Ólíklegt er að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica vann fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR um meint samráð Eimskips og Samskipa á árunum 2009-2013 eigi við um rekstur Eimskips á tímabilinu sem um ræðir

Ólíklegt er að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica vann fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR um meint samráð Eimskips og Samskipa á árunum 2009-2013 eigi við um rekstur Eimskips á tímabilinu sem um ræðir.

Þetta sagði Óskar Magnússon, stjórnarformaður Eimskips, í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í gær.

Óskar rifjaði upp að nýir eigendur og stjórnendur hefðu þurft að takast á við afleiðingar málsins (sem þá var enn til rannsóknar). Það hefði verið mat þeirra að samhliða endurskipulagningu félagsins væri rétt að ljúka málinu þótt til þess þyrfti að greiða háa sáttagreiðslu. Þannig hefði verið tekin ákvörðun um að horfa fram á veginn og gefa starfsfólki vinnufrið.

Óskar vísaði ekki beint í skýrslu Analytica en sagði að nýlega hefðu verið birtar himinháar tölur um tap þjóðarbús, neytenda og annarra af málinu. Sem kunnugt er var það túlkun þeirra sem óskuðu eftir skýrslunni að hið meinta samráð hefði kostað þjóðarbúið um 62 milljarða króna. Í ræðu sinni sagði Óskar að tölurnar og útreikningarnir að baki þeim byggðust á fullyrðingum í óútkljáðu máli og forsendum sem óvíst væri hvort stæðust skoðun. Þá sagði hann að að því marki sem Eimskip hefði getað rannsakað og reiknað þær forsendur sem settar væru fram í skýrslunni væri óhætt að segja að flest væri það fjarstæðukennt. Rétt er að taka fram að Samskip hafa jafnframt sagt skýrsluna byggða á röngum forsendum.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, vísaði ekki beint til skýrslunnar í ræðu sinni. Hann varpaði þó upp rauntölum úr rekstri félagsins, þar sem m.a. kemur fram að hagnaðarhlutfall Eimskips á árunum 2009-2013 var á bilinu 2,5-3,4%. Þá rifjaði hann upp að verð á flutningum hefði á tímabilinu verið í samræmi við aðrar vísitölur. Þó hefði verðþróun á akstri á vörum innanlands verið undir vísitölu neysluverðs frá 2009 og næstu ár þar á eftir. Í glæru sem Vilhelm Már birti, þar sem aftur var vísað í rauntölur úr rekstri félagsins, mátti sjá að afkoma af innanlandsflutningum var neikvæð um rúmar 400 milljónir króna á árunum 2008-2013. gislifreyr@mbl.is