Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrsla fyrirtækisins LavaConcept um efnistöku og forvinnslu á sandi í Höfðafjöru í Mýrdal uppfylli skilyrði laga um umhverfismat og er fyrirhuguð efnistaka og efnisflutningur ekki talinn hafa veruleg umhverfisáhrif í för með sér

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrsla fyrirtækisins LavaConcept um efnistöku og forvinnslu á sandi í Höfðafjöru í Mýrdal uppfylli skilyrði laga um umhverfismat og er fyrirhuguð efnistaka og efnisflutningur ekki talinn hafa veruleg umhverfisáhrif í för með sér.

Eins og fram hefur komið felst fyrirhuguð framkvæmd í vinnslu og flutningi á sandi í Höfðafjöru og við Uxafótarlæk sem síðan verður fluttur landleiðina til Þorlákshafnar þar sem sandinum verður skipað út til Evrópu. Gert hefur verið ráð fyrr að efnistakan hefjist næsta sumar. Taka á árlega um 50 þúsund tonn á ári á efnistökusvæðinu næstu 15 árin.

Í mati á áhrifum á umferð kemur fram að flutningabílar fari um sjö ferðir á dag með efni frá Höfðafjöru að vinnslusvæði við Uxafótarlæk eða 14 ferðir í heild fram og til baka og átta ferðir á dag eða 16 ferðir fram og til baka með efni milli Uxafótarlæks og geymslusvæðisins við Þorlákshöfn.

Í umfjöllun um efnisflutningana segir Skipulagsstofnun að áhrif vegna þeirra á umferð og umferðaröryggi verði ekki veruleg „einkum og sér í lagi samanborið við fyrirhugaða efnisflutninga frá Mýrdalssandi sömu leið“, segir í áliti Skipulagsstofnunar, sem vísar þar til mun stórtækari áforma annars fyrirtækis um efnisnám á Mýrdalssandi og flutninga til Þorlákshafnar, sem greint hefur verið frá.

Áhrif efnisflutninganna á öryggi þegar uppskipun fer fram í og við Þorlákshöfn kunni hins vegar að verða tímabundið nokkuð neikvæð því þungaumferð á um 5 km kafla aukist talsvert einn dag í mánuði.

Stofnunin leggur einnig áherslu á vöktunar-, mótvægis- og viðbragðsáætlanir LavasConcept Iceland einkum vegna landbrots til að koma í veg fyrir auknar líkur á landbroti vegna efnistökunnar.

Ummerki vegna efnistöku í fjörukambinum verði eingöngu sýnileg í skamman tíma hverju sinni þar sem ummerkin verði að mestu afmáð innan skamms tíma vegna ágangs sjávar. Efnistakan muni hafa óveruleg áhrif á fugla, gróður og landbrot.