Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Músíktilraunir hefjast í Hörpu á morgun, sunnudag, þegar ellefu hljómsveitir eða einyrkjar keppa um sæti í úrslitum keppninnar sem verða haldin á sama stað laugardaginn 16. mars. Ellefu keppa svo til viðbótar á mánudagskvöld. Alls taka 43 hljómsveitir eða einyrkjar þátt í keppninni að þessu sinni og leika fjölbreytta tónlist, allt frá léttu kassagítarpoppi í myljandi svartmálm. Af hljómsveitum sem taka þátt eru tólf hljómsveitir utan af landi og þrjátíu og ein af höfuðborgarsvæðinu. Óvenju mikið er um einherja í keppninni að þessu sinni, sem er tímanna tákn, því alls eru einstaklingar á bak við þriðjung atriða þetta árið.
Tilraunirnar voru fyrst haldnar 1982 og svo árlega upp frá því utan þegar kennaraverkfall kom í veg fyrir keppnina 1984 og Covid hélt öllum heima 2020. Verðlaun eru veitt fyrir 1., 2. og 3. sæti. Einnig eru veitt ýmis aukaverðlaun, meðal annars fyrir hljóðfæraleik og söng og einnig veitir Félag tónskálda og textahöfunda svonefnd Höfundaverðlaun FTT.
Hljómsveitum sem komast í úrslitin 16. mars býðst að taka þátt í nýliðanámskeiði í hljómsveitaiðjunni Hitakassanum, sem haldin er í samvinnu við Útón og Tónlistarborgina Reykjavík.
Á hverju undankvöldi velur salur eina hljómsveit áfram í úrslit og dómnefnd eina. Dómnefnd getur svo bætt í úrslit hljómsveitum úr undankeppninni. Úrslitakvöldið velur dómnefnd ein vinningssveitir, en áheyrendur kjósa Hljómsveit fólksins.
Dómnefnd Músíktilrauna skipa ofanritaður, Arnar Eggert Thoroddsen, Birgitta Guðmarsdóttir, Hildur Guðný Þórhallsdóttir, Hrafnkell Örn Guðjónsson, Kristján Kristjánsson og Sóley Stefánsdóttir.
Á morgun spila hljómsveitirnar og einyrkjarnir Atli, Ágúst, Emidex, Flórurnar, Frýs, Júlíkó, Lapua, Laufkvist, Tinna og Gunnar, Vertigo og Þögn. Næstkomandi mánudagskvöld verður keppninni fram haldið, en þá koma fram Ahelia Áslaug Dungal, Áttavillt, Cloud Cinema, Eló, Guðbrandur Örn, Hljóðmaskína, Lil Salty, Little Menace, Peace of Men og Tommi G.
Keppnin verður í Norðurljósasal Hörpu og hefst kl. 19.30 öll kvöldin.
Sunnudagur 10. mars
Atli Atli Dagur Stefánsson er tónlistarmaður frá Sauðárkróki sem er búsettur í London. Hann hefur starfað að tónlist frá 2020 og gefið út tónlist undir eigin nafni frá 2021. Gabrielle Lacerda syngur með honum og leikur á gítar.
Ágúst Akureyringarnir Ágúst Þór Brynjarsson, sem syngur og leikur á gítar, Rúnar Þór, sem syngur og vélar um tölvur, Heimir Steinn, sem leikur á bassa, Eyþór Alexander, sem leikur á hljómborð, Sæþór Már, sem leikur á gítar, og Jóhann Daði, sem leikur á trommur, eru saman í hljómsveitinni Færibandið. Að þessi sinni er Ágúst í aðalhlutverki.
Emidex Emidex er Ingo Lupnaav Atlason tölvuþór úr Kópavogi. Hann hefur verið að semja tónlist í rúm 10 ár, þá aðallega techno, en á það til að bregða fyrir sig öðrum stefnum.
Flórurnar Þær Hrefna Rós Gunnarsdóttir og Selma Rós Norðfjörð kalla sig Flórurnar. Þær segjast tvær stelpuskjátur sem leiki sér að textagerð og garage-band. Afraksturinn er tilraunatónlist beint frá hjartanu.
Frýs Frýs er hljómsveit úr Reykjavík sem leikur aðallega „psychedelic, klassískt rokk“ eins og hljómsveitarmenn lýsa því. Björn Máni Björnsson leikur á hljómborð, Rafael Róbert Símonarson á trommur, Daníel Sveinn Jörundsson á kassagítar og syngur líka, Brynjar Karl Birgisson á bassa og Haukur Lár Hauksson á rafgítar.
Júlíkó Júlíus Örn Breiðfjörð Örnuson er hljómborðs- og gítarleikari úr Reykjavík. Hann kallar sig Júlíkó og hefur leikið með hinum ýmsu tónlistarstefnum eins og sveitatónlist, rokki og djassi. Hann tók þátt í Músíktilraunum með hljómsveitinni Purple9 árið 2022 en hefur mest verið að semja og spila einn síðan.
Lapua Hljómsveitin Lapua spilar groove og thrash metal. Andrés Þór Jóhannsson leikur á gítar, Ýmir Ingvarsson syngur, Ragnar Gauti Þorvaldsson spilar á trommur og Viljar Goði á bassa. Þeir eru allir úr Reykjavík.
Laufkvist Francis Laufkvist Kristinsbur leikur á gítar og syngur. Francis fær innblástur úr ýmsum áttum, meðal annars bossa nova, sólskinspoppi og nútíma indírokki.
Tinna & Gunnar Söngkonan Tinna G. Petersen og tölvuþórinn Gunnar Hans Júlíusson kalla sig Tinnu & Gunnar. Þau koma úr ólíkum áttum en ná saman í tónlist sem lituð er af R'n'B.
Vertigo Vertigo er indírokksveit úr Reykjavík. Nikodem Dominik Kocon leikur á trommur, Jökull Hrafn Henn Thorstensson á gítar, Gabríel Máni Jónasson á bassa og Peter Niel Livingstone á gítar.
Þögn Þögn er sextett frá Vestmannaeyjum María Fönn Frostadóttir syngur, Aðalbjörg Andrea Brynjarsdóttir spilar á trommur, Júlí Bjart Sigurjónsdóttir á bassa, Arna Gunnlaugsdóttir á gítar, Sarah Elía Tórshamar á gítar og Elín Sif Hlynsdóttir á bassa. Þær segja að þeim hafi þótt vanta fleiri gellur í tónlistasenuna í Eyjum svo þær tóku sig til og redduðu Bluetooth-hljóðnema, „and the rest is history“.
Mánudagur 11. mars
Ahelía Hrafnhildur Edda Erlingsdóttir notar listamannsnafnið Ahelía, en Ahelia er hebreskt orð fyrir öndun. Hrafnhildur syngur og leikur á rafmagnsfiðlu, en hún segist annars hafa sérstakt dálæti á lögum með danstakti og miklum bassa „svo annað lagið er popp beat og hitt er afro popp beat með melódíum og hljómum og fjölbreyttum hljóðfærum. Algjört eyrnakonfekt“.
Áslaug Dungal Áslaug María Dungal er ung tónlistarkona af Seltjarnarnesi sem hefur sent frá sér tónlist undir eigin nafni undanfarin tvö ár. Hún spilar með tveimur skólafélögum sínum, Borgþóri Jónssyni á bassa og Jóni G. Breiðfjörð á trommur, en leikur sjálf á gítar og syngur. Hún lýsir tónlistinni sem melankólískum gítarlögum með hugljúfum laglínum í rokkuðum/shoegaze stíl.
Áttavillt Kópavogstvíeykið Amelia April Steele og Ríkharður Ingi Steinarsson flytja draumkennda popptónlist sem fjallar oft um ást og hvernig lífið kemur manni alltaf á óvart. Amelía syngur en Ríkharður leikur á hljómborð.
Cloud Cinema Cloud Cinema er hljómsveit tónlistarnema úr MÍT og tónlistarskóla FÍH sem skipuð er þeim Kjartani Inga Karlssyni trommuleikara, Rosalíu Hönnu Canales Cederborg söngkonu, Lúkas Þorláki Jones bassaleikara, Þorsteini Inga Júlíussyni gítarleikara og Ríkharði Inga Steinarssyni píanóleikara.
Eló Söngkonan og gítarleikarinn Elísabet Guðnadóttir notar listamannsnafnið Eló. Hún segir að lög hennar séu lágstemmd og hugljúf, textarnir endurspegli eigin reynslu og raunir, hugsanir, daglega lífið, strögglið, sigrana og kærleikann.
Guðbrandur Örn Guðbrandur Örn Úlfarsson er gítarleikari úr Borgarnesi og sækir innblástur í þjóðlaga- og kántrítónlist. „Ég sem vanalega róleg ástarlög og líka önnur lög sem ég tengi við mig sjálfan.“
Hljóðmaskína Þríeykið Hljóðmaskínu skipa Víf Ásdísar Svansbur, sem leikur á rafmagnsgítar og aðra gítara, hljóðgervil og mandólín og syngur, Rósa Kristinsdóttir, sem leikur á trommur, gítar og hugsanlega hljóðgervil og syngur, og Samúel Reynis sem leikur á hljómborð og hljóðgervil og syngur. Hljóðmaskínu langar að gera músíktilrauna tilraunamúsík músíktilraunar.
Lil Salty Rapparinn Hugi Hrafn Helgason, sem kallar sig Lil Salty, hefur unnið að tónlist í fimm ár og tekur þátt í Músíktilraunum öðru sinni.
Little Menace Hafnarfjarðarsveitin Little Menace leikur þungt og melódískt rokk sem flokka má sem alternative rock/metal. Sveitina skipa Sigurður Már Gestsson gítarleikari, Jasper Matthew Bunch sem syngur og leikur á hljóðgervil, Davíð Máni Stefánsson bassaleikari og Árni Tómas Sveinbjörnsson trommuleikari. Þeir komu fyrst fram í Músíktilraunum 2019 og hafa tekið þátt ár hvert eftir það, fyrir utan 2023.
Peace of Men Félagarnir í hafnfirsku hljómsveitinni Peace of Men, Auðun Benedikt Hannesarson gítarleikari, Hlynur Óskarsson bassaleikari og Logi Jökulsson trommuleikari, tóku þátt í síðustu Músíktilraunum í annarri hljómsveit, en Auðun langaði að prófa aðeins nýja tónlistarstefnu sem er blanda af dubstep, techno og aðallega þungarokki. Hugmyndin fær mikinn innblástur frá tölvuleikjunum Doom og Auðun kallar hana „Doomcore“.
Tommi G Tommi G er Tómas Atlason, sem semur og flytur músík með liðsinni Ableton og hljóðnema. Hann spilar taktfasta raftónlist og sækir hugmyndir í umhverfið og tilfinningar. Textarnir verða svo til í einhvers konar flæði þar sem veruleiki og ímyndunarafl mætast.