Seltjarnarnes Bæjaryfirvöld glíma við ófyrirséð útgjöld í erfiðu árferði.
Seltjarnarnes Bæjaryfirvöld glíma við ófyrirséð útgjöld í erfiðu árferði. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Reksturinn er þungur og þessi viðbót er skellur. Þetta eru þó bara hlutir sem við ráðum ekki við og það gefst enginn upp,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Reksturinn er þungur og þessi viðbót er skellur. Þetta eru þó bara hlutir sem við ráðum ekki við og það gefst enginn upp,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins var til umræðu á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag. Þar kom fram að framkvæmdir vegna myglu í skólum bæjarins og auknar lífeyrisskuldbindingar myndu lita fjárhagsuppgjör bæjarins fyrir síðasta ár. Um var að ræða nýjar óendurskoðaðar tölur sem kynntar voru í bæjarráði.

Þór segir að 242 milljónir hafi farið í niðurrif vegna myglu í skólunum í fyrra. „Svo fáum við 172 milljóna bakreikning frá lífeyrissjóðnum Brú til viðbótar við þær 200 milljónir sem við vorum búin að gjaldfæra vegna lífeyrisskuldbindinga. Samtals eru þetta 600 milljónir sem við höfum ekkert um að segja. Það er óþolandi að lenda í þessum barningi.“

Umræddur bakreikningur frá Brú er til kominn vegna þess að tryggingaleg staða A-deildar Brúar er neikvæð eftir slaka ávöxtun árið 2022 og því innheimtir sjóðurinn frá áramótum 10% af greiddum lífeyri vegna ákveðins hóps. Við gerð Salek-samninganna 2016 var ákveðið að samræma lífeyrisréttindi á opinbera markaðnum við almenna markaðinn. Við það féll það á ríki og sveitarfélög að standa undir því að lífeyrisþegar héldu ákveðnum réttindum en ekki aðrir sjóðfélagar. Þessi viðbót leggst þungt á mörg sveitarfélög að sögn Þórs.

Útgjöldin munu hafa áhrif á fjárfestingargetu

Fram kom á fundi bæjarstjórnar að verðtryggð lán hefðu hækkað um 330 milljónir en á móti hefðu útsvarstekjur hækkað um 20% á síðasta ári. Þá er söluferli fasteignar hjúkrunarheimilisins Seltjarnar langt komið. Þór segir að staðan sé mjög erfið.

„Við hristum ekki hundruð milljóna fram úr erminni. Það er því ljóst að þessar viðbætur munu hafa áhrif á fjárfestingargetu okkar í öðru. Við erum að bregðast við, bæði með sölu eigna, endurskipulagningu og að hugsa út fyrir boxið. Svo eru ýmis tækifæri hér á Nesinu.“