Sigríður Hjálmarsdóttir Bjarnason fæddist í Reykjavík 5. ágúst 1926. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hömrum 21. febrúar 2024.

Foreldrar Sigríðar voru Hjálmar Bjarnason bankamaður, f. 17.1. 1900, d. 7.11. 1983, og Elísabet Jónsdóttir Bjarnason, f. 3.8. 1899, d. 7.1. 1963. Systkini Sigríðar voru Gunnhildur Ingibjörg Bjarnason, f. 1921, d. 2015, Jón Haukur Bjarnason, f. 1923, d. 1977, Emil Nikolai Bjarnason, f. 1925, d. 2001, og Hörður Bjarnason, f. 1928, d. 1995.

Árið 1950 kvæntist Sigríður eiginmanni sínum til 69 ára, Sverri Guðvarðssyni, f. 30. september 1930. Hann lést 22. október 2019. Foreldrar hans voru Guðvarður Þórarinn Jakobsson, f. 18.1. 1900, d. 19.10. 1959, og Oddrún Sigþrúður Guðmundsdóttir, f. 8.9. 1900, d. 17.4. 1951. Börn Sigríðar og Sverris eru: 1) Hjálmar, f. 29. desember 1950, d. 24. júlí 2023. Börn: Gústaf Helgi, f. 9.7. 1968, Sverrir, f. 24.12. 1980, Kolbrún, f. 17.1. 1982, Vaka, f. 21.9. 1985, Gunnar Áki, f. 16.5. 1992, Elías Arnar, f. 13.3. 1994, og Haukur Hafliði, f. 3.7. 1995. 2) Oddrún, f. 22. júní 1952. Maki Gísli Guðmundsson, f. 24. maí 1947. Börn: Sigríður, f. 19.2. 1980, og Soffía Rut, f. 2.8. 1985. 3) Sverrir, f. 3. apríl 1954. Maki Kristrún Leifsdóttir, f. 30. apríl 1965. Börn Sverris: Laufey, f. 27.6. 1998, og Benedikt, f. 10.12. 2000. 4) Pétur, f. 25. mars 1957. Börn: Lilja, f. 7.12. 1980, Stefán Björn, f. 15.10. 1994, og Axel Örn, f. 22.1. 1997. 5) Karl Friðrik, f. 21. júní 1959. Sambýliskona Susan Ellekær. Börn Karls: Lísa Björt, f. 21.7. 1984, og Óskar Steinn Karlsson, f. 6.2. 1989.

Sigríður ólst upp í miðbæ Reykjavíkur og var í sveit á sumrin hjá frændfólki í Borgarfirði. Stuttu eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk fór hún í nám í húsmæðraskóla á Als í Danmörku og vann síðan við leirsmíði hjá Guðmundi frá Miðdal er heim var komið. Hún var áhugamaður um útivist og ferðaðist töluvert með Farfuglafélaginu og einnig æfði hún hópleikfimi og stundaði skíði með Skíðadeild ÍR.

Fyrstu hjúskaparárin var Sigríður heimavinnandi eins og títt var á þessum tíma en hóf síðan störf sem verslunarmaður hjá Heimilisprýði í Hallamúla og vann þar í um þrjá áratugi.

Útför Sigríðar verður gerð frá Seljakirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 13.

Það var ekki nema hálft ár í 98 ára afmælið þegar móðir mín kvaddi södd lífdaga. Hún hafði sagt á 97 ára afmælisdeginum að þetta væri nú alveg komið nóg og reiknaði ekki með að halda upp á næsta afmæli hérnamegin.

Mamma var merk kona að mörgu leyti, sannkölluð hvunndagshetja í orðsins fyllstu merkingu. Hún vann sín afrek innan heimilisins og þeim sem voru utan þess var beint að þeim sem minna máttu sín og gert svo lítið bar á. Hún vildi ekki athygli og þurfti ekki á viðurkenningu að halda. Hún skilgreindi sitt aðalhlutverk í lífinu það að halda utan um fjölskyldu sína og koma henni í gegnum öldurót lífsins sem henni tókst afburðavel. Á fyrstu tíu árum hjónabandsins komu fimm börn sem var bara normið á þeim tíma og því ávallt í nægu að snúast, ekki síst fyrir þá staðreynd að heimilisfaðirinn var til sjós meira eða minna frá því að fyrsta barnið fæddist þar til það síðasta flaug að heiman. Það hjálpaði til að á þessum árum voru börnin send út að leika að morgni og litlar áhyggjur hafðar af þeim nema ef þau skiluðu sér ekki í kvöldmatinn. Þá var hún þeim eiginleika gædd að geta sofið þrátt fyrir að allt léki á reiðiskjálfi í kringum hana og helst vildi hún sofa fram undir hádegi. Við lærðum því fljótt að bjarga okkur sjálf þar til hún vaknaði og þar held ég að áhugi minn á eldamennsku hafi kviknað því ekki fékk maður kakó nema bara gera það sjálfur. Í ljósi nútímaþekkingar á mikilvægi svefns fyrir heilsuna er líklegt að áhersla móður minnar á góðan svefn alla tíð hafi verið grunnurinn að langlífi hennar því ekki hef ég fundið dæmi um slíkt í ættinni nema síður sé. Ekki var það hollt mataræði, því þar var hún algjörlega á hinum endanum. Hún drakk kók í ríkum mæli alla daga, líklega frá því að innflutningur á þessum (í hennar augum) eðaldrykk hófst upp úr 1940 og að skemma góðan þorsta með vatnsglasi átti hún erfitt með að skilja. Kökur og önnur sætindi voru einnig í uppáhaldi og á gamalsaldri átti hún erfitt með að skilja allt þetta tal um að sykur væri óhollur. Benti gjarnan á að hún væri lifandi dæmi um jákvætt samband sykurneyslu og langlífis.

Mamma var vinamörg í gengum ævina og sérstaklega héldu þær vel saman saumaklúbbshópurinn sem hittist reglulega yfir 60 ára tímabil. Eðli málsins samkvæmt hafa vinirnir kvatt þennan heim hver af öðrum og fáir eftir undir lokin.

Mamma og pabbi áttu góð og gefandi ár eftir að þau hættu að vinna og nutu þess að vera innan um börn og barnabörn og í lokin einnig barnabarnabörn sem öll voru þeim afar kær. Pabbi lést fyrir fimm árum og voru það skiljanlega mikil viðbrigði fyrir mömmu. Hún var vel á sig komin alveg fram á það síðasta og notaði tímann í að hekla, púsla og spila sem hún hafði mjög gaman af. Tók reglulega þátt í félagsvist á Hlaðhömrum og átti það til að taka fyrsta vinninginn þrátt fyrir að vera komin langleiðina í hundraðið. Undir það síðasta hrakaði heilsu hennar jafnt og þétt og var hún hvíldinni feginn þegar kallið kom.

Blessuð sé minning mömmu.

Sverrir.

Elsku amma, mikið var gott að eiga þig að, en mikið er sárt að missa þig. Ég vil þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, allt það sem þú kenndir mér og fyrir þinn þátt í að móta mig sem persónu. Nú er kominn tími til að kveðja, með sorg í hjarta lít ég yfir liðna tíð og í bjarma fortíðar birtist þú mér, glettin með bros á vör. Megir þú ávallt eiga heimili í huga mínum.

„Þú kastar teningunum fast ef þú þarft háar tölur og laust ef þú þarft lágar tölur,“ sagði amma er hún kastaði teningunum og að öllum líkindum vann yatzy-leikinn. Þessi „Amma mín segir“-frasi hefur verið vinsælasti molinn minn allt frá því að þú kenndir mér að spila og ég endurtek hann við hvern sem vill heyra.

Ég og Benedikt ólumst upp við það að spila spil hjá ömmu í Mosó eins og flestöll barnabörnin. Yfir ömmudjúsi (ríbena), coca-cola og súkkulaði var mikið spjallað, hlegið og stundum skælt. En alltaf má allt laga með ís sem þú bauðst upp á, óspart.

Þú varst uppátækjasöm, hlý, fyndin og besti vinur okkar barnanna. Að fara upp í Mosó til ömmu og afa var uppáhalds og ef maður fékk að gista var það ennþá betra. Foreldrunum til mikils ama var boðið upp á cocoa puffs í morgunmat og vöfflur í hádegismat. Þú varst sannkölluð súperstjarna í okkar augum á þeim árum. En það var nú ekki bara vegna sætindanna, þú varst líka sögukona og þreyttist aldrei á að segja okkur krökkunum drauga- og þjóðsögur. Amma, ég lofa þér að gleyma aldrei sögunum um Hruna, djáknann á Myrká og af draugaganginum í húsinu sem þú ólst upp í.

Eins og gefur að skilja koma upp í hugann óteljandi minningar á þessari kveðjustundu. Ég ætla mér ekki að telja þær allar upp, en ég læt eina eftir mér. Árið sem gosið var í Eyjafjallajökli skruppum við fjölskyldan yfir heiðina til að berja eldinn augum. Löng bílferð fór ekki mjög vel í 12 ára mig en sem betur fer sat amma með mér aftur í og hún stakk upp á leik. Hún skyldi syngja eitt lag, síðan ég og svo koll af kolli. Sú okkar sem kynni fleiri lög færi síðan með sigur af hólmi. Þarna sátum við stöllur og sungum af innlifun okkur til mikillar gleði en pabba líklegast ekki til jafn mikillar skemmtunar.

Amma var mér alltaf besti félagi og þessi missir hryggir mig mikið. Það er þó huggun að blessunarlega fékk hún að fara í friði og reisn, tilbúin að ganga til móts við afa í sumarlandinu fagra. Elsku amma, í lifanda lífi tökum við ekki annan leik, en ég trúi því ekki að við höfum spilað síðasta spilið.

Þangað til næst amma mín.

Þín

Laufey.

• Fleiri minningargreinar um Sigríði Bjarnason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.