dalverpi inn úr Patreksfirði. Þar óx faðir minn úr grasi. Á bænum voru foreldrar hans, systkini, vinnufólk og fjöldi fólks sem dvaldist á prestsetrinu um lengri eða skemmri tíma ýmist til skólagöngu eða einfaldlega vegna þess að ekki var nóg til skiptanna á heimilunum. Hann mundi þetta fólk og það mundi eftir honum.

Í þessu umhverfi naut pabbi forréttinda öruggs uppvaxtar og leiks og starfs. Faðir hans gerði prestssetrið að menntasetri. Þaðan komst fólk, sem átti þess kost á annað borð, beint inn í menntaskóla, þar á meðal pabbi.

Eins og nærri má geta fólst starf hans á skrifstofu Skógræktarinnar mikið til í skriffinnsku, áætlanagerð og fjárhagsuppgjörum sem kannski var ekki það sem hann hafði séð fyrir sér. Árlegar hringferðir að sumarlagi í starfsstöðvar Skógræktarfélaganna voru tilbreyting. Þar var skrafað og gefin góð ráð þeim sem ræktuðu upp plöntur og gróðursettu þær. Sama máli gegndi um umsjón hans með skógræktarstarfinu í Haukadal.

Pabbi var léttur í lund og hafði góða kímnigáfu. Hann gat haft mikla skemmtun af kostulegum uppátækjum og ummælum unga fólksins til dæmis ný orðatiltæki: „að kássast upp á e-n“. Sjálfur hafði hann mjúka og háa tenórrödd og tók lagið í bílnum í skutlferðunum sem voru ófáar og á mannamótum.

Mamma og hann voru samtaka í að rækta upp garð í kringum húsið í Grænutungu sem smám saman varð að trjásafni og aldingarði. Kartöflurækt í kartöflugörðunum. Farið í berjamó og skíða- og sleðaferðir. Hann var einstaklega laginn að finna ber og þótt við börnin værum ekki afkastamikil í berjatínslunni nutum við ávaxta af berjatínslu pabba og mömmu fram á miðjan aldur okkar.

Félagslíf og samskipti við fjölskyldu og vini foreldranna var góð fyrirmynd. Gleðin var í fyrirrúmi í veislum og boðum. Í fjölskylduboðum var spjallað og drukkið kaffi en í „partíum“ var sungið og jafnvel dansað.

Ferðalögin í bílnum voru ævintýri, að vera í rykmekkinum reyndi á þolinmæðina en Vaglir og Hallormsstaður voru sem framandi heimar. Heima í Kópavogi kom svo fyrir að þegar allir krakkarnir skiluðu sér ekki í mat þegar tekið var að skyggja var keyrt um nágrennið og týndi sauðurinn fundinn!

Afstaða pabba til hlutanna mótaði okkur. Nýtni og nákvæmni. Kannski urðum við ekki meistarasmiðir en sem veganesti í lífið var þetta á við margra ára akademískt nám.

Á seinni árum ferðuðust hann og mamma gjarna til hlýrri landa. Pabbi hafði einkennilegt yndi af viðhaldi hússins í Grænutungu. Alltaf mátti bæta í viðgerðirnar á þakinu og mála.

Síðustu árin var hann þreyttur og sat mikið en alltaf þegar maður kom glaðnaði yfir honum og þegar hægt var að fá hann til að tala um gamla tíma bar ekkert á gleymsku. Og þegar talað var um langafabörnin eða þegar þau komu þá ljómaði hann.

Atlæti hans á Sunnuhlíð var frábært. Hann var ávarpaður blíðlega og farið vel að honum. Hann var glaðsinna og söngvinn þegar þær stundir voru á dagskrá, sat annars og hvíldi sig.

Hvíl í friði elsku pabbi.

Guðrún Margrét, Baldur Tumi, Friðrik Már, Björn Eðvald og Þorsteinn.

Við viljum minnast Baldurs Þorsteinssonar, tengdaföður okkar sem við kynntumst er við tengdumst sonum hans þeim, Baldri Tuma og Friðriki Má. Baldur ólst upp á prestsetrinu í Sauðlauksdal. Þar hlaut hann gott uppeldi, tamdi sér vandað málfar, festu, nákvæmni og vandvirkni í öllum verkum. Sauðlauksdalur var menningarheimili, þangað lögðu margir leið sína, börnum úr sveitinni var komið þar til mennta en líka til að búa þeim betra atlæti um stundarsakir en þau áttu kost á heima fyrir. Það varð Baldri, móður hans Guðrúnu Petreu, og systkinunum fjórum mikið áfall er fjölskyldufaðirinn, séra Þorsteinn Kristjánsson, fórst með vélskipinu Þormóði við Garðskaga, með áhöfn og farþegum 18. febrúar 1943. Erfitt er að ímynda sér til fulls áhrif þessa atburðar á Baldur sem var alla tíð þögull um þau mál. Áfallahjálp eða sorgarúrvinnsla tíðkaðist ekki á þessum tíma heldur var harmurinn borinn í hljóði. Baldur var 18 ára skólapiltur við Menntaskólann á Akureyri þegar þessi atburður varð og var sú ákvörðun tekin skömmu síðar, að bestra manna ráði, að hann færi til náms í skógfræði í Danmörku strax að loknu stúdentsprófi. Hin gagngeru umskipti á lífi hins unga manns hljóta að hafa markað sín spor en Baldur vann sig í gegnum erfiðleikana með sínum hætti. Danmerkuráranna minntist hann jafnan með gleði og jákvæðni. Lokaprófi í skógfræði lauk hann árið 1951 og kom alkominn heim eftir það. Þá um sumarið giftust þau Jóhanna og hófu búskap.

Í upphafi 9. áratugar síðustu aldar þegar við kynntumst Baldri og Jóhönnu Arnljótu bjuggu þau í Grænutungu 5 í Kópavogi sem var miðstöð fjölskyldunnar í hartnær fimmtíu ár. Þar nutum við margra ánægjulegra samverustunda. Bæði voru með eindæmum gestrisin og höfðu gaman af að bjóða til veislu. Haldið var upp á öll stórafmæli með glæsibrag þar sem stórfjölskyldan sameinaðist. Síðastliðið sumar var haldið veglega upp á 99 afmæli Baldurs en nú verða afmælisveislurnar ekki fleiri.

Baldur var sannur bakhjarl fjölskyldunnar, alltaf reiðubúinn að hjálpa til og leiðbeina. Hann tók fullan þátt í heimilisstörfunum á við Jóhönnu, þó milli þeirra hafi verið ákveðin verkaskipting, hún eldaði, en hann gekk frá. Hún sá um garðinn, en hann um húsið. Er við hittumst í Grænutungu fór samtalið iðulega um víðan völl. Rifjaðar voru upp frásagnir af ferðum um landið, en þar var Baldur á heimavelli, heimsóknir til forsvarsmanna skógræktar á Íslandi, áranna við Menntaskólann á Akureyri og dvalarinnar í Danmörku. Baldur var sagnamaður og húmoristi og það var gaman að hlusta á hann segja frá. Ólíkt nútímamanninum sem leitar upplýsinga á netinu sótti Baldur danska lexikonið er upp komu vafamál í samræðum. Oftar en ekki var svo endað á að fletta upp í bæði kennaratali og guðfræðingatali til öryggis.

Að leiðarlokum er okkur efst í huga þakklæti fyrir langa og kærleiksríka samfylgd sem aldrei bar skugga á. Hvíl í friði.

Sólveig Anna Bóasdóttir, Kristín Björnsdóttir.

• Fleiri minningargreinar um Baldur Þorsteinsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.