Andófstákn Syrgjendur vitja grafar Navalnís í úthverfi Moskvu í vikunni. Tugir þúsunda hafa lagt blóm, kerti og handskrifaða miða á gröfina.
Andófstákn Syrgjendur vitja grafar Navalnís í úthverfi Moskvu í vikunni. Tugir þúsunda hafa lagt blóm, kerti og handskrifaða miða á gröfina. — AFP/Natalía Kolesnikóva
Tugir þúsunda Rússa hafa undanfarna daga vitjað grafar stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís. Þá hafa um 500 minnismerki um Navalní verið reist í um 200 borgum í Rússlandi og æ fleiri Rússar segja að spurningar um hvernig andlát Navalnís bar að höndum að hafi vaknað hjá þeim

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Tugir þúsunda Rússa hafa undanfarna daga vitjað grafar stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís. Þá hafa um 500 minnismerki um Navalní verið reist í um 200 borgum í Rússlandi og æ fleiri Rússar segja að spurningar um hvernig andlát Navalnís bar að höndum að hafi vaknað hjá þeim. Rússnesk stjórnvöld segja að Navalní hafi látist skyndilega en stuðningsmenn hans fullyrða að hann hafi verið myrtur.

Navalní lést í fangabúðum í Rússlandi 16. febrúar og var jarðsettur í Borisovo-kirkjugarðinum í úthverfi Moskvu 1. mars sl. AFP-fréttastofan segir að síðan þá hafi stuðningsfólk Navalnís hafi lagt blóm, kerti og handskrifaða miða á gröfina, sem sé orðin tákn fyrir andstöðuna við stjórnvöld í Kreml, á sama tíma og þau undirbúi endurkjör Vladímírs Pútíns forseta Rússlands í sviðsettum forsetakosningum 15.-17. maí.

Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum hafa stjórnvöld í Kreml haldið því fram að stríðið og Pútín njóti almenns og víðtæks stuðnings í Rússlandi. AFP segir hins vegar að biðraðirnar við grafreit Navalnís sýni að löng hefð í Rússlandi um andóf gegn einræðisstjórnkerfi, sem rekja megi til tíma keisaradæmisins og Sovétríkjanna, lifi enn góðu lífi.

Andófið var augljóst við útför Navalnís, þar sem sumir stuðningsmenn hans hrópuðu m.a.: „Pútín er morðingi“ og „Úkraínumenn eru gott fólk“.

„Það þurfti mikið hugrekki til að fara og votta Alexei Navalní virðingu,“ skrifaði Emmanuel Macron forseti Frakklands á rússnesku á samfélagsmiðlinum X.

Frelsaði frá skömm

Ekaterina Schulmann, rússneskur stjórnmálafræðingur, sem er búsett í Þýskalandi, sagði á YouTube-rás sinni að það væri merkilegt hve margir færu ekki leynt með sorg sína og þetta líktist því þegar rithöfundurinn Leo Tolstoj og andófsmaðurinn Andrei Sakharov voru jarðsettir.

„Með fórn sinni og dauða frelsaði Alexei Navalní okkur frá skömm, sem er verri en dauðinn,“ sagði Schulmann.

Andrei Kolesnikov, sem starfar hjá Carnegie Russia Eurasia-miðstöðinni í Berlín, sagði í grein sem birtist í rússneska stjórnarandstöðunetmiðlinum The New Times að fólk sem vottaði Navalní virðingu sína skapaði hættu fyrir rússnesk stjórnvöld.

„Það grefur undan helstu goðsögn Kremlar um algera samstöðu þjóðarinnar um Pútín og athafnir hans,“ skrifaði hann.