Jóhann Einarsson fæddist 30. júlí 1937 á Geithellum í Suður-Múlasýslu. Hann lést hinn 27. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Laufey Karlsdóttir og Einar Jóhannsson, bændur á Geithellum í Álftafirði, Suður-Múlasýslu. Laufey fæddist 23.3. 1912 á Seyðisfirði, hún var dóttir hjónanna Vilborgar Jónsdóttur og Karls Emils Karlssonar. Einar fæddist 28.4. 1906 á Geithellum í Álftafirði, hann var sonur hjónanna Helgu Einarsdóttur og Jóhanns Jónssonar.

Þau Laufey og Einar eignuðust níu börn, Jóhann var í systkinaröðinni miðri. Systkini Jóhanns eru: Helga, f. 14.6. 1931, d. 8.6. 2017, Vilborg, f. 1.9. 1932, d. 1.6. 2020, Þormóður, f. 27.9. 1934, d. 24.1. 2002, Ólafur, f. 18.10. 1935, Þorkell, f. 15.5. 1939, d. 24.6. 1940, Kristín, f. 10.8. 1942, Hjörtur, f. 17.7. 1953 og Leifur, f. 22.12. 1955, d. 23.5. 2005.

Jóhann eða Jói eins og hann var alltaf kallaður ólst upp í stórum samheldnum systkinahópi hjá foreldrum sínum í Álftafirðinum. Bernska hans einkenndist af hefðbundnum sveitastörfum og skólagöngu þess tíma þar sem Jói lauk sinni hefðbundnu skólaskyldu. Að skólaskyldu lokinni fór hann að heiman til að vinna. Hann vann við vegavinnu, við sjómennsku og sótti sjóinn frá Djúpavogi, Hornafirði og Ísafirði. Mjólkurbílstjóri var hann hjá Kaupfélagi Berufjarðar í mörg ár þegar mjólkursamlag var á Djúpavogi og sótti hann mjólk allt frá Álftafirði austur í Breiðdal.

Hann tók við búskap af foreldum sínum eftir fráfall föður síns og bjó þar með sambýliskonu sinni Lilju Skúladóttur frá Urðarteigi. Þau slitu samvistum. Seinni sambýliskona Jóa var Ástríður Baldursdóttur frá Hofi. Þau bjuggu á Geithellum í nokkur ár en fluttu síðar búferlum er þau færðu sig suður yfir heiðar, á Hornafjörð þar sem þau bjuggu til æviloka. Ásta lést árið 2021. Síðustu ævidagana bjó Jói á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn.

Útför Jóhanns Einarssonar fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 11.

Í dag kveðjum við Jóa móðurbróðir okkar og einstakan frænda.

Á stundu eins og þessari koma til manns ótal minningar og þær eru sannarlega ófáar minningarnar sem við eigum um kæran frænda. Við vorum svo heppin að fá að vera í návist hans sem börn og myndaðist á þeim tíma strengur sem aldrei rofnaði. Eitt sem okkur þótti alltaf pínu merkilegt var hversu myrkfælinn Jói var, þessi annars kokhrausti kappi. Þrátt fyrir það naut hann þess að segja manni draugasögur og það er auðvelt að sjá hann fyrir sér sitjandi í horninu í eldhúsinu á Geithellum að segja sögur af Hólsnessdraugnum sem varð til þess að manni var ekki alveg rótt þegar vitja þurfti um net í Hólsnesinu um miðnóttina.

Jói var með eindæmum hrekkjóttur og kunnu þau, sem ekki þekktu hann, ekki alltaf að meta þennan eiginleika hans. En við sem þekktum hann og hans hjartalag vissum að við höfðum ekkert að óttast þó hann héldi að hann gæti mögulega hrætt úr okkur líftóruna, til dæmis með sínum mjög svo óvenjulegu vögguvísum. Jói var barngóður og honum þótti líka vænt um öll dýr, sérstaklega þessi litlu, kettlingana, heimalningana og hundana.

Við eigum minningar um Jóa þegar hann kom við hjá okkur í Réttarholtinu á ferðum sínum milli landshluta. Þá átti hann alltaf eitthvert góðgæti til að gefa okkur og hann gaf sér líka tíma til að stríða okkur smá, klípa og kreista. Það vorum ekki bara við sem þótti vænt um Jóa, mömmu okkar þótti einstaklega vænt um þennan bróður sinn og vildi honum alltaf allt hið besta.

Jói bjó lengst af á Geithellum þar sem hann er fæddur og uppalinn og það var sannarlega gæfa og gleði fyrir okkur að fá að fara austur í sveitina hennar mömmu. Við fengum að kynnast frelsi sveitalífsins, fara inn á Geithellnadal, ógleymanlegar ferðir í Voginn að kíkja í Kaupfélagið, skreppa á bæina með Jóa og fylgjast með öllu sem var að gerast í sveitinni. Jói átti vini og félaga um alla sveit.

Líkt og margir af hans kynslóð reykti Jói og það var eins og horfa á áhættuatriði að sjá hann reykja filterslausan camelinn alveg upp til agna með sínum stóru puttum. Það má líka vel halda því fram að Geithellar hafi verið heppileg bújörð fyrir mann eins og Jóa, þar gat hann lagt traktorunum og landróvernum í brekku og látið renna í gang, hann var nefnilega ekkert endilega að spá í svona smotterí eins og að hafa startara og hleðslu í lagi.

Jói var hvatvís, fljótfær og alveg einstaklega óheppinn. Um hann eru til óteljandi sögur, bæði sannar og aðrar minna sannar, sem sagðar hafa verið öðrum til skemmtunar. Honum var ekkert um þessar sögur gefið og sagði þegar á þær var minnst að þetta væri nú allt saman tóm vitleysa og haugalygi.

Við erum þakklát fyrir að hafa átt einn einstakan Jóa frænda í lífi okkar. Minningar um góðan mann munu ylja okkur og skemmta um ókomna tíð.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Nú hefur draumalandið tekið á móti þér elsku Jói, hvíldu í friði.

Björk, Alma og Hlynur.

• Fleiri minningargreinar um Jóhann Einarsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.