[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhvern tíma heyrði ég að það væri góð regla að umlykja sig bókum, hafa þær sem víðast og bíða eftir rétta augnablikinu til lestrar. Það andartak – das Lustmoment – getur svo runnið upp hvenær og hvar sem er; í stiganum, inni í eldhúsi, úti í bílskúr, frammi í stofu

Einhvern tíma heyrði ég að það væri góð regla að umlykja sig bókum, hafa þær sem víðast og bíða eftir rétta augnablikinu til lestrar. Það andartak – das Lustmoment – getur svo runnið upp hvenær og hvar sem er; í stiganum, inni í eldhúsi, úti í bílskúr, frammi í stofu.

Sæmilega trúr þessari reglu er ég yfirleitt með nokkrar bækur í takinu. Eftir jól rak á fjörur mínar bókin Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia, en sú bók fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ári. Mikil frásagnargleði, ótrúlegir stóratburðir á hverri síðu en um leið einhvern veginn svo raunverulegir. Las hana á þremur kvöldum.

Í febrúar byrjaði ég á Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Er tæplega hálfnaður og hlakka til að lesa áfram um skytturnar þrjár.

Af ljóðum hef ég gaman (og nýt góðs af kveðskap Kvæðamannafélags Norður-Breiðafjarðar) og datt nýverið inn í Einræður Starkaðar eftir Einar Benediktsson. Einstaka ljóðlínur úr kvæðinu eru löngu orðnar hluti af tungumálinu. En eins og að hlusta á lengra tónverk sem innihalda ljúfa melódíu er gaman að lesa og upplifa ljóð af þessu tagi í heild sinni.

Talandi um músík, þá glugga ég reglulega í Sögu tónlistarinnar eftir Árna Heimi Ingólfsson. Sá góði doðrantur er gagnlegur til að átta sig betur á því hvar tiltekin tónlist er staðsett í tíma og rúmi.

Ég hlustaði fyrir skemmstu á yndislestur úr bókinni Síðasta skip suður eftir Jökul Jakobsson, sem er í sarpi Frjálsra handa á RÚV. Þar les Illugi Jökulsson um mannlíf og náttúru í Breiðafirði á liðnum öldum, og reikar hugurinn ósjálfrátt í kirkjugarðinn í Flatey.

Svo las ég á dögunum „Hið langa skeyti“ (e. The Long Telegram) sem George F. Kennan, sendiherra Bandaríkjanna, skrifaði heim frá Moskvu árið 1946. Þar er heimsmynd Sovétríkjanna útskýrð og hvernig innri veikleikar einræðisríkja leiða af sér árásargirni út á við. Magnað hversu margt í þessum klassíska texta hefur beina skírskotun til nútímans.