Ánægðar Konurnar þrjár, Margrét, Lilja og Kristín, tóku við Fjöruverðlaunum í gær í Höfða og sólin kyssti þær.
Ánægðar Konurnar þrjár, Margrét, Lilja og Kristín, tóku við Fjöruverðlaunum í gær í Höfða og sólin kyssti þær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristín Ómarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Lilja Árnadóttir hlutu Fjöruverðlaunin 2024, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi sem voru afhent í 18. sinn við hátíðlega athöfn í gær í Höfða. Kristín fékk verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Kristín Ómarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Lilja Árnadóttir hlutu Fjöruverðlaunin 2024, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi sem voru afhent í 18. sinn við hátíðlega athöfn í gær í Höfða. Kristín fékk verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Móðurást: Oddný, sem Benedikt bókaútgáfa gefur út; Margrét í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bókin Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina sem Iðunn gefur út, og Lilja í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Með verkum handanna. Íslenskur refilsaumur fyrri alda sem Þjóðminjasafnið gefur út.

Elsa var brautryðjandi

„Ef ég á að vera alveg heiðarleg átti ég kannski innst inni svolítið von á þessu. Ég er ekkert að blammera aðrar sem voru tilnefndar í mínum flokki, en ég ber höfuðið hátt, því þetta er rosalega flott verk sem ég fékk heiðurinn af að ritstýra og ganga frá til prentunar. Þetta er ekki mitt hugverk, heldur Elsu E. Guðjónsson heitinnar,“ segir Lilja Árnadóttir, en auk bókar hennar voru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur og Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur. Í dómnefnd fræðibóka og rita almenns eðlis sátu Hulda Steingrímsdóttir umhverfisfræðingur, Sigrún Birna Björnsdóttir framhaldsskólakennari og Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í bókmenntafræði. Í umsögn þeirra segir m.a.: „Líkt og umfjöllunarefnið er bókin fögur, kaflarnir yfirgripsmiklir, aðgengilegir lesendum og vekja áhuga á rannsóknarefninu. Þá er framsetning ritstjóra bókarinnar áhrifamikil en greinum fræðimanna er ofið inn í heildartextann á hátt sem undirstrikar áhrif ævistarfs Elsu E. Guðjónsson á alþjóðlegan fræðaheim.“

Lilja segir að hið stórmerkilega viðfangsefni Elsu að rannsaka kvennaverk aftur í aldir eigi vel við verðlaunin.

„Því konur standa jú að baki Fjöruverðlaununum. Elsa var í raun líka brautryðjandi í safnstörfum þegar kemur að kvenlegum handíðum, hún sökkti sér stax ofan í það sem ung manneskja þegar safnaheimurinn var mjög karllægur. Hún sá annað og meira í safngripum en þeir karlarnir höfðu gert, að þeim ólöstuðum. Þessar rannsóknir hennar og nú bókin um þær lyfta upp menningarstarfi kvenna.“

Lilja segir verðlaunin skipta miklu máli, því þau veki athygli á bókinni og greiði framgang hennar. „Ég vann lengi á Þjóðminjasafninu en ég hef aldrei verið í öðrum eins hvirfilvindi af áhuga fólks að koma og skoða refilsauminn þar, sýninguna og bókina.“ Lilja segir að það skipti hana verulegu máli að vera komin í hóp allra þeirra kvenrithöfunda sem fengið hafa Fjöruverðlaunin. „Ég er sannarlega ánægð með að enda starfsferil minn sem þjóðháttafræðingur á þessu dúndri, að taka við verðlaununum. Ég hætti störfum fyrir þremur árum en hef síðan verið í því að setja saman þessa bók. Ég nenni ekki lengur að bera kassa eða setja upp sýningar, þá er ógurlega fínt að fara inn í efra æviskeið með þessum hætti.“

Vinnur nú að tveimur bókum

„Þetta er sannarlega mikill heiður og kom mér svolítið á óvart, því þetta eru miklar sleggjur sem voru tilnefndar með mér. Við Linda höfum unnið mikið saman og ég hefði alveg verið til í að sjá hennar fínu bók hreppa hnossið og fundist það viðeigandi. Eins er bókin hennar Hildar virkilega fín,“ segir Margrét Tryggvadóttir, en auk bókar hennar voru tilnefndar í flokki barna- og unglingabókmennta Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur og Hrím eftir Hildi Knútsdóttur. Í dómnefnd í þeim flokki sátu Brynja Helgu Baldursdóttir íslenskufræðingur, Guðlaug Richter íslenskufræðingur og Helga Birgisdóttir, lektor í íslensku. Í umsögn þeirra segir m.a.: „Bókin er einstaklega vel unnin, umbrotið vandað, myndirnar vel valdar og textinn á fallegu máli. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem er um leið mjög fróðlegt og vekur áhuga á listum.“

Margrét segir það skipta sig máli að hljóta þessi verðlaun.

„Af því að það skiptir virkilega miklu máli að fá viðurkenningu fyrir starfið, en það er að hluta til sjálfboðavinna að skrifa bækur fyrir börn og ungmenni á örtungumáli á Íslandi. Einmitt þess vegna skiptir mjög miklu máli að því sé hampað sem vel er gert, fyrir alla þessa flottu höfunda. Ef verðlaunin verða til þess að bókin mín rati til fleiri, þá er það ánægjulegt,“ segir Margrét, sem hefur þrisvar áður fengið Fjöruverðlaun, m.a. var hún í hópi þeirra sem hlutu verðlaun í fyrsta sinn sem þau voru afhent. Þá fékk hún verðlaunin fyrir fyrstu bók sína, sem hún gerði um myndlist fyrir börn.

„Mér finnst svo flott við Fjöruverðlaunin hversu faglega dómnefndirnar vinna, þær skila alltaf rökstuðningi bæði fyrir tilnefningum og vali á þeim verkum sem fá verðlaunin. Mér finnst afskaplega traustvekjandi hvernig þær vinna þetta konurnar og virkilega gaman að fá verðlaun. Við getum líka velt fyrir okkur hvort það sé þörf fyrir sérstök verðlaun fyrir konur og kvár, en svo virðist vera, því þó að konur gefi ekki út færri bækur en karlar fara bækur þeirra sjaldnar ofarlega á metsölulistana, en það skiptir máli fyrir tekjur rithöfunda,“ segir Margrét, sem núna vinnur að tveimur bókum.

„Annars vegar er ég að yfirfara texta á bók sem ég er búin að skrifa og heitir Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum, en hún fjallar um Einar Jónsson myndhöggvara og Önnu konu hans. Þetta er bók fyrir aðeins yngri börn en bókin mín sem hlaut Fjöruverðlaun núna. Bókin kemur út á þessu ári en ég hef unnið hana með Listasafni Einars Jónssonar, sem er ævintýraheimur fyrir börn og saga þeirra Önnu er ótrúlega sérstök. Einar er einstakur í myndlistarsögu okkar. Hún Linda sem er tilnefnd núna ætlar að gera myndir fyrir þá bók, til að gera þetta allt fyndnara og skemmtilegra fyrir börn, en það verða líka ljósmyndir. Þetta verður fjórða bókin sem ég geri um íslenska myndlist fyrir börn, sem hefur verið rosa skemmtilegt að vinna og eitt leitt af öðru. Ég er líka að skrifa ungmennabók og stefni á að koma henni út á þessu ári. Auk þess er ég með fleiri hugmyndir á teikniborðinu.“

Í leit að mögulegu gulli

„Þetta kom mér á óvart, ég hélt að Ævintýrið myndi fá þessi verðlaun og fyrir vikið var ég ekki að hugsa mikið um þetta,“ segir Kristín Ómarsdóttir, en auk bókar hennar voru tilnefndar í flokki fagurbókmennta Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur og Fegurðin í flæðinu eftir Ester Hilmarsdóttur. Í dómnefnd í þeim flokki sátu Jóna Guðbjörg Torfadóttir framhaldsskólakennari, Júlía Margrét Sveinsdóttir bókmenntafræðingur og Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur. Í umsögn þeirra segir m.a.: „Í Móðurást: Oddný segir Kristín skáldaða sögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún elst upp í stórum systkinahópi í uppsveitum Árnessýslu á seinni hluta nítjándu aldar og er sagan sögð frá sjónarhóli barnsins. Lífið er sannarlega ekki auðvelt hjá fjölskyldunni en bókin er uppfull af húmor og gefur lesandanum nýja og ferska sýn á fortíðina. Sorgir og dauðinn eru eilíflega nærri en lífið snýst um svo margt stærra og meira. Textinn er ákaflega fallegur og ljúfsár og færir sagan okkur nær formæðrum okkar. Kristínu tekst afar vel upp á nýjum söguslóðum á ferli sínum.“

Kristín segir að sér þyki vænt um Fjöruverðlaunin.

„Mér finnst þau skemmtilegt fyrirbæri og ég hef fengið þau áður, þá var það fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína, en á sama tíma fékk Álfrún Gunnlaugs Fjöruverðlaun fyrir bók sína Rán. Það var rosalega gaman, en það er líka gaman að veita verðlaun. Þetta er gott og skemmtilegt fyrir bókina, mjög gaman,“ segir Kristín, sem heldur nú áfram að skrifa um fyrri tíma.

„Ég er stödd í fortíðinni, sem er ekki flótti, heldur finnst mér það vera til að reyna að skilja betur hvar heimurinn er staddur, þetta ferðalag hans hingað í þessa stöðu sem við erum í núna. Ég er sem sagt að skoða fortíðina til að reyna að skilja tímana okkar núna, skilja hvert við fórum og hvað við misstum á leiðinni, hverju við týndum og hvað hefur áunnist. Ég leitast við að skilja þennan heim sem við erum sprottin úr og ég leita að mögulegu gulli sem fer á öskuhauga. Ég á vin sem var alltaf í fornbókabúðum og á flóamörkuðum að leita að tónlist þegar við vorum um tvítugt, hann var alltaf að finna gull sem hafði týnst, í gangi sögunnar. Mér fannst og finnst enn æðislegt það sem sagnfræðingar gera, allir þessir grúskarar sem eru að leita í haugnum, líka mannfræðingar og fornleifafræðingar. Ég vil í gegnum vefnað skáldsögunnar fara til baka, reyna að grúska í þessum haug til að átta mig á þessari ferð heimsins hingað, nútímavæðingunni, iðnvæðingunni og fleiru. Fortíðin er miklu nær okkur en virðist. Heimsstyrjöldin síðari er til dæmis nær en við höldum, því um leið og þau hverfa af vettvangi sem muna fasismann vex honum aldeilis fiskur um hrygg. Lífverðirnir eru flestir farnir.“