Hrafn Margeir Heimisson fæddist á Höfn í Hornafirði 22. október 1954. Hann lést á Landspítalanum 24. febrúar 2024 eftir stutta baráttu við krabbamein. Foreldrar hans voru Heimir Þór Gíslason, f. 15. mars 1931, d. 3. september 2010 og Sigríður Herdís Helgadóttir, f. 31. október 1933, d. 4. júní 2003. Systkini Hrafns eru: Helga Nína, f. 26.9. 1953, Sigurþór Albert, f. 1.11. 1962 og Gísli Björn, f. 21.9. 1963.

Hrafn eignaðist sitt fyrsta barn, Hauk Margeir, 4.1. 1976 með Guðrúnu Ingólfsdóttur, f. 28.3. 1958. Haukur er kvæntur Ástu Júlíu Guðjónsdóttur, f. 30.6. 1978 og eiga þau einn dreng, Hugin Mána, f. 2.2. 2015. Fósturdóttir Sigurveig Ósk Pálsdóttir, f. 20.12. 1982, gift Skarphéðni Einari Rosenkjær, f. 9.1. 1980 og eiga þau saman þrjú börn, Árna Karl, f. 12.8. 2007, Einar Aron, f. 18.11. 2009 og Árnýju Emmu, f. 25.7.2012.

Hrafn kvæntist Sigurveigu Eysteinsdóttur, f. 17.5. 1958, en þau eru skilin. Þau eignuðust tvö börn: 1) Herdísi Þóru, f. 1.7. 1986, gift Andra Frey Gunnarssyni, f. 5.3. 1985 og eiga þau tvær dætur, Unni Ylfu, f. 27.8. 2017 og Fanneyju Ósk, f. 4.9. 2019. 2) Benedikt Arnar, f. 27.11. 1990 og á hann eina dóttur, Eddu Laufeyju, f. 5.11. 2019.

Hrafn var uppalinn að Staðarborg í Breiðdal. Hann stundaði nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík 1973-1976. Á árunum 1981 til 1983 stundaði Hrafn nám við Samvinnuskólann á Bifröst ásamt því að stunda viðskiptahagfræðinám við Háskólann á Bifröst á árunum 1993-1995. Hrafn var einnig duglegur að sækja sér endurmenntun og tók ýmis námskeið í stjórnun, þróunaraðstoð og portúgölsku svo eitthvað sé nefnt. Hrafn byrjaði snemma að stunda sjómennsku eða upp úr 15 ára aldri og varði meirihluta af starfsævi sinni við sjómennsku, ýmist sem stýrimaður eða skipstjóri, á stórum sem smáum fiskibátum, frystitogurum og flutninga-
skipum. Hann ferðaðist um allan heim og sigldi um öll heimsins höf á sinni starfsævi. Hann bjó og starfaði um tíma í Kanada, starfaði við þróunaraðstoð á Grænhöfðaeyjum og vann í Kína og Rússlandi svo dæmi sé tekið. Hann starfaði sem skrifstofumaður í sjávarafurðadeild SÍS um nokkurra ára skeið.

Árið 2006 flutti Hrafn á æskuslóðir og flutti í hús foreldra sinna, Grímsstaði, og hóf störf hjá Skinney-Þinganesi þar sem hann starfaði bæði á sjó og á landi í rúm 10 ár. Hrafn fór á eftirlaun fyrir rúmu ári en hann starfaði sem næturvörður á Hótel Höfn síðustu árin sín í starfi. Hrafn var mikill náttúruunnandi og áhugaljósmyndari og var alltaf með myndavélina á lofti. Hann var virkur í starfi Ferðafélags Austur-Skaftfellinga til æviloka ásamt því að vera fastagestur sundlauganna.

Útför Hrafns fer fram frá Garðakirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 11.

Hrafn Margeir bróðir minn er fallinn frá. Krummi er dáinn. Hrafninn flýgur ekki meir.

Þó var flogið langt og hátt, og stundum lengi. Út um allan heim. Hrafn fór á sjóinn ungur og kom stundum ekki heim langtímum saman en þegar hann kom úr siglingum kom hann með það nýjasta og flottasta utan úr heimi. Þar var nú ekkert bítl heldur Rúllandi steinar sem ekki safna mosa frekar en hann gerði. Hann fór í Stýrimannaskólann og gerðist stýrimaður og stundum skipstjóri. Eitt sumarið var ég háseti á bát þar sem hann var skipper. Það var gott sumar þó að veiðin væri ekki eins og vænst var. Ég bjó með honum í Hraunbænum og við áttum góða tíma það sumar. Hann var 8 árum eldri en ég svo að aldursmunurinn var töluverður á þeim árum. Þegar ég byrjaði í Menntaskólanum á Akureyri 15 að verða 16 ára gamall var hann að sigla, meðal annars til Ameríku. Þegar foreldrar okkar komust að því að farskipið sem hann var stýrimaður á myndi koma við á Akureyri rétt eftir áramót fengu þau hann til að kaupa skíði og skó og skíðaúlpu og –buxur í Ameríkunni og færa mér sem afmælis- og jólagjafir frá foreldrunum og fjölskyldunni. Skíðabuxurnar voru svartar en skíðaúlpan var silfruð dúnúlpa og vakti óskipta athygli. Allt þetta valdi hann fyrir litla bró. En hann vildi ekki vera minni maður, svo hann færði mér líka gjöf frá Ameríkunni, frá sér. Það var gallon af vodkaA. Hann var jú 24 ára og ég nýorðinn 16. Ég held að foreldrar okkar hafi aldrei fengið að frétta þetta. Ég er ekki viss um að systkini okkar hafi nokkurn tíma vitað af þessu heldur.

Hrafn Margeir reyndist mér alltaf góður bróðir.

Elsku Haukur, Ósk, Herdís og Benni og fjölskyldur, innilegustu samúðarkveðjur við fráfall lífsglaðs og skemmtilegs föður og afa. Helga Nína og Gísli Björn, Kristján Bergur og aðrir sem sakna, samúðarkveðjur sömuleiðis frá Sóra, Lóu og fjölskyldu. Minningarnar lifa.

Sigurþór Albert Heimisson.

Hrafn Margeir bróðir minn, stundum kallaður Krummi, hefur átt ævintýraríkt líf. Hann fæddist 22.10. 1954 á Sólhól á Höfn, í húsi föðursystra okkar, þeirra Hrafnhildar og Margrétar, og var skírður í höfuðið á þeim.

Þegar pabbi útskrifaðist úr Kennaraskólanum fékk hann stöðu á Hólmavík og mamma flaug með okkur systkinin þangað. Ein fyrsta minningin er að ég horfi á Hrafn í fanginu á mömmu og sé út um gluggann á vélinni sjóinn gutla á sjóskíðum á Catalínu-flugbátnum, þá var ég á öðru ári en hann á fyrsta.

Frá Hólmavík fluttum við á Kópasker þar sem pabbi fékk skólastjórastöðu. Við áttum tvær kýr og nokkur hænsn. Okkur var uppálagt að koma ekki of nálægt einni hænunni því hún lá á eggjum og gæti goggað í okkur.

Ég sagði „Nabb Ma Gei minn komdu, nú er groggan að koma,“ og við forðuðum okkur. Á bæjunum í kring voru hestar, en við urðum að láta okkur nægja að fara á bak á kúnum. Eitt skiptið náði Hrafn að hefja sig upp á þvottabala og steyptist á kaf en ég náði að tosa hann upp úr. Stundum finnst mér að hann hafi haft níu líf, því hann komst svo oft í hann krappan.

Frá Kópaskeri fluttum við í Staðarborg í Breiðdal þaðan sem pabbi var ættaður.

Eitt stærsta áfall sem ég hef upplifað var þegar stóru drengirnir í skólanum misstu Hrafn í gólfið og hann steinrotaðist og lá á milli heims og helju í marga daga. Hann fékk upp úr því mígreni og þurfti hann að fara til lækninga í Reykjavík. Þar bjó móðuramma okkar með uppáhaldsvin okkar, Kristján Berg. Stjáni var mitt á milli okkar Hrafns í aldri.

Um átta ára aldur flutti stelpa í sveitina. Þá höfðu þau Hrafn vistaskipti, hún kom inn í íbúð til mín, en Hrafn fékk að sofa í strákaálmunni, sem honum fannst spennandi. Vinskapur okkar við þessi hálfgildings fóstursystkini hefur haldist í áranna rás.

Stjáni sagði mér fyrir stuttu að þeir Hrafn hefðu ráðið sig, 15 og 16 ára, á sumarvertíð í Norðursjó og komu fullorðnir menn til baka. Hrafn fór í Stýrimannaskólann en Stjáni í Vélskólann.

Hrafn réð sig á danskt fraktskip, en það sökk úti í miðju Atlantshafi. Rússneskt skip fann björgunarbátinn og mannbjörg varð. Hann vann einnig á fraktara sem sigldi milli stranda Bandaríkjanna um Panamaskurð. Eitt sinn fóru þeir á bar, þar upphófst skothríð, en þeir sluppu.

Hann var við veiðar úti fyrir Kamstjatka, þegar Rússar færðu bátinn til hafnar. Hann og japanskur eftirlitsmaður voru handteknir og ekið í langan tíma með bundið fyrir augu og byssu í bakið. Þegar þeim var sleppt var búið að hirða öll þeirra verðmæti.

Hrafn réð sig til Grænhöfðaeyja og tók konu og dætur með.

Eftir það lá leið hans á Bifröst og við Gísli Björn fengum að dvelja í íbúðinni hans á meðan. Við útskrifuðumst öll 1984.

Eftir að mamma dó seldi pabbi Hrafni Grímsstaði á Höfn. Hann hætti sjómennsku og gerðist næturvörður þar til hann fór á eftirlaun í fyrra. Hrafn greindist með sykursýki og þurfti að sprauta sig, stundaði þó heitu pottana, fjallgöngur og ljósmyndun.

Í nóvember fann hann fyrir krankleika og kom hingað suður stuttu fyrir jól. Hann lést 24.2. 2024.

Helga Nína.

• Fleiri minningargreinar um Hrafn Margeir Heimisson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.