Andrés Magnússon andres@mbl.is og Stefán Einar Stefánsson ses@mbl.is
Þegar ekið er á þjóðvegi 1 um Öræfin blasir foldgnár jökullinn við á aðra hönd og ólgandi hafið á hina. En allt í einu þegar komið er að fögrum hlíðum Hnappavalla, skammt frá Fagurhólsmýri, kemur í ljós óvenjulegt, ekki ýkja hátt, svart stórhýsi, þakið tyrft en útveggir settir útsýnisgluggum. Það sker sig frá náttúrunni, en á samt heima þar, nánast eins og fylgsni illmennisins í Bond-mynd.
Svo er til allrar hamingju ekki, því þetta er munaðarhótel, einkum ætlað erlendum ferðamönnum sem komnir eru að skoða Jökulsárlón og náttúruna í kring, frá A til Ö, frá Atlantshafi til Öræfajökuls. Þar er eitt vinsælasta göngusvæði landsins, kjörið fyrir útivistarfólk og fjallageitur, en þar er líka eitt magnaðasta klifursvæði landsins. Og útsýnið stórfenglegt til allra átta, en frá ströndinni drynur opið úthafið.
Fosshótel Jökulsárlóni var opnað sumarið 2016, 4 stjörnu hótel með fyrsta flokks veitingastað og vinsælum laugum og dekurdyngju, eins og sjá má af gestum spígsporandi um á hnausþykkum, hvítum sloppum og tátiljum. Sjálft hótelið er óvenjulegt útlits, en þó að innandyra sé byggingin mörkuð skandinavískri naumhyggju eru almenningsrýmin smekklega búin og hlýleg; notalegt skjól frá hryssingslegu vetrarveðrinu utandyra þegar Morgunblaðsmenn bar að garði á hringferð sinni í tilefni 110 ára afmælis blaðsins.
Hingað vildi fólk koma
Hrafnhildur E. Karlsdóttir hótelstjóri tók vel á móti riddurum hringferðarinnar á millihæð í anddyri hótelsins, hressileg og röggsöm, eins og vera ber. Fyrst færðum við staðsetninguna í tal og hve vel þessi óvenjulega bygging fellur að landslaginu.
„Fólk keyrir fram hjá stundum, það áttar sig ekki alltaf á að það eigi að beygja hér, enda er þetta ekki alveg hefðbundin hótelbygging. Hún stendur út úr, en kallast samt svo vel á við náttúruna, sem var nákvæmlega það sem arkitektinn vildi gera.“
Og hlýleg þegar inn er komið…
„Já, það er nú það sem er fallegt við þessa byggingu. Hún er úr límtré og heldur vel utan um fólk. Við sjáum gestina koma inn með axlirnar fyrir eyrnaskjól af stressi og barningi við veður og vegi, en svo kemur það hingað inn og slakar samstundis á.“
Þetta er ótrúlega stórt hótel miðað við að það er í Öræfum, fjarri mannabyggðum.
„Jú, þetta er 125 herbergja hótel og fyrstu einingarnar voru teknar í notkun 2016, en svo eru hér tæplega 40 starfsmannaherbergi, því allt fólkið mitt býr hérna. Svo var bætt við öðrum áfanga árið 2019, öðrum kálfi eins og við köllum.
Þá var þegar ljóst að hér var mikil eftirspurn, hingað vildi fólk koma.
Þið hafið ekið hér um, horft í kringum ykkur og vitið að þetta er kynngimagnað svæði. Þó það sé svolítið langt hingað – það er um það bil jafnlangt hingað frá Reykjavík eins og til Akureyrar – þá fara 80% ferðamanna suðurströndina. Það er allt hægt að sjá hérna, bara frá veginum. Hér má horfa á hafið og fjöllin, jöklana og fossana, allar þessar andstæður og síðan auðvitað lónin. Þetta er magnað svæði.“
Hér er enda hvert herbergi með útsýnisglugga, sum niður að hafi og önnur upp hlíðarnar.
„Já, upp í fjöllin og þar fyrir ofan jökullinn. Öræfajökull er bara hérna fyrir ofan okkur, við sjáum hann ekki héðan en við vitum af honum og erum ákaflega ánægð meðan hann sefur áfram. Sem hann ætlar að gera, það verður svoleiðis,“ bætir Hrafnhildur við nokkuð ákveðin!
„Að líta út, þetta er aldrei eins. Svolítið eins og málverk eftir Jónas Viðar eða Georg Guðna, dulúð og alltaf eitthvað nýtt.“
Leiðin liggur með suðurströndinni
Þú nefndir viðbyggingu áðan, kom það rekstraraðilum á óvart hvað eftirspurnin var mikil? Það er ekki sjálfgefið að hótel spretti hér upp úr sandinum.
„Menn vissu alveg hvað þeir voru að gera. Þeir höfðu sýn og hér á svæðinu voru gestir, þannig að það var ekki verið að ana út í einhverja tilraunastarfsemi. En það kom kannski á óvart hversu hratt var ráðist í þessa stækkun.“
Og veitti greinilega ekki af, hér er krökkt af gestum?
„Það er mikið að gera, mjög mikið að gera.“
Okkur er sagt að það séu fá hótel með aðra eins bókunarstöðu, heilt yfir árið…
„Ég get ekki sagt neitt til um það, en það kæmi mér á óvart ef önnur hótel hér á suðurströndinni væru ekki með ágæta nýtingu.
Það er auðvitað alltaf verið að reyna að tosa ferðafólk lengra og lengra, það fer svona að Jökulsárlóni og síðan til baka aftur. En það er heilmikið að skoða áfram austur um og það er nú það sem verið er að miða að með frekari uppbyggingu annars staðar, að fá fólk til þess að fara lengra og fara meira.“
Er þetta hin rétta stærð eða vildirðu vera með stærra hótel?
„Ég hefði örugglega einhvern tíma þegið að það væri stærra, en þetta er mjög góð rekstrarstærð.“
Hvað ertu að fá marga gesti á ári?
„Ég er nú ekki með það á takteinum, en við erum með um 200 manns í húsi á hverjum degi.“
Hvað gera menn langan stans?
„Það er mjög misjafnt. Margir koma hingað í tvær, þrjár, jafnvel fjórar nætur og eru þá að skoða sig um hér í kring með hótelið sem bækistöð, en svo eru aðrir sem eru bara nóttina. Það stýrist mikið af ferðatilhögun þeirra til landsins.“
Nú hafa sumir lýst áhyggjum af því að ferðamannastraumurinn til landsins sé að dala. Sérðu fram á að slíkt gæti bitnað á ykkur eða er röðin við dyrnar nógu löng?
„Ég held að þetta sé ekki að fara að bitna á okkur. En það segir sig sjálft að við getum ekki endalaust bætt við okkur einhverjum prósentum eða tugprósentum á ári. Innviðirnir okkar bara þola það ekki. En þetta er hárfínt samspil milli náttúru, innviða, vegakerfis og heilbrigðiskerfis.
Svo þurfum við að verðleggja okkur rétt, fá réttu gestina til okkar. Það er ekki allt unnið með því að vera með 100% nýtingu dag eftir dag. Það getur verið betra að vera með aðeins minni nýtingu og bjóða betra verð.“
En þú ert ekki bara með gesti?
„Nei, hér eru líka liðlega 70 starfsmenn, eilítið mismargir eftir árstíma. Þetta eru nær allt erlendir starfsmenn, héðan og þaðan, fólk sem við höfum ráðið hingað að utan og veitum einnig húsnæði, svo við erum um 70-80 sem búum hér. Þetta er ekki bara hótel, þetta er þorp.“