Hænur Búskaparhættir í brennidepli og samtalið er tekið.
Hænur Búskaparhættir í brennidepli og samtalið er tekið. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vinnubrögð og áherslur Matvælastofnunar eru gagnrýndar í ályktunum deildar kjúklingabænda innan Bændasamtaka Íslands (BÍ) sem hélt aðalfund sinn á dögunum. Óskað er eftir því að stjórn BÍ beiti sér fyrir því gagnvart MAST að sett verði upp gagnagátt með þeim málum er kjúklingabúskap varða. Borið hafi á óskýrum ferlum við tilkynningar um frávik í kjúklingabúskap. Slíkt sé mál sem geti leitt til skerðingar í framleiðslu og stjórnvaldssekta. Mikilvægt sé að bændur geti nálgast öll sín mál, tilkynningar og annað slíkt, á einum öruggum stað.

Samstarf sé snurðulaust

„Alla jafna gengur samstarfið við MAST og starfsmenn þar vel. Bændur telja samt sem áður að sumt megi bæta svo að samstarfið sé snurðulaust og uppbyggjandi. Bændur leggja sig í líma við að fylgja lögum og reglum til hins ítrasta og stofnuninni ber að hafa eftirlit með því að svo sé. Á því ríkir gagnkvæmur skilningur,“ segir Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs og formaður deildar kjúklingabænda, í samtali við Morgunblaðið.

Jafnframt öðrum málum eru kjúklingabændur áfram um að MAST fari varlega í upplýsingagjöf. Eftirlitsskýrslur og myndir eigi ekki að fara í hendur annarra en þeirra sem málið varðar. Gögn megi auðveldlega slíta úr samhengi og mistúlka af þeim sem ekki þekki til mála. Hugsanlega séu miklar ályktanir dregnar af stöku atriðum sem kunni að vera í ólagi og þau blásin upp í umfjöllun þegar annað sé í stakasta lagi. Einnig orki tvímælis að ef bóndi sé með starfsemi á eigin kennitölu lúti upplýsingar um búskap hans persónuvernd, en öðru máli gegni ef búið sé á kennitölu fyrirtækis. Þá megi greina frá málavöxtum.

Lagaklækir og leiðindi

„Þetta eru lagaklækir sem geta orðið að leiðindum,“ segir Guðmundur. „Umfjöllun um kjúklingabú getur og hefur stundum farið úr öllu samhengi með oftúlkun mála. Slíkt er eiginlega í hnotskurn dæmisagan fræga um að af tali fólks verði ein fjöður að fjórum hænum.“

Nefnt er enn fremur í ályktunum kjúklingabænda að á dögunum hafi Matvælastofnun sent út boð um stjórnvaldssektir vegna meintra brota á dýravelferð. Þetta séu atvik sem eigi að hafa átt sér stað fyrir meira en ári í sumum tilfellum. „Eftir fund bænda og með fulltrúum Matvælastofnunar var fallið frá fyrirhuguðum sektarboðum,“ segir Guðmundur. „Nú ræðum við hvernig málum sé best háttað til framtíðar þannig að hvorki bændur né MAST velkist í vafa um það hvernig bera skuli sig að. Slíkt tengist aftur því að MAST komi upp gagnagrunni þar sem öll mál þeirra og samskipti við stofnunina verði aðgengileg.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson