89 Donald Sutherland hefur víða komið við.
89 Donald Sutherland hefur víða komið við.
Þáttaröðin The Undoing hjá Sjónvarpi Símans varð fyrir valinu hjá mér sem afþreyingarefni á dögunum. Virtist vera ágætur söguþráður þar sem virtur barnalæknir er grunaður um hryllilegt morð

Víðir Sigurðsson

Þáttaröðin The Undoing hjá Sjónvarpi Símans varð fyrir valinu hjá mér sem afþreyingarefni á dögunum. Virtist vera ágætur söguþráður þar sem virtur barnalæknir er grunaður um hryllilegt morð. Hugh Grant lék lækninn og Nicole Kidman eiginkonu hans. En ég staldraði við nafnið Donald Sutherland meðal helstu leikara. Greip það ekki strax, ruglaði honum saman við soninn Kiefer til að byrja með, en var fljótur að átta mig. Donald Sutherland, er hann ekki hundrað ára, eða löngu dauður?

Nei, aldeilis ekki, Donald er reyndar á 89. aldursári í dag og hefur verið 85 þegar þættirnir voru gerðir. Hann var alltaf einn af uppáhaldsleikurum mínum og er í fullu fjöri í þessari þáttaröð. Þar leikur hann forríkan tengdaföður læknisins og fer á kostum. Ekki síst þegar hann heimsækir tengdasoninn í fangelsið og á lokasprettinum þegar hann bregður sér í æsilega þyrluferð eins og ekkert sé.

The Undoing er ágætis sex þátta sálfræðitryllir þar sem vangavelturnar um sekt eða sakleysi sveiflast fram og til baka. Framdi læknirinn virkilega morðið? Eða var það eiginmaður hinnar myrtu, eiginkona læknisins sem sjálf er virtur sálfræðingur, eða jafnvel sonur hans? Eða koma kannski fleiri til greina? Mæli með þessu.