[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnudeild Víkings og hin bandaríska Shaina Ashouri hafa komist að samkomulagi um að leikmaðurinn spili með liðinu á komandi leiktíð. Undanfarin tvö ár hefur hún verið í stóru hlutverki hjá FH og verið fyrirliði

Knattspyrnudeild Víkings og hin bandaríska Shaina Ashouri hafa komist að samkomulagi um að leikmaðurinn spili með liðinu á komandi leiktíð. Undanfarin tvö ár hefur hún verið í stóru hlutverki hjá FH og verið fyrirliði. Átti hún stóran þátt í að liðið vann sér inn sæti í efstu deild árið 2022 og endaði í sjötta sæti í deild þeirra bestu á síðasta ári. Hún hefur skorað átta mörk í 27 leikjum í efstu deild og sjö mörk í sjö leikjum í 1. deildinni.

Ísland mætir Póllandi á heimavelli í fyrsta leiknum í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu föstudaginn 5. apríl, en leikjaniðurröðin var birt í gær. Næsti leikur er gegn Þýskalandi á útivelli 9. apríl og síðan er leikið í lok maí, júní og júlí. Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að reiknað væri með að leikurinn við Pólverja færi fram á Kópavogsvelli, þar sem Laugardalsvöllurinn verður væntanlega ekki orðin nothæfur í byrjun apríl.

Knattspyrnudeild Þórs hefur gengið frá tveggja ára samningi við miðjumanninn Jón Jökul Hjaltason. Hann kemur til Þórsliðsins frá ÍBV, en Jón Jökull lék sína einu tvo leiki í efstu deild með Eyjamönnum á síðustu leiktíð.

Knattspyrnukonan Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir er gengin til liðs við Þrótt í Reykjavík, en hún kemur þangað frá Val. Hún hefur spilað níu leiki með Val í Bestu deildinni en var í láni hjá Selfyssingum stóran hluta síðasta tímabils og spilaði 13 leiki með þeim í deildinni.

Karlalandslið Íslands mætir Hollandi í vináttulandsleik í knattspyrnu í Rotterdam mánudaginn 10. júní. Þar með leikur liðið gegn tveimur af bestu liðum Evrópu með þriggja daga millibili því Ísland mætir Englandi á Wembley í London föstudaginn 7. júní.

Handknattleikskonan Hulda Bryndís Tryggvadóttir varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik með KA/Þór í síðasta mánuði. Akureyri.net greindi frá. Hulda Bryndís eignaðist barn fyrir tíu mánuðum en hóf æfingar að nýju með liðinu í byrjun febrúar með það fyrir augum að hjálpa KA/Þór. Hún sleit hins vegar krossband í fyrsta leik sínum, gegn ÍR 10. febrúar.