Samgöngustjóri Reykjavíkur hefur samþykkt að óheimilt verði að leggja ökutækjum beggja vegna Steinbryggju.
Ofangreind ráðstöfun verður merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra.
Í samræmi við umferðarlög hefur tillagan verið borin undir og samþykkt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Það var deild samgangna hjá borginni sem lagði tillöguna fram.
Í greinargerð kemur fram að Steinbryggja sé lítil gata sem tengi bílakjallara undir Hafnartorgi við Geirsgötu, en á svæðinu er mikið um gangandi vegfarendur. Borið hefur á því að ökutækjum sé lagt í götunni, með þeim afleiðingum að útsýni er skert og aukin slysahætta skapast.
Á svæðinu er jafnframt til sýnis hluti hinnar gömlu steinbryggju sem byggð var árið 1884. Hún þjónaði Reykvíkingum vel sem hliðið að bænum áratugum saman. Hún fór undir landfyllingu en var grafin upp nýlega.
sisi@mbl.is