Ábyrg afstaða á vinnumarkaði en ekki í ríkisstjórn

Það var létt yfir mönnum, jafnvel kátína, þegar sögulegir kjarasamningar eftir langa samningalotu náðust í Karphúsinu í gær. Það var ánægjuefni fyrir samningsaðila og þjóðina alla, að það hefði tekist án meiri átaka en raunin varð.

Það eitt bendir til þess að sú kynslóð, sem nú togast um kaup og kjör á vinnumarkaði, hafi lært dýrmæta lexíu af vinnudeilum í fyrra. Í slíkum ófriði fer sjaldnast nokkur með sigur af hólmi, en þeir bera jafnan mestan halla af sem síst skyldu.

Fagna ber þeirri nálgun breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins að ná löngum, hóflegum og traustum samningum, sem eru næmir fyrir breytilegum aðstæðum í efnahagslífi og fyrirvarar miðast við hvernig laga megi samninga og halda vinnufrið ef harðnar á dalnum, ekki að þeir slitni þá.

Slíkir samningar eru til stöðugleika fallnir.

Veitir enda ekki af. Efnahagsóvissa hefur ríkt síðustu misseri, líkt og endurspeglast í verðbólgu og vöxtum, en hér var um langa hríð þróttmikill vöxtur, svo ofhitnun hagkerfisins var og er áhyggjuefni.

Því má ekki heldur gleyma að íslenskir launþegar hafa notið fordæmalausrar kaupmáttaraukningar liðinn áratug, langt umfram samanburðarlönd og langt umfram framleiðni og verðmætasköpun. Loks ber að nefna ríkisfjármálin, sem helgast hafa af örlæti stjórnmálamanna á annarra fé: fyrst ríkinu veitist auðvelt að afla fjár með skattheimtu sé engin ástæða til þess að horfa í útgjöld eða umsvif hins opinbera.

Þess vegna höfðu aðilar vinnumarkaðarins það beinlínis að augnamiði að gera hóflega langtímasamninga, til að kynda ekki frekar undir eldum ofhitnunar og auka fyrirsjáanleika og stöðug­leika í efnahagslífinu. Ekki ósvipað og gerðist á dögum Þjóðarsáttar, þegar hagsmunasamtök á vinnumarkaði tóku frumkvæði um það sem reynst hafði ríkisstjórninni ofviða.

Því er gleðiefni að sjá forystufólk í verkalýðshreyfingu og atvinnulífi nú nálgast sams konar verkefni af ábyrgð. – Af því að um margt, jafnvel flest, fara hagsmunir fyrirtækja og launþega saman. Milli hagsældar almennings og velgengni atvinnulífs verður nefnilega ekki sundur skilið.

Á móti má segja að það sé ekki ýkja erfitt að semja um hvað sem er ef senda má reikninginn annað. Þessir samningar eru studdir ýmsum aðgerðum, sem skattgreiðendur munu standa straum af, þó hvorki þeir né stjórnvöld séu aðilar að þeim.

Í lögum um vinnudeilur er kveðið á um að aðilar vinnumarkaðarins megi ekki reyna að þvinga stjórnarvöldin til athafna eða athafnaleysis. Þeir geta einskis krafist af þeim og viðleitni stjórnvalda til þess að liðka fyrir samningum verður að vera almenn og gætileg. Við blasir að ríkisstjórnin er þar komin á ystu nöf og án þess að það hafi hlotið tilhlýðilega, opinskáa og lýðræðislega umræðu.

Hvergi er það jafnaugljóst og í fyrirætlunum um „gjaldfrjálsar skólamáltíðir“ í grunnskólum. Er þó ekki vitað til þess að við samningaborðið hafi nokkur imprað á því. Hins vegar hafa Vinstri grænir lengi haft þetta að stefnumáli en hvorki haft árangur um það í héraði né á þingi. Og þá smyglar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því óumbeðin inn í skjóli kjarasamninga.

Milton heitinn Friedman vék að þessu á sinn hátt: „Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis,“ það borgar alltaf einhver fyrir hann. Þarna freista Vinstri grænir þess að fá ókeypis atkvæði með því að láta alla skattgreiðendur borga fyrir sig matarboðið.

Þau klækjastjórnmál eru ekki kostnaðarlaus fyrir skattgreiðendur í krónum og aurum talið, en verra er að þessi manngæska Vinstri grænna á annarra kostnað gengur beinlínis gegn markmiðum þessara kjarasamninga og gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnar forsætisráðherra.

Eða ímyndar sér einhver annar að það hafi engin áhrif að ráðstöfunartekjur barnafólks með miðlungstekjur og yfir séu auknar um marga milljarða? Seðlabankinn og peningastefnunefnd hans geta tæplega litið öðruvísi á eða komist hjá því að grípa til sinna ráða.