Troðsla Kristófer Acox fór mikinn fyrir Valsmenn þegar liðið tók á móti Álftanesi á Hlíðarenda en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 25 stig.
Troðsla Kristófer Acox fór mikinn fyrir Valsmenn þegar liðið tók á móti Álftanesi á Hlíðarenda en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 25 stig. — Morgunblaðið/Eggert
Valsmenn eru komnir með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir öruggan sigur gegn Álftanesi í 19. umferð deildarinnar á Hlíðarenda í gær. Leiknum lauk með 18 stiga sigri Vals, 89:71, en Kristófer Acox var…

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valsmenn eru komnir með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir öruggan sigur gegn Álftanesi í 19. umferð deildarinnar á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með 18 stiga sigri Vals, 89:71, en Kristófer Acox var stigahæstur hjá Valsmönnum og skoraði 20 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.

Valsmenn eru með 32 stig í efsta sæti deildarinnar og eru með sex stiga forskot á Njarðvík sem er í öðru sætinu, en Njarðvík á þó leik til góða. Grindavík og Keflavík koma þar á eftir, bæði með 24 stig, en Grindavík á leik til góða á Val og Keflavík á tvo leiki til góða á Val. Keflavík og Grindavík mætast í Keflavík í kvöld.

Álftanes er í sjötta sætinu með 20 stig og á það á hættu að missa af sæti í úrslitakeppninni.

 Chaz Williams fór mikinn fyrir Njarðvík þegar liðið heimsótti Þór frá Þorlákshöfn í Þorlákshöfn en leiknum lauk með 10 stiga sigri Njarðvíkur, 110:100. Williams skoraði 31 stig, tók sex fráköst og gaf 13 stoðsendingar í leiknum.

Njarðvík er með 26 stig í öðru sætinu og þarf að vinna síðustu fjóra leiki sína, og treysta á að Valur tapi öllum þremur lokaleikjum sínum til þess að eiga möguleika á deildarmeistaratitlinum.

Þórsarar eru með 24 stig í fimmta sætinu og svo gott sem öruggir um sæti í úrslitakeppninni.

 Adomas Drungilas var stigahæstur hjá Íslandsmeisturum Tindastóls þegar liðið hafði betur gegn Haukum, 100:93, á Ásvöllum í Hafnarfirði en Drungilas skoraði 27 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.

Íslandsmeistararnir eru með 20 stig í sjöunda sætinu og eru ekki öruggir með sæti í úrslitakeppninni en Haukar eiga ekki lengur möguleika á sæti í úrslitakeppninni og sitja í tíunda sætinu með tíu stig.

 James Ellisor var stigahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið vann lífsnauðsynlegan sigur gegn Hetti, 92:82, í Garðabænum en Ellisor skoraði 24 stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.

Stjarnan er með 18 stig í níunda sætinu og í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en Höttur er einnig með 18 stig í áttunda sætinu en með betri innbyrðisviðureign á Stjörnuna.

 Hamar vann sinn fyrsta leik í deildinni þegar liðið tók á móti Breiðabliki í Hveragerði en leiknum lauk með öruggum sigri Hamars, 104:91. Franck Kamgain átti stórleik fyrir Hamar og skoraði 37 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Hamar er með tvö stig í 12. og neðsta sætinu og er fallinn um deild en Breiðablik er með fjögur stig í 11. sætinu og á veika von um að halda sæti sínu í deildinni.