Vala Magnúsdóttir bregður á leik. Hinar myndirnar voru ekki birtingarhæfar.
Vala Magnúsdóttir bregður á leik. Hinar myndirnar voru ekki birtingarhæfar. — Ljósmynd/Úr einkasafni
Það er stór stund í lífi hverrar fjölskyldu þegar komið er að þeim tímamótum að ferma barn. Ferming barnanna er fram undan. Hvernig á veislan að vera? Hverju vill barnið klæðast? Hverjum á að bjóða og svo þarf að gera kostnaðaráætlun svo að mamma og …

Það er stór stund í lífi hverrar fjölskyldu þegar komið er að þeim tímamótum að ferma barn. Ferming barnanna er fram undan. Hvernig á veislan að vera? Hverju vill barnið klæðast? Hverjum á að bjóða og svo þarf að gera kostnaðaráætlun svo að mamma og pabbi verið ekki tekin til gjaldþrotaskipta eftir stjórnlaust bruðl. Eitt af því sem mamma og pabbi þurfa oft að læra er að segja já, takk þegar þeim er boðin aðstoð. Fólki virðist vera það í blóð borið að þiggja aldrei neitt og enda svo kannski eitt og yfirgefið upp við vegg. Fermingardagurinn á að vera ánægjulegur fyrir alla og mamma og pabbi eiga ekki að þurfa hvíldarinnlögn eftir veisluhöldin.

Menntaskólavinkonur mínar eru oft og tíðum hugmyndaríkar og úrræðagóðar. Þær kunna að fara með peninga og eru almennt frekar skynsamar. Fyrir nokkrum árum ákváðu þær að stofna fermingar-sérsveit sem mætir í fermingarveislur vopnuð svörtum svuntum og þægilegum skóm til þess að hjálpa til við að þjóna, hita upp mat, bera fram, vaska upp og skúra eftir fermingarveisluna.

Í fyrstu veislunni mættu sex skriðdrekar, ættaðir úr efri byggðum Reykjavíkur, til þjónustu reiðubúnir. Þeim til mikillar þjáningar komust þeir að því að meðalstórt eldhús í heimahúsi í Mosfellsbæ rúmar ekki svo fyrirferðarmikinn hóp. Það kom hins vegar á óvart hvað það var gaman á sérsveitarvaktinni. Hjartastöðin fær vítamínsprautu við það að aðstoða þá sem manni þykir vænt um. Það var reyndar svo mikið stuð á skriðdrekavaktinni að aðrir veislugestir reyndu að laumast inn í eldhús til að vera með.

Síðan þá hefur sérsveitin farið í fjölmörg fermingarútköll sem hafa aldrei endað með áflogum eða handtökum. Í fyrra naut ég góðs af þessu þegar sonur minn var fermdur. Þá mætti sérsveitin, sem gerði það að verkum að dökkhærða fermingarmóðirin þurfti ekki að gera neitt nema segja brandara og koma með beinar skipanir. Þvílíkur dagur!

Það var þó eitt sem sérsveitin lærði af mistökum dökkhærðu konunnar og það er að það má alls ekki útbúa rúllubrauð, frysta það og hita upp frosið í veislunni. Það tekur sirka þrjú ár að hita eitt slíkt upp og svo verður það svolítið blautt í sér og slepjulegt þegar það er loksins orðið heitt. Það skal engan undra að afgangur hafi verið af því í veislulok.

Sérsveitum heimsins er ekkert óviðkomandi. Þessi dökkhærða hafði óvart skilið eftir myndavél á glámbekk í eldhúsinu í fermingarveislunni. Eftir veisluna ætlaði fermingarmóðirin að fletta létt í gegnum myndirnar úr vélinni og sýna öðrum fjölskyldumeðlimum en snarhætti þegar fyrsta myndin blasti við. Í stuttu máli má segja að þær hafi algerlega leikið lausum hala og það eina sem vantaði var að þær hefðu baðað sig í eldhúsvaskinum!