Undirritun í Karphúsinu Vilhjálmur Birgisson formaður SGS tekur hér í höndina á Bjarnheiði Hallsdóttur formanni Samtaka ferðaþjónustunnar eftir undirritunina í Karphúsinu í gær.
Undirritun í Karphúsinu Vilhjálmur Birgisson formaður SGS tekur hér í höndina á Bjarnheiði Hallsdóttur formanni Samtaka ferðaþjónustunnar eftir undirritunina í Karphúsinu í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Létt var yfir fólki í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúninu í gær þegar langri samningalotu breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins lauk með undirritun nýrra kjarasamninga. Viðræðurnar höfðu staðið yfir síðan 28

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Létt var yfir fólki í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúninu í gær þegar langri samningalotu breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins lauk með undirritun nýrra kjarasamninga. Viðræðurnar höfðu staðið yfir síðan 28. desember og eflaust létti mörgum við að sjá blek á blaði en deilunni var vísað til sáttasemjara seint í janúar.

Samið var til langs tíma, eða fjögurra ára, en ekki eru dæmi um slíkt í býsna langan tíma. Allir sem rætt var við telja það vera til góðs enda séu líkur á stöðugleika mun minni þegar samningar eru lausir á árs eða tveggja ára fresti. Innan breiðfylkingarinnar eru fjölmenn félög eins og Starfsgreinasambandið og Efling, eða stór hluti hins almenna vinnumarkaðar.

Atlaga gerð að verðbólgunni

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA og Vilhjálmur Birgisson formaður SGS töluðu bæði um tímamótasamning þegar Morgunblaðið ræddi við þau í gær. Þau ásamt Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar lýstu ánægju sinni með að samið hefði verið til langs tíma.

Markmiðið með samningunum var ekki að tryggja sem mestar launahækkanir heldur að skoða fjárhagslegan ávinning í stærra samhengi. Sérstaklega í ljósi verðbólgunnar og er meginmarkmið samninganna að ná henni niður með væntingum um að því geti fylgt vaxtalækkanir ef Seðlabankinn lækkar stýrivexti. „Mér er nær að halda að þetta geti verið fyrirboði um að við náum að þroska nýjar venjur við kjarasamningagerð og ýmislegt fleira bendir til þess að við séum að færast í þá átt,“ sagði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari þegar niðurstaðan lá fyrir.

Samningurinn felur í sér lágmarkshækkun um 23.750 krónur á hverju samningsári, en laun munu almennt hækka um 3,25% fyrsta árið og 3,5% árin á eftir. Ríkisstjórnin tilkynnti einnig í gær um aðgerðir sem metnar eru á 80 milljarða króna og ætlað er að styðja við markmið samningsins.