— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Margt má sjálfsagt segja um Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, en eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann er að hann er dálítið langt frá því að vera einhver Cicero, þótt báðir hafi þeir talað í Öldungadeildinni, með rúmlega 2000 ára millibili.

Margt má sjálfsagt segja um Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, en eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann er að hann er dálítið langt frá því að vera einhver Cicero, þótt báðir hafi þeir talað í Öldungadeildinni, með rúmlega 2000 ára millibili.

En rómverski ræðusnillingurinn var fæddur árið 106 fyrir Krist og lést árið 43. Það er svo sem ekkert nýtt, en þvert á móti alltaf líkt og jafnvel eins í þessum heimi, hversu sem hann þó breytist, þá fá menn það ekki endilega metið, hversu miklir snillingar eða fágæt eintök, sem þeir voru, og heiðruðu sína samferðamenn með því einu, að vera samtíða þeim. Það mátti segja með sanni um allmarga sem voru á róli svo sem 100 árum fyrir Krist og annað eins eftir hann. Þeir voru ræðuskörungar sumir og hafa allmörg sannindamerki um þetta varðveist, og hvað Cicero snertir þá var hann manna fremstur í þeirri grein lengi og að vonum virtur mjög af þeim sökum, en jafnframt hataður drjúgt af þeim, sem töldu sig standa illa laskaða eftir að lipru tungutaki ræðuskörungsins var beint að þeim. Og ekki þarf að nefna Krist sjálfan, sem var ekki fjarri þessum mönnum í tíma, og öfugt við þá flesta er hann enn með margfalt fleiri áhangendur á öllum tímum, hreyfir enn við mönnum, og sumir verða þess varir enn og sumir oft á dag og geyma fyrir sig. En þótt snilld Ciceros lifi enn í ritum hans, og hann hafi með sínum hætti komið að og haft áhrif á atburðarás vegna sinna sérstöku hæfileika, breytir það þó ekki því, að alltaf verður til mannskapur sem leggur hatur á slíka menn og hefur svo sem, fyrir sinn hatt, ríkulegar ástæður til þess. Því að ræðum þeirra og skrifum, tungutaki þeirra og rökfimi, sem orð fór af um allan þáverandi heim, var einatt erfiðara að verjast en beittustu sverðum eða öðrum eggvopnum. Enda barst hróður Ciceros víða og safnaði hann smám saman aðdáendum og eins óvildarmönnum, sem hugsuðu honum þegjandi þörfina. Cicero kom ekki að drápi Sesars, en hann harmaði það ekki, öðru nær. Um aðför samsærismanna að Sesari sagði Cicero eitthvað á þessa leið: „Allir heiðvirðir menn komu nærri drápi Sesars, en suma þeirra vantaði aðgang að ráðagjörðinni, suma skorti hugrekki, aðrir fengu ekki tækifæri, en engan þessara skorti vilja til að drepa Sesar.“

Eftir drápið flúði Cicero til Grikklands. Vinir hans hvöttu hann ákaft til þess að snúa til baka, sennilega vissir um að Cicero gæti fært fram sannfærandi rök sem dygðu til að lífi hans yrði þyrmt, auk þess sem hann ætti fleiri vini í Róm en óvini. Þegar óvinir hans náðu Cicero á flótta dugði þeim ekki að ráða hann af dögum, heldur skáru þeir úr honum tunguna og negldu hana á altarið í Forum Romanum.

Hreyfing er vel séð

Það er flest í henni veröld sem getur haft nokkra hættu í för með sér, dregið dilk á eftir sér og kveikt rauð ljós, svo nokkur af helstu hættumerkjum í smáum stíl séu nefnd til sögunnar. Manneskjum, sem hafa lifað allmarga afmælisdaga, er sérstaklega ráðlegt að hreyfa sig og jafnvel að taka betur á því og stunda íþróttir í mátulegum skömmtum. Þegar þrek minnkar með árunum og gerir jafnvel körlunum þykkara undir belti, sem hefur þó ekkert sérstaklega gott í för með sér, þá eru velviljaðir sérfræðingar og góðkunningjar, sem komnir eru enn lengra í lífinu, örlátir á sína reynslu og benda á að gönguferðir þar sem hraðinn og lengdin séu smám saman aukin, í hófi þó og jafnvel, ef vel gengur, að menn hlaupi við fót og þótt þeir séu ekki á barnungu skeiði. Þeir ítreka að það sé öllum hollt að stunda íþróttir, þótt þeir komist aldrei í lið eða fái nokkru sinni afhentan eftirsóknarverðan verðlaunapening eða jafnvel bikar, en þá aðeins í samfloti með öðrum.

Þegar bréfritari tekur öllu vel, eins og sjálfsagt er, þá segist hann hafa hugsað sér, og hafa reyndar velt verulega fyrir sér, að fara í myndarlega göngutúra heima hjá sér. Sérstaklega á veturna, en þá er veðrið þar inni miklu hagfelldara og stabílla en úti við, og ef maður situr við skriftir og fúlsar við meinlokum þá er það mikil upplyfting og gerir hugsunina léttari að spretta á fætur og úr spori. Margt bendir til að hvoru tveggja geri gott, þetta, sem lýst var, og íþróttavafstrið er þá meðtalið, fyrir þá sem lúta að skrifum, að þjóta reglubundið af stað á sléttu gólfi heima hjá sér og setjast svo sáttir við lífið og tilveruna við tölvuna sína á ný. Þess utan þá þekkir maður eftir langa ævi of marga menn sem hafa klætt sig vel að vetrarlagi, í nýjum vetrarskóm og úlpum, en hafa svo þotið á rassinn á fyrsta hálkublettinum sem fannst og þaðan viljað láta vorkenna sér án árangurs.

Joe Biden verður sífellt frægari

Og vilji menn fá alþjóðlegri dæmi, sem eru eiginlega á heimsvísu, þá létu hjálparkokkar Joe Biden hlaupa við fót til að sanna fyrir öllum að hann gæti ekki verið áttræður. Þessi hlaup fóru honum ekki vel og var hann raunar frekar álkulegur, eins og skáldið benti á.

En þó tók steininn úr þegar hann var látinn hlaupa einn upp landganginn á forsetaflugvélinni og fór þrisvar á höfuðið í þessari einu ferð og þótt hann hafi hægt á sér síðan, þá hefur honum enn skrikað fótur nokkrum sinnum á leiðinni upp og það þótt „the secret service“ láti hann fara um miklu mun styttri landgöngustiga og undir belg forsetavélarinnar, sem er auðvitað fjarri því að vera eins tilkomumikið og þegar hann var látinn hlaupa upp langa stigann. Í fyrsta skipti sem hann hljóp upp stutta stigann, og var að hverfa inn í belginn á vélinni, rak forsetinn höfuðið í þverjárnið efst við dyraopið, með töluverðum hvelli.

Bréfritari sá fyrir allnokkru Clint Eastwood leika „secret service“-mann í bíó og ef hann og þeir 20, sem voru með honum, hefðu allir dregið fram sínar miklu byssur og miðað á bitann og hugsanlega skotið hefði það getað endað illa, svo hugsað sé upphátt af töluverðu agaleysi. Ekki löngu áður, þegar Biden hélt ræðu úti fyrir á palli og veifaði fundarmönnum í lokin og gekk svo áleiðis á brott, þá rakst hann á sandpoka, sem var þar til að halda ræðupúltinu niðri, og féll forsetinn flatur með dynk og ruku fjórir til að koma honum sem fyrst á fætur, sem gekk prýðilega, þótt þeir væru dálítið skömmustulegir. En Joe Biden benti á sandpokann, sem felldi hann, og „secret service“, sem eru sérþjálfaðir menn, horfðu á þann seka og lögðu hann rækilega á minnið.

Hlakkar í andstæðingum

Þessi óhöpp hafa andstæðingar Bidens spilað á sjónvarpsskjáum, auk myndar þar sem forsetinn fór um á hjóli, umkringdur lífvörðum sínum, hitti ekki á bremsuna og hjólaði inn í hóp manna sem áttu sér alls ekki ills von. En uppáhaldsmyndband óvinanna er sennilega það þegar Joe Biden fór einn upp brottfararstigann áleiðis inn í forsetavélina og féll við þrem sinnum, á leiðinni upp. Þótt þessi myndbönd séu betri en ekkert og andstæðingar forsetans geti haft gaman af þessum uppákomum og öðrum, eru þau farin að verða dálítið þreytt.

Á fimmtudag flutti Biden svo árvissa ræðu forseta um „Stöðu ríkisins“ og höfðu margir væntingar og biðu þess spenntir að Joe Biden yrði illilega á í messunni.

Forsetinn les ræðuna af tveimur skermum og fer á milli þeirra í ræðu sinni, eins og forsetarnir sem verið hafa á undan honum gerðu einnig. Fylkingarnar tvær, Demókratar og Repúblikanar, eru, eins og vænta mátti, ekki á einu máli um það, hvernig forsetanum tókst til á þessum atburði. Demókratar hafa sjálfsagt andað léttar að þessu loknu. Repúblikanar gagnrýna sitthvað í ræðu forsetans, eins og er við hæfi, en hafi þeir vonað að forsetinn yrði sér til ámælis eða skammar hafa þeir vafalítið orðið fyrir vonbrigðum.

Útkastarar

Töluverð hreyfing er fyrir því í flokki forsetans að Biden „standi við það sem hann á að hafa sagt í upphafi forsetatíðar“, að hann ætlaði sér að sitja aðeins í eitt kjörtímabil. Biden gefur ekkert út á það nú. Talið er líklegt að fari svo, að Joe Biden vilji verða áfram í kjöri, eins og uppsöfnun hans á kjörmönnum bendir til, þá hefur þeim, sem vilja skipta honum út, og jafnvel helst varaforsetanum líka, ekki vaxið ásmegin og líklegt er, að þeir geri nú nokkurt hlé á að knýja á um það. Um það er þó rætt að sú fylking hafi enn möguleika á að safna liði í þrjá til fjóra mánuði og jafnvel allt til loka ágústmánaðar.

Hér fyrr í bréfinu var rætt um sögufrægar kempur, Júlíus Sesar og Cicero. Menn minnast enn Ciceros og orðsnilli hans. Hann kom ekki beint að samsærinu gegn Sesari, en vitað var að hann væri samþykkur því. Sesar var einstakur afburðamaður, mestur herstjórnandi í sinni tíð og skrifaði frægar frásagnir af Gallastríðinu.

Ástir þeirra Kleópötru drottningar í Egyptalandi

Fræg er sagan um það þegar Kleópatra lét bera sig í teppi upprúlluðu sem opnaðist fyrir framan augun á Júlíusi Sesari og stóðu lengi á stilkum! Hún var þá 21 árs gömul, en Sesar rúmlega fimmtugur. Þau eignuðust saman soninn Philometor, Litla-Sesar. Lengi mætti segja sögur af Sesari og hersigrum hans allt frá Bretlandi og austur í Íran. En þar sem minnst var á orðsnilld Ciceros og hvílíkur ræðumaður hann var, þá er ekki um það deilt að hafi Cicero verið mestur ræðumaður Rómverja, þá hafi Sesar verið næstbestur og ekki hafi endilega munað mjög miklu.