Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Við ætlum að drepa niður fæti hér og þar í sögu áfengis á Íslandi. Guðmundur Jónsson fjallar um það þegar sú breyting varð á áfengisneyslu landsmanna á seinni hluta 17. aldar að farið var að flytja inn brennivín. Neysla þess jókst hröðum skrefum á 18. öldinni og í erindi sínu ætlar Guðmundur að fjalla um þessa nýjung í neyslusögu Íslendinga og hvernig þetta þróaðist,“ segir Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur, en hann er einn af þeim sex sagnfræðingum sem halda erindi á málstofu á Hugvísindaþingi í dag undir yfirskriftinni: Ísland – Brennivínsland.
„Fljótlega eftir að brennivínið kom hingað til lands kom í ljós að fólk kunni ekki að umgangast það og drakk sér til óbóta. Við skulum hafa í huga að brennivín var hagstætt í innflutningi fyrir kaupmenn, það tók lítið pláss og skilaði miklu og fyrir vikið þótti kaupmönnum gott að flytja inn brennivín, það var hagkvæmt fyrir þá. Aftur á móti var samfélagið ekki vel undir þetta búið, fólk datt í það.“
Kvartað yfir ofurölvi prestum
Sumarliði segir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur ætla að fjalla um drykkjuskap og áhrif hans á þyngd dóma á 18. öld.
„Þessir dómar gefa mjög skemmtilega innsýn í tíðarandann þá, og við erum kannski enn að kljást við hvort við eigum að taka mark á fólki sem er ölvað eða ekki, hvort fólk beri ekki ábyrgð á sjálfu sér þegar það er drukkið. Þetta átti ekki síst við um embættismenn, presta og sýslumenn, sem brutu af sér undir áhrifum, jafnvel við embættisstörf. Á þessum tíma var kvartað yfir því að prestar væru til dæmis oft ofurölvi. Embættismenn höfðu fremur ráð á að kaupa brennivín en kunnu greinilega ekkert sérstaklega að nota það.“
Fólk reyndi að brjóta bannið
Nanna Þorbjörg Lárusdóttir verður með fyrirlestur um góðtemplarana, en þeir leiddu hreyfingu fyrir því að banna sölu og innflutning á áfengi, og tókst það.
„Templarahreyfingin var mjög öflug á ofanverðri 19. öld og henni tókst að fá áfengisbannið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908. Bannið stóð svo að hluta til allt til ársins 1989, þegar bjórinn var leyfður,“ segir Sumarliði, sem ætlar í sínu erindi að fjalla um áfengisbannið og af hverju það var að mestu afnumið á þriðja og fjórða áratug 20. aldar.
„Fólk reyndi að brjóta bannið eins og mögulegt var og ýmsum brögðum var beitt. Læknar voru fólki innanhandar með að nálgast áfengi og dýralæknar skrifuðu upp á koníak handa hestum og hundum,“ segir Sumarliði, sem ætlar líka að velta fyrir sér hvernig orðræðan í kringum áfengisbannið hafi tengst sjálfsmynd þjóðarinnar.
„Íslendingar hafa alltaf haft áhyggjur af því hvað öðrum finnst um þá. Mörg dæmi eru um að í ferðalýsingum ferðamanna sem komu hingað til Íslands á þessum tíma séu lýsingar á því að fólk sé drukkið á almannafæri og hagi sér óviðurkvæmilega. Þetta fannst málsmetandi fólki ómögulegt og að við yrðum að reka af okkur þetta orð, að við værum ekki siðað fólk. Fólk þráði viðurkenningu umheimsins á því að Íslendingar væru Evrópuþjóð en ekki heimskautafólk. En þeir sem voru á móti áfengisbanninu óttuðust aftur á móti að útlendingar álitu að þetta fólk þarna norður frá væri svo ístöðulaust að það væri ekki óhætt að hafa áfengi nálægt því. Viðhorf þeirra snúast því líka um viðurkenningu, rétt eins og hjá þeim sem voru með banninu.“
Var bjórinn leiksoppur?
Stefán Pálsson og Sverrir Jakobsson ætla að skoða áfengissöguna nær okkur í tíma, hvers vegna bjórinn hafi verið bannaður og hvort bjórinn hafi verið leiksoppur í íslenskri áfengispólitík.
„Þó að áfengisbannið hafi verið afnumið var mjög hart deilt um þessi efni næstu áratugi og víða gat verið ófremdarástand við tiltekin tækifæri. Stundum var gripið til þess ráðs að loka áfengisútsölum þegar fréttist að bátaflotinn væri á leiðinni í land. Sumar lýsingar frá Siglufirði á síldarárunum, og raunar fleiri stöðum, benda til að ekki hafi verið vanþörf á þegar mörg hundruð sjómenn komu í land á sama tíma og höfðu verið lengi úti. Þetta er sannarlega áhugavert efni með marga fleti.“
Málstofan Ísland – Brennivínsland verður í Árnagarði 201 í dag, laugardag, kl. 13.00-16.30.
Fjölbreytt erindi á Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands
Femínísk siðfræði í Barbie
Hugvísindaþing 2024 fór af stað í gær föstudag í Háskóla Íslands en heldur áfram í dag, laugardag 9. mars. Á Hugvísindaþingi er borið fram það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Meðal þess sem fjallað verður um í ár er femínísk siðfræði í Barbie, goð og hetjur, strumpa- og skordýramál, sögulegar rætur kynþáttahyggju, brennivínslandið Ísland, smásögur, sjálfstæðiskonur 20. aldar, áskoranir listar og tækni, kennsluþróun í hugvísindum, máltækni, söfn og fjarlestur. Málstofur fara fram í Árnagarði, Lögbergi, Odda og Veröld. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Nánar á hugvis.hi.is