Keisarar: Kládíus (Derek Jacobi), Kalígúla (John Hurt) og Tíberíus (George Baker)
Keisarar: Kládíus (Derek Jacobi), Kalígúla (John Hurt) og Tíberíus (George Baker)
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann bauð gestum sínum upp á gullbrauð og gullkjöt.“ Þetta er ekki frásögn af svallveislu íslensks útrásarvíkings heldur borðhaldi Kalígúla, keisarans alræmda í Róm. Lýsingin er á meðal þeirra saklausari í bersöglu verki rómverska sagnritarans Svetóníusar (75-160 e

Tungutak

Þórhallur Eyþórsson

tolli@hi.is

Hann bauð gestum sínum upp á gullbrauð og gullkjöt.“ Þetta er ekki frásögn af svallveislu íslensks útrásarvíkings heldur borðhaldi Kalígúla, keisarans alræmda í Róm. Lýsingin er á meðal þeirra saklausari í bersöglu verki rómverska sagnritarans Svetóníusar (75-160 e. Kr.) sem Illugi Jökulsson hefur nýlega snarað á íslensku og er aðgengilegt sem hljóðbók á Storytel. Ritið er oft nefnt Tólf keisarar og hefst á Sesari á fyrstu öld f. Kr og lýkur á Dómitíanusi á síðari hluta fyrstu aldar e. Kr. Raunar var Sesar ekki keisari sjálfur en eftirmenn hans tóku upp nafnið (lat. Caesar, borið fram „kæsar“) sem embættistitil.

Fyrir fáeinum vikum, þegar ég var einu sinni sem oftar á þvælingi í Róm, þótti mér við hæfi að rifja upp frásögn Svetóníusar og hlýða á þau feðgin, Illuga og Veru, skiptast á að lesa upp þennan bragðmikla texta, enda hvort öðru áheyrilegra. Mest fjör er þar í lýsingum á kyn- og morðóðu skrímslunum Neró og Kalígúla, en kjörorð þess síðar nefnda var: „Ég held þeir megi hata mig bara ef þeir óttast mig meira.“ Kaflarnir um barnaperrann Tíberíus og sérvitringinn Kládíus eru ekki beint dauflegir heldur og hressilegir sprettir eru svo í öðrum söguþáttum líka. Róm var vitaskuld algert karlaveldi – „sjálf frumgerð feðraveldisins“, að sögn þýðanda – sem var byggt á grimmu þrælahaldi. Öflugar en ekki alltaf ýkja góðgjarnar og siðprúðar konur stjórnuðu þó ýmsu bak við tjöldin, t.d. Messalína, hin vergjarna eiginkona Kládíusar sem sigraði frægustu vændiskonu Rómar í samfarakeppni.

Tempora mutantur, nos et mutamur in illis, segir latneskur orðskviður: tímarnir breytast og mennirnir með. Þegar ég kom í fyrsta sinn til Rómar á páskum 1983 stautaði ég mig fram úr latneskum frumtexta Svetóníusar. Óneitanlega er fyrirhafnarminna að hlusta á krassandi hneykslissögur um klikkaða harðstjóra og lævís tálkvendi Rómar streyma áreynslulaust fram úr munni úrvals upplesara á ástkæra ylhýra. Illugi þýðir úr enskri tungu en þó með hliðsjón af frummálinu, eins og hann upplýsir í greinargóðum formála. Hann notaðist við allmargar þýðingar, m.a. einkar læsilega útleggingu eftir Robert Graves. Graves ritaði líka frægar sögulegar skáldsögur um Kládíus keisara sem vinsælir sjónvarpsþættir voru gerðir eftir hér um árið.

Svetóníus skrifaði frjálslegan stíl og því segist Illugi reyna að fylgja í þýðingunni; honum tekist með afbrigðum vel að ná hispurslausum frásagnarmáta og nöprum háðstón Rómverjans. Þýðandinn skýtur líka inn ýmsum viðbótarfróðleik til að gera textann skiljanlegri nútímalesanda og er allur sá fróðleikur úr fornum heimildum. Hvað sem sannleiksgildinu líður í einstökum atriðum er bókin dægilegasta skemmtun sem varpar ljósi á ósiði og óvenjur í Róm til forna. Þýðingin hefur enn ekki verið gefin út á prenti en æskilegt væri að það yrði gert.