Úrslit Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og nýkrýndur deildarmeistari og telst sigurstranglegri í bikarúrslitum kvenna gegn Stjörnunni í dag.
Úrslit Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og nýkrýndur deildarmeistari og telst sigurstranglegri í bikarúrslitum kvenna gegn Stjörnunni í dag. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarúrslitaleikir kvenna og karla í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í dag þar sem Valur á fulltrúa í báðum leikjum. Úrslitaleikur kvenna, milli Vals og Stjörnunnar, hefst klukkan 13.30 og úrslitaleikur karla, milli ÍBV og Vals, hefst klukkan 16

Bikarúrslit

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Bikarúrslitaleikir kvenna og karla í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í dag þar sem Valur á fulltrúa í báðum leikjum. Úrslitaleikur kvenna, milli Vals og Stjörnunnar, hefst klukkan 13.30 og úrslitaleikur karla, milli ÍBV og Vals, hefst klukkan 16.

„Ég óttast, því miður fyrir handboltann, að þetta verði ójafn úrslitaleikur,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona og leikmaður Fram, í samtali við Morgunblaðið er hún var beðin um að rýna í bikarúrslitaleik kvenna.

Valur er ríkjandi Íslandsmeistari, á toppi úrvalsdeildarinnar og búinn að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í ár en Stjarnan er í fallbaráttu með aðeins níu stig.

Óttast að Stjarnan sé södd

Í undanúrslitum í Laugardalshöll á fimmtudagskvöld vann Valur þægilegan sigur á ÍR, 29:21, og Stjarnan vann 1. deildarmeistara Selfoss með minnsta mun, 26:25, eftir framlengingu.

Valskonur teljast því töluvert sigurstranglegri aðilinn.

„Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en ég óttast að stelpurnar í Stjörnunni séu svolítið saddar eftir að hafa komist í úrslitaleikinn.

Valur er aftur á móti með gríðarlega sterkt lið, besta liðið í ár, þannig að pressan er að mínu mati öll á það að vinna þennan leik,“ sagði Þórey Rósa, en Fram féll út í 1. umferð keppninnar gegn Selfossi.

Óskandi að fá jafnan leik

„Ég vona handboltans vegna að þetta verði alvöru skemmtilegur leikur sem verði mjög jafn. Það væri óskastaða,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs Hauka, við Morgunblaðið er hann var beðinn um að rýna í bikarúrslitaleik karla.

ÍBV er ríkjandi Íslandsmeistari en Val hefur gengið betur á yfirstandandi tímabili, þar sem liðið er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, átta stigum fyrir ofan ÍBV sem er í fjórða sæti.

Á miðvikudagskvöld vann ÍBV góðan sex marka sigur á lærisveinum Ásgeirs Arnar, 33:27, í undanúrslitum. Síðar um kvöldið vann Valur sömuleiðis sex marka sigur á Stjörnunni, 32:26.

Keyrðu grimmt á þá

„Við sáum aðeins við hverju má búast þegar þessi lið mættust í deildinni í síðustu viku. Í þeim leik sáum við að Valsararnir keyrðu grimmt á Eyjamenn, alveg eins og þeir gátu.

Þeir nýttu sér það að Vestmannaeyingar þurfa yfirleitt að skipta tveimur sóknarmönnum út. Ég held að við munum sjá rosalega mikið af því.

Arnór [Viðarsson], Elmar [Erlingsson] og Kári [Kristján Kristjánsson] verða ákveðinn ás sem þarf að stöðva. Það er svakalegur kraftur í Arnóri.

Það þarf að fara virkilega vel yfir það með vörninni hjá Val hver ætlar að stöðva hann og hvernig þeir ætla að gera það,“ bætti hann við.

Valur ef ég verð að velja

Spurður hvort hann teldi annað liðið sigurstranglegra í dag sagði Ásgeir Örn:

„Ég held að þetta verði mjög jafnt en ef ég verð að velja myndi ég líklega velja Val sem aðeins sigurstranglegra liðið.“

Nánar er rætt við Þóreyju Rósu og Ásgeir Örn um leikina á mbl.is/sport/handbolti.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson