Forvarnir Tilgangur félagsins er að styðja baráttuna gegn krabbameini.
Forvarnir Tilgangur félagsins er að styðja baráttuna gegn krabbameini. — Ljósmynd/Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins fagnar 75 ára afmæli sínu í dag, en Krabbameinsfélag Reykjavíkur var stofnað þann 8. mars 1949. Meðal stofnenda má nefna Alfreð Gíslason lækni, Gísla Sigurbjörnsson forstjóra og Niels Dungal prófessor, sem varð fyrsti formaður félagsins

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins fagnar 75 ára afmæli sínu í dag, en Krabbameinsfélag Reykjavíkur var stofnað þann 8. mars 1949. Meðal stofnenda má nefna Alfreð Gíslason lækni, Gísla Sigurbjörnsson forstjóra og Niels Dungal prófessor, sem varð fyrsti formaður félagsins.

Á þeim tíma var krabbamein í sókn hérlendis, sem og annars staðar, og læknar, sem margir hverjir voru nýkomnir heim úr sérfræðinámi, báru með sér nýja þekkingu og hugmyndir.

Fagna afmælinu í haust

„Við erum í sjálfu sér ekki með neina afmælisdagskrá núna en ætlum að minnast afmælisins í haust með málstofum um ýmislegt er lýtur að verkefnum og áherslumálum félagsins,“ segir Árni Einarsson formaður. Segir hann starfsemi félagsins frá upphafi hafa verið fjölbreytta en áhersla var strax lögð á fræðslustarf því mikilvægt þótti að auka þekkingu manna á sjúkdómnum. Tilgangur félagsins hefur því frá upphafi verið hinn sami að sögn Árna, að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameini.

„Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur reynt að starfa mjög mikið á landsvísu, með áherslu á tóbaksvarnir og fræðslu um skaðsemi reykinga, tóbaks og nikótínnotkunar. Þannig að við störfum jöfnum höndum að verkefnum innan félagssvæðis og verkefnum á landsvísu.“

Þá segir Árni stofnun félagsins á sínum tíma hafa verið gríðarlega mikilvæga þar sem vakin var athygli á sjúkdómnum og mál tengd honum sett á dagskrá. „Sé litið yfir sögu félagsins stendur einna helst upp úr hversu almenn vitund og vitneskja er nú til staðar hjá þjóðinni um krabbamein og allt sem að krabbameinum lýtur. Svo auðvitað þessi almenna viðurkenning og stuðningur sem maður finnur fyrir,“ segir hann að lokum.