Loftleiðir Þotur frá Loftleiðum fljúga yfir Vesturbæinn í Reykjavík.
Loftleiðir Þotur frá Loftleiðum fljúga yfir Vesturbæinn í Reykjavík. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Á sunnudaginn verða 80 ár frá stofnun flugfélagsins Loftleiða, 10. mars 1944. Af því tilefni verður sýning á vegum Flugsafns Íslands og Sögufélags Loftleiða á Berjaya Reykjavík Natura Hotel, áður Hótel Loftleiðum

Á sunnudaginn verða 80 ár frá stofnun flugfélagsins Loftleiða, 10. mars 1944. Af því tilefni verður sýning á vegum Flugsafns Íslands og Sögufélags Loftleiða á Berjaya Reykjavík Natura Hotel, áður Hótel Loftleiðum. Opnunarathöfn afmælisins fyrir boðsgesti hefst í dag klukkan 17.

„Þessi sýning er sett upp í tilefni 80 ára afmæli Loftleiða, þessa merka félags þar sem við njótum enn frumkvöðlastarfsins með Icelandair í dag,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands, við Morgunblaðið. Haukur Alfreðsson hjá Sögufélagi Loftleiða segir megináherslu sýningarinnar vera leiðakerfi Loftleiða sem Icelandair byggi enn á að grunni til í millilanda- og innanlandsflugi.

Á sýningunni verða safngripir að norðan frá Flugsafni Íslands, gripir úr einkasafni Eiríks Líndals og flugvélalíkön gerð af Herði Aðalsteinssyni. Einnig verður kvikmynd til sýninga og myndbrot úr sögu Loftleiða.

Fleiri viðburðir verða haldnir þetta árið vegna afmælisins. „Við ætlum að reyna að vera með alls konar atburði allt árið, sýningin er bara upphafið,“ segir Haukur.

Sýningin fer fram í austurálmu gamla Hótels Loftleiða og stendur yfir frá 9. til 16. mars. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Hún verður síðan sett upp í Flugsafninu á Akureyri í júní og opin út afmælisárið. herdis@mbl.is