Í verki hefur stefnu VG verið vikið til hliðar í forsætisráðherratíð formanns flokksins. Tvískinnungurinn, bilið milli orða og athafna, er öllum augljós.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Athygli vekur hve fylgi flokks forsætisráðherra minnkar frá könnun til könnunar. Ráðherrann hefur þó leitt ríkisstjórn Íslands með góðum árangri í glímu við stærri verkefni en áður hafa þekkst: heimsfaraldur og ótímabundna jarðelda á Reykjanesi. Þá hefur kaupmáttaraukning og almenn velsæld ekki áður verið meiri.

Katrín Jakobsdóttir hefur verið forsætisráðherra frá 30. nóvember 2017 eða í sex ár og rúma þrjá mánuði. Það er dágóður samfelldur tími. Á lýðveldistímanum hafa aðeins Bjarni Benediktsson eldri og Davíð Oddsson setið lengur samfellt sem forsætisráðherrar. Þeir voru báðir formenn stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, og höfðu sterk og mótandi áhrif á stjórnmálin og þjóðlífið.

Katrín Jakobsdóttir leiðir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð (VG) sem varð til þegar hópur alþýðubandalagsmanna, arftakar gömlu kommúnistanna í þeim flokki, vildi ekki eiga samleið með þeim sem stofnuðu jafnaðarmannaflokkinn Samfylkinguna um aldamótin 2000.

Í VG söfnuðust andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES) auk þess sem þeir fylgdu þröngsýnni ríkisrekstrarstefnu á heimavelli. Þessi arfur veldur því líklega að nú er VG tímaskekkja.

Á sínum tíma sat Katrín Jakobsdóttir fyrir VG ásamt flokksbróður sínum Ragnari Arnalds í allra flokka nefnd um stöðu Íslands gagnvart EES og Evrópusambandinu. Nefndin skilaði áliti skömmu fyrir þingkosningar vorið 2007. Þar var lýst sameiginlegum stuðningi við EES-aðildina. Það tók þannig rúm 13 ár fyrir VG að sætta sig formlega við aðild Íslands að EES. Allir þingmenn flokksins hafa þó ekki enn kyngt henni, eftir 30 ára aðild. Einn þeirra, Bjarni Jónsson, var formaður utanríkismálanefndar alþingis vorið 2023 og brá fæti fyrir afgreiðslu frumvarps utanríkisráðherra sem miðaði að því að bæta réttarstöðu almennra borgara innan íslenskrar lögsögu á sameiginlega innri markaði Evrópu.

Í forsætisráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur hefur verið gert meira átak til að efla varnarmátt NATO en nokkru sinni frá því að bandalagið var stofnað fyrir 75 árum. Katrín styður allar þessar aðgerðir. Á heimavelli hefur ríkisstjórn hennar staðið að meiri endurnýjun á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar en frá því á níunda áratugnum. Þó hefur VG ekki formlega horfið frá andstöðu sinni við NATO. Enn segir í stefnu flokksins: „Ísland segi sig úr NATO. … Heræfingar á Íslandi, sem og herskipa- og herflugvélakomur, verði óheimilar.“ Í framkvæmd eru þetta marklaus orð en samt standa þau þarna enn.

Hollusta VG við ríkisrekstur og andstaða við einkaframtak breytist ekki. Nægir að líta til heilbrigðismála. VG sleppti hendi af heilbrigðisráðuneytinu undir árslok 2021. Það ár var engin liðskiptaaðgerð kostuð af ríkinu í einkareknu Klíníkinni. Fólk var frekar sent í skjóli EES-reglna til aðgerða erlendis með ærnum kostnaði sjúkratrygginga. Árið 2023 voru hins vegar 443 liðskiptaaðgerðir í Klíníkinni eftir að ráðherra Framsóknarflokksins innleiddi nýja starfshætti. Flokksráðsfundur VG 1.-2. mars 2024 taldi að sjálfsögðu aukna áherslu á einkarekna heilbrigðisþjónustu frá 2021 „mjög alvarlega“.

Í verki hefur stefnu VG verið vikið til hliðar í forsætisráðherratíð formanns flokksins. Tvískinnungurinn, bilið milli orða og athafna, er öllum augljós.

Við þetta bætist síðan fjórða málið: afstaðan til útlendingamála. Þar segist VG nú fylgja fyrirvarastefnu vegna stjórnarfrumvarps sem er í samræmi við nýja heildarstefnu ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum.

Hér skulu ekki nefnd fleiri dæmi um pólitík VG. Hún rímar æ verr við samtímann. Þetta bitnar á flokknum, ríkisstjórninni og hinum stjórnarflokkunum tveimur. Á vinstri kantinum nær Samfylkingin forskoti. VG hefur ekki roð við henni.

Almennt er talið að Katrín Jakobsdóttir hafi meira persónufylgi en afstaðan til flokks hennar sýnir. Væri málum ekki háttað á þann veg hefði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ekki sagt á þingi 4. mars að á sér hefði dunið spurning frá „alveg ótrúlegum fjölda“ fólks varðandi framboð til forseta Íslands í nýlegri kjördæmaviku. Það lægi í augum uppi að færi Katrín í framboð til forseta Íslands hefði það veruleg áhrif á sitjandi ríkisstjórn og framtíð hennar. Því spurði hann forsætisráðherra: „Ætlar þú í framboð til forseta Íslands? Nei eða já, af eða á.“

Katrín sagðist varla trúa því að í kjördæmaviku þingmanna Flokks fólksins hefði þetta verið aðalspurningin. Hún væri hins vegar „bara enn“ forsætisráðherra og yrði þar áfram um sinn og hefði ekki „leitt hugann að slíku framboði“ enda væru nóg verkefni í forsætisráðuneytinu.

Katrín boðaði flokksráði sínu 1. mars að stjórn hennar ætti að vinna áfram að því sem boðað var á liðnu hausti og ná niður verðbólgunni. Aðgerðir í tengslum við kjarasamninga væru lykill að því fyrir utan að stjórnarflokkarnir semdu sín í milli um fjármálaáætlun næstu ára.

Undir kvöld fimmtudagsins 7. mars var ritað undir stöðugleikasamning um laun til fjögurra ára, samflotssamning sem á að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Eftir undirritun samningsins getur ríkisstjórnin gert fjármálaáætlun sína.

Framboðsfrestur vegna forsetakosninganna 1. júní rennur út 26. apríl. Mánuði fyrr fara þingmenn í stutt páskaleyfi. Þá gefst þeim og öðrum tóm til að meta hvernig staðið skuli að vorverkunum. Meðal þeirra er að taka af skarið um forsetaframboð.