Sigurvin Gunnar Sigurjónsson fæddist 12. nóvember 1946. Hann lést 29. febrúar 2024.

Útför Sigurvins fór fram 8. mars 2024.

Látinn er félagi okkar Sigurvin Sigurjónsson. Hann hafði glímt við erfið veikindi undanfarin ár og því ekki getað sinnt störfum innan klúbbsins vegna þess. Sem var mikil breyting frá því sem áður var. Sigurvin gekk til liðs við Lionsklúbb Akraness þann 4. mars 1989. Hann varð strax öflugur og starfsamur félagi og tók virkan þátt í störfum klúbbsins. Hann var þrisvar í stjórn klúbbsins, gjaldkeri starfsárin 1998-1999, 2005-2006 og 2013-2014. Hann sat í fjölda nefnda, vímuvarnardagsnefnd, skemmtinefnd, formaður þar, skógræktarnefnd, hússtjórn, blaða- og samskiptafulltrúi, ferðanefnd og fjáröflunarnefnd. Hann tók virkan þátt í fjáröflunum klúbbsins og má þar sérstaklega nefna kirkjugarðsverkefnið sem hann sinnti afar vel. Hann var duglegur að sækja uppákomur á vegum klúbbsins og fór í allar ferðir sem boðið var upp á meðan heilsan entist honum.

Hann var gerður að Melvin Jones-félaga 15. nóvember 2011, sem er æðsta viðurkenning sem veitt er til Lionsfélaga fyrir störf þeirra. Það er alltaf sárt að sjá á eftir og kveðja góða félaga og nú kveðjum við Sigurvin Sigurjónsson. Við félagar hans í Lionsklúbbi Akraness lútum höfði um leið og við minnumst hans og allra þeirra stunda sem við áttum með honum. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og kveðjum hann með virðingu og þökk.

Fyrir hönd félaga í Lionsklúbbi Akraness,

Benjamín Jósefsson.