Grundarfjörður Skíðabrekkan hefur notið mikilla vinsælda í vetur.
Grundarfjörður Skíðabrekkan hefur notið mikilla vinsælda í vetur. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíðarfar hefur verið með betra móti í Grundarfirði undanfarið, stillur og sólin aftur farin að láta sjá sig. Í byrjun febrúar snjóaði allmikið í suðvestanátt og skíðalyftan við bæjarjaðarinn fór í gang

Úr bæjarlífinu

Gunnar Kristjánsson

skrifar frá Grundarfirði

Tíðarfar hefur verið með betra móti í Grundarfirði undanfarið, stillur og sólin aftur farin að láta sjá sig. Í byrjun febrúar snjóaði allmikið í suðvestanátt og skíðalyftan við bæjarjaðarinn fór í gang. Aldrei þessu vant var hún meira og minna í gangi fram í miðjan febrúar svo að æskan á öllum aldri fagnaði í skíðabrekkunni.

Mátti sjá miklar framfarir hjá flestum; þó að einn og einn félli við stóð sá sami upp aftur og skíðaði áfram. Þau allra yngstu allt niður í fjögurra ára náðu að standa óstudd niður brekkuna eftir nokkra daga. Lyftugæslan og öll umsýsla í kringum rekstur lyftunnar er unnin í sjálfboðastarfi, sem er þakkarvert en spurning hvað megi bjóða fólki í þeim efnum.

Lionsklúbbur Grundarfjarðar hélt sitt árlega Kútmagakvöld í sal Fjölbrautaskóla Snæfellsness sl. laugardag fyrir fullu húsi. Veisla þessi er orðin rómuð fyrir þá fiskrétti sem boðið er upp á. Sjálfur kútmaginn troðinn út með rúgméli og lifur nýtur orðið lítilla vinsælda. Auk matarins gefst fólki kostur á að kaupa happdrættismiða og í boði er fjöldi góðra vinninga sem fyrirtæki og stofnanir víðs vegar að gefa til stuðnings góðu málefni.

Í kringum útdrátt í happdrættinu skapast oft mikil stemning. Nú átti veislustjórinn Jói G ekki síst þátt í hve fólk skemmti sér vel. Fólk kemur víða að úr nágrannasveitarfélögum og Lionsfélagar úr Kópavogi eru fastagestir á þessu kvöldi. Félagar úr Lionsklúbbi af Skeiðunum á Suðurlandi eru farnir að koma ár eftir ár. Allur ágóði af kútmagakvöldinu rennur til ákveðins málefnis hverju sinni en í þetta sinn er hann ætlaður til kaupa á altæku ómskoðunartæki fyrir Heilsugæslustöð HVE í Grundarfirði.

Talandi um heilsugæslustöðina þá eru Grundfirðingar afar óhressir með hversu stopul viðvera lækna er hér. Enginn læknir er staðsettur á heilsársgrundvelli en málin leyst með afleysingalæknum sem skiptast á viðveru hér viku og viku í senn. Svo kemur einatt fyrir að enginn kemur og er þá mikið álag á hjúkrunarfræðingi sem starfar við stöðina. Þegar læknir sést er aðsókn svo mikil að margir komast ekki að. Bæjaryfirvöld hafa látið málið til sín taka og átt ótal fundi með þeim sem þessum málum stjórna. Nú hafa bæjarbúar að eigin frumkvæði hafið söfnun á undirskriftalista sem afhentur verður viðeigandi stjórnvaldi innan tíðar.

Vinna við varmaskiptaverkefni við grunnskólamannvirki og sundlaug er nú komin í gang eftir að snjóa leysti í síðustu viku. Átta holur þar rétt hjá verða virkjaðar en sjö þeirra verða nýttar í gegnum varmadælu. Ein nýtist beint þar sem um 40 gráðu heitt vatn mældist í henni. Vinnan nú beinist að því að koma lögnum úr borholunum inn í kjallara íþróttahússins en jafnframt fer fram vinna innanhúss og breytingar verða gerðar í búningsklefum í kjallara. Rarik mun setja upp spennistöð sunnan við íþróttahúsið því allmikið rafmagn þarf til að knýja varmadælurnar sem hita eiga upp húsnæðið og sundlaug. Reiknað er með að þessari vinnu verði lokið í júni í sumar. Þá verður hægt að slökkva á olíukyndingunni og þar með sparast mikill peningur sem sívaxandi olíukostnaður hefur leitt af sér.

Mokfiskerí er nú um allan Breiðafjörð og má sjá báta víðs vegar að við löndun í Grundarfjarðarhöfn. Þar er alla jafna mikill erill en fer vaxandi þegar góð aflabrögð og aðkomubátar haldast í hendur. Vinna er langt komin við deiliskipulag og breytingar á aðalskipulagi á hafnarsvæði og Framnesi öllu og sér brátt fyrir endann á. Í því sambandi er vegur neðan byggðar við Grundargötu að hafnarsvæði aftur kominn á dagskrá, en fyrst var farið að ræða þann möguleika fyrir 20-30 árum.

Höf.: Gunnar Kristjánsson