Einar Þorsteinsson
Einar Þorsteinsson
Lítill áhugi var á skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar sem fram fór undir lok vikunnar. Heildartilboð í skuldabréfaflokkinn RVK 32 1, sem er verðtryggður skuldabréfaflokkur sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti, námu um 260 m.kr

Lítill áhugi var á skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar sem fram fór undir lok vikunnar. Heildartilboð í skuldabréfaflokkinn RVK 32 1, sem er verðtryggður skuldabréfaflokkur sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti, námu um 260 m.kr. og ákveðið var að taka tilboðum fyrir 120 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 4,06%. Þá bárust tilboð fyrir um 750 m.kr. í flokinn RVKN 35 1, sem ber fasta 6,72% óverðtryggða vexti. Ákveðið var að taka tilboðum fyrir 450 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 8,5%.

Borgin sótti sér þannig um 570 m.kr. í lánsfé í útboðinu. Heimild til lántöku er um 16,5 ma.kr. á árinu en borgin hefur sótt sér um 6 ma.kr. á hárri ávöxtunarkröfu það sem af er ári.

Aðspurður segist Einar Þorsteinsson í samtali við mbl.is telja álagið á skuldabréfaflokkana of hátt en það ráðist af markaðsaðstæðum.

„Hættan á því að Reykjavíkurborg geti ekki staðið við skuldbindingar sínar er engin, þannig að ég hefði viljað sjá þetta álag fara niður,“ segir Einar. Þá segir hann að borgin sé í viðræðum við TEB-bankann um lánsfjármagn til þess að fjármagna viðhaldsátak í leik- og grunnskólum og það styrki valmöguleika borgarinnar á hagkvæmu fjármagni.