Með því að byggja upp leiðakerfi fyrir bátastrætó á höfuðborgarsvæðinu mætti stytta ferðatíma verulega og bjóða um leið upp á nýja afþreyingu fyrir heimamenn og ferðamenn. Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs, bendir á þetta, en hann hefur falið…

Með því að byggja upp leiðakerfi fyrir bátastrætó á höfuðborgarsvæðinu mætti stytta ferðatíma verulega og bjóða um leið upp á nýja afþreyingu fyrir heimamenn og ferðamenn.

Pálmar Harðarson, eigandi Þingvangs, bendir á þetta, en hann hefur falið arkitekt að gera frumdrög að slíku leiðakerfi sem eru endurbirt á meðfylgjandi grafi. Kallar hann eftir viðbrögðum skipulagsyfirvalda sem geti unnið hugmyndirnar frekar.

Syðsta stöðin yrði við Hafnarfjarðarhöfn og yrði næsti viðkomustaður á norðanverðu Álftanesi. Þaðan væri siglt í Sjálandshverfið og sér Pálmar þar fyrir sér tvær stöðvar, aðra við Sjálandshverfið vestanvert og hina við veitinga- og samkomuhúsið Sjáland sem eigendur World Class hyggjast breyta í líkamsrækt og veitingastað. Frá Sjálandi yrði siglt í Kársnesið og eins og í Sjálandshverfinu sér Pálmar fyrir sér tvær stöðvar, aðra við Kársneshöfn og hina við aðstöðu siglingaklúbbsins á norðanverðu Kársnesi. Frá Kársnesi yrði siglt í Nauthólsvík og svo til Skerjafjarðar. Þaðan liggur leiðin á Seltjarnarnes, svo til Reykjavíkurhafnar og loks yrði endastöðin við Gufunes.

Hentar skólafólki

Pálmar segir jafnframt hægt að sigla beint á milli Álftaness og Seltjarnarness og bjóða háskólanemum þannig upp á skjótvirka leið til að sækja skólann. Þeir geti tekið reiðhjólið með sér og sömuleiðis geti golfspilarar tekið með sér golfsettið til að spila á Álftanesi eða á Nesinu. Þessar hugmyndir taka til greina áform um bátastrætó frá Gufunesi til Reykjavíkurhafnar en þau hafa verið sett í samhengi við uppbyggingu íbúðabyggðar í Gufunesi.

Pálmar fór að hugleiða samgöngur á Álftanesi eftir að fyrirtæki hans, Þingvangur, hóf uppbyggingu íbúða í Lambamýri haustið 2022. Mikil tækifæri séu til uppbyggingar á Álftanesi og með bátastrætó sé hægt að tengja hina vaxandi byggð betur við höfuðborgarsvæðið og létta á bílaumferð. Þá geti siglingarnar styrkt ferðaþjónustu.

Vegna eldvirkni á Reykjanesskaga verði að óbreyttu minna byggt af íbúðum við suður- og austurjaðar höfuðborgarsvæðisins. Álftanesið sé hins vegar ákjósanlegt byggingarland, ekki síst suðurströndin. Þar sé rými fyrir þúsundir íbúða og hægt að tengja byggðina við miðborg Reykjavíkur með bátastrætó. baldura@mbl.is