Jón Jóhannsson fæddist í Þurranesi í Saurbæ í Dalasýslu 18. apríl 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 24. febrúar 2024.

Foreldrar Jóns voru María Guðmunda Guðbjörg Ólafsdóttir, húsmóðir, f. 15. september 1916, d. 25. maí 2016, og Jóhann Jónsson, bóndi, f. 14. janúar 1912, d. 17. janúar 1986.

Systkini Jóns voru Margrét Jóhannsdóttir, f. 13. júní 1939, d. 17. september 1922, maki Þorgeir Ólafsson, og Ólafur Þór Jóhannsson, f. 18. október 1942, d. 14. febrúar 2018, maki Anna R. Hallgrímsdóttir. Ólafur Skagfjörð Gunnarsson, frændi þeirra systkina, f. 18. febrúar 1949, ólst að hluta til upp með systkinunum í Þurranesi og var þeim frekar eins og bróðir en frændi. Maki hans er Ingunn Jóna Jónsdóttir.

Jón ólst upp fram á fermingaraldur í Þurranesi, þar sem foreldrar hans bjuggu ásamt móðurforeldrum hans og móðursystur. Þá fluttu foreldrar hans með börn sín fram að Staðarhóli, þar sem þau bjuggu ásamt afasystkinum Jóns.

Jón gekk í barnaskólann á Kjarlaksvöllum en aðstoðaði foreldra sína við búskapinn eftir að faðir hans missti heilsuna um fertugt. Jón gerðist svo bóndi á Staðarhóli. Hann keypti jörðina Þverfell í sömu sveit 1972 og þá fluttust foreldrar hans og afasystir með honum að Þverfelli.

Jón giftist Brynju Jónsdóttur, kennara, f. 14. október 1950. Foreldrar hennar eru Kristín S. Njarðvík leiðsögumaður, f. 27. júlí 1929, d. 3. febrúar 2013, og Jón Bergþórsson bílstjóri og stöðvarstjóri, f. 12. september 1924, d. 4. júní 2018.

Dóttir Jóns og Brynju er Kristín Björk Jónsdóttir, f. 14. september 1979. Börn hennar eru Guðný Björk Halldórsdóttir, f. 22. ágúst 1998, og Jóhann Atli Halldórsson, f. 31. mars 2005.

Útför Jóns fer fram frá Hjallakirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, ég sakna þín.

Ég er reyndar búin að sakna þín í dálítinn tíma því það var svo margt sem andstyggðar parkinsonkrumlan var búin að hrifsa af þér. Fyrst var það getan til að sinna búskapnum, svo var það dansinn, söngurinn, blístrið, spilamennskan, hreyfigetan og að lokum málið. Það var samt óskaplega notalegt þegar maður sá glitta í þig á milli krumlufingranna síðustu mánuði. T.d. þegar ég spilaði fyrir þig lag með góðum bassa og þú slóst taktinn með fætinum, þegar ég las fyrir þig vísu sem ég er nokkuð viss um að þér þótti „óttalegt hnoð“ og þú skelltir upp úr og þegar þú sagðir svo það skildist vel, „Nei, er hún Biska mín komin“, þegar ég kom til þín í Sóltúnið, alveg eins og þú kallaðir mig þegar ég var pínulítil.

Þegar ég hugsa til þín þessa dagana sé ég þig alltaf fyrir mér í stofunni á Þverfelli, í köflóttri skyrtu með ermarnar brettar upp að olnboga, gallabuxum og ullarsokkum, að dansa og syngja við fjöruga tónlist og reyna að fá mig til að dansa með. Eins og það sé svo létt yfir þér að vera ekki lengur fangi í eigin líkama. Ég held að það sé engin tilviljun að lagið „Walk of life“ var spilað í útvarpinu akkúrat þegar ég var að keyra út af planinu í Sóltúni eftir að hafa kvatt þig í hinsta sinn. Ég held að þú hafir viljað hressa litlu sorgmæddu stelpuna þína aðeins við og minna mig á þig brosandi með öllu andlitinu að tvista eða spila á bassann. Þú vildir ekki skilja mig eftir með skuggamyndina af þér síðustu mánuðina.

Ein af fyrstu minningunum mínum er þegar ég er svo lítil að ég stóð uppi á eldhúsbekknum svo ég gæti horft út um gluggann og beið spennt eftir að sjá þig koma fyrir hornið á fjárhúsunum. Þegar þú komst inn tókstu mig í fangið og söngst og dansaðir með mig um allt eldhúsgólfið. Þú varst svo barngóður og það var alltaf svo mikill léttleiki, tónlist, fjör og leikur í þér. Enda varstu líka yfirleitt með barnahóp í kringum þig frá því þú varst lítill strákur og þar til þú varðst gamall afi.

Ég dröslaðist með þér í allan fjandann, að moka skít, salta kjöt, smala, brenna rusl, gefa rollunum, í sauðburð, heyskap o.s.frv. og aldrei var ég fyrir og aldrei varðstu pirraður þó ég hafi eflaust tafið þig oft. Þú varst bóndi af lífi og sál og þér þótti vænt um skepnurnar og þess vegna fannst mér það heiður þegar mér var treyst fyrir einhverju sem snerti þær og skipti máli að gera rétt og almennilega. T.d. þegar ég „sá um búið“ eitt vorið (morgun- og kvöldgjöf og nokkrar óbornar) á meðan þið mamma fóruð heilan dag í bæinn að útrétta fyrir ferminguna mína. Mér fannst ég vera orðin ansi fullorðin þá og það var góð tilfinning að þú hafðir trú á mér til að standa undir þessu sem ég og gerði.

Þú varst góður, skemmtilegur, þolinmóður og ástríkur pabbi og góð fyrirmynd. Þú varst börnunum mínum líka svo miklu meira en „venjulegur“ afi, þú varst afi skafi, ævintýraskáld, vinur og leikfélagi. Takk fyrir allt, elsku pabbi minn!

Þín Biska Bökk,

Kristín Björk.

Fyrir mér var afi-skafi alltaf algjör súperstjarna. Hann gat allt! Fyrrverandi bassaleikari í hljómsveit og gat spilað á hvaða hljóðfæri sem honum sýndist, bóndi með sinn eigin traktor og kindur, hann gat smíðað og búið til allt sem okkur datt í hug, spilakóngur með alla sína bikara og svo mætti lengi telja en fyrst og fremst var hann svo ótrúlega skemmtilegur. Ég vildi frekar leika við afa en aðra krakka þegar ég var yngri og vildi fá sem flesta af leikskólanum heim til ömmu og afa svo þau gætu fengið að upplifa hversu skemmtilegt það væri. Ég gat nefnilega ekki lýst því hversu frábær hann var og nú þegar ég sit hér og skrifa get ég það ekki enn. Ég þyrfti heila bókaseríu í stað stuttrar minningargreinar.

Öllum líkaði vel við afa og ekki annað hægt en að líða vel í kringum hann. Hann var svo einlægur, hugulsamur, þolinmóður, traustur, skemmtilegur, hugmyndaríkur, fyndinn, stríðinn og úrræðagóður (sérstaklega með baggabönd).

Ég hef alltaf borið svo mikla virðingu fyrir honum. Hann var alvöru herramaður og aldrei nokkurn tímann vondur við aðra, ég man ekki eftir að hafa heyrt hann segja einn einasta ljóta hlut um neinn. Hann var svo duglegur í alla staði og var alltaf tilbúinn að gera hvað sem var fyrir alla í kringum sig, dýr eða menn. Hann gat ekki horft upp á óréttlæti eða þjáningar hjá öðrum og reyndi allt sem hann gat til að koma í veg fyrir það, ef það tókst ekki sást vel hversu erfitt það var honum. Hann var með svo svakalega stórt og gott hjarta, algjört barnshjarta. Enda ómögulegt að finna jafn barngóðan mann þó víða væri leitað.

Sjálfur náði hann að varðveita barnið í sér svo vel og gat gert hvað sem er skemmtilegt. Hann dansaði við mig þangað til hann gat það ekki lengur; við vorum komin á alveg heimsklassa-„level“ inni í stofu í Ársölum þar sem hann sveiflaði mér á milli fótanna á sér með tilheyrandi snúningum og frábærum sporum. Hann leyfði mér að keyra bílinn uppi í sveit, fyrst í fanginu á honum þegar ég náði ekki niður á pedalana og seinna keyrði ég sjálf út á túni með afa skælbrosandi í farþegasætinu. Við sömdum sögur, drullumölluðum, hlupum á eftir kindum, spiluðum á spil (það fór ekki fram hjá neinum þegar afi var með góða hendi, hann fékk svo svakalegt glott og það var alltaf jafn fyndið að fylgjast með honum reyna að fela það), hoppuðum í heyi, fórum í lautar- og skoðunarferðir, stóðum fast á okkar skoðunum í verslunarferðum með mömmu og ömmu (ég og afi vorum með sama góða smekkinn á svo mörgu), borðuðum bakkelsi og drukkum nóg af mjólk með, emjuðum úr hlátri og svo margt, margt fleira.

Hann dekraði mann alveg gjörsamlega í tætlur, með ást, umhyggju og upplifunum frekar en hlutum. Hann gaf mér svo margt sem peningar geta aldrei keypt. Algjörlega ómetanlegur og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir allar endalausu góðu minningarnar.

Takk, elsku afi skafi, fyrir alla gleðina og ástina sem þú gafst mér. Ég elska þig að eilífu.

Þín

Guðný Björk.

• Fleiri minningargreinar um Jón Jóhannsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

hinsta kveðja

Takk, Jón.

Takk fyrir hlýleg kynni og traust. Takk fyrir að vera afi skafi. Takk fyrir að kynna mér búskap. Hrein sál, gegnheill maður. Látlaus samskipti og tilfinningar.

Takk, vinskapur.

Halldór (Dóri).