Kópavogur Nýjasta ísbúð Huppu er í Kórahverfinu, sú tíunda í röðinni.
Kópavogur Nýjasta ísbúð Huppu er í Kórahverfinu, sú tíunda í röðinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta var stærsta opnunin okkar hingað til. Það var fullt út úr dyrum á opnunardaginn og þvílíkt fjör og stemning,“ segir Telma Finnsdóttir, einn eigenda Ísbúðar Huppu. Tíunda ísbúð Huppu var opnuð á dögunum að Búðakór 1 í Kópavogi

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta var stærsta opnunin okkar hingað til. Það var fullt út úr dyrum á opnunardaginn og þvílíkt fjör og stemning,“ segir Telma Finnsdóttir, einn eigenda Ísbúðar Huppu.

Tíunda ísbúð Huppu var opnuð á dögunum að Búðakór 1 í Kópavogi. Þar með rekur fyrirtækið nú ísbúðir í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu auk búða í Reykjanesbæ, Borgarnesi og á Selfossi þar sem þetta byrjaði allt saman hjá tvennum vinahjónum. Síðar hefur fjárfestir bæst í hópinn en reksturinn er enn í höndum Telmu og Gunnars Más Þráinssonar.

Eru með 180 starfsmenn

Telma segir að ekki sé á teikniborðinu að opna fleiri ísbúðir. Nóg sé nú um, enda í mörg horn að líta þegar búðirnar eru orðnar svo margar og starfsmannafjöldinn slagar hátt í 180. Hefur þeim fjölgað um 50 bara á síðustu tveimur árum. „Tíu er bara flott tala. Tíu ísbúðir á tíu árum. Það er ágætt,“ segir hún.

Huppa var áður með útibú í Kringlunni en því var lokað á covid-tímanum. Telma segir að það henti betur að vera með eigin verslanir. Kringlan hafi til að mynda bara verið opin til 21 á kvöldin en mikið sé að gera eftir þann tíma í verslunum Huppu.

Nóg að gera á veturna

Athygli hefur vakið að Telma og félagar eru óhrædd við að opna nýjar ísbúðir um hávetur. Einhver kynni að halda að lítið væri að gera í ísbúðum þá en Telma segir það mestu furðu. „Auðvitað er töluvert meira að gera á sumrin enda fáum við krakkana sem eru að vinna hjá okkur á veturna þá inn í nánast fullt starf. En við erum náttúrlega ótrúleg hérna á Íslandi. Það getur verið grenjandi rigning og hífandi rok og það er samt brjálað að gera. Það er aðallega að frostið stoppi fólk í að koma. Þá fáum við stundum rólega daga.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon