Að vinna við að ferðast um heiminn finnst Lóu Pind Aldísardóttur mikil forréttindi. Á Stöð2 er nú verið að sýna fimmtu þáttaröðina af Hvar er best að búa? Í Dagmálsmyndveri Árvakurs mætti Lóa til að segja frá lífi sínu og störfum.
Að dreyma um ævintýri
Lóa á að baki næstum þriggja áratuga starf í fjölmiðlum og hefur komið víða við, en síðustu árin hefur hún starfað sjálfstætt við þáttagerð í fyrirtæki sínu Lóa Productions. Þættirnir Hvar er best að búa? hafa átt hug hennar allan síðustu árin. Þar ferðast hún víða um heim til að hitta Íslendinga sem hafa valið það að yfirgefa fósturjörðina og halda á vit ævintýranna. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda.
„Það kemur ekki á óvart því við erum ansi mörg hér á skerinu sem þráum að komast burt; að komast í meiri hita og sól og þar sem við erum frjálsari að ferðast um því það er dýrt að fara héðan og dýrt að búa hérna. Ég bendi samt alltaf á að við erum heppin að búa hér; við erum lúxusdýr með háar tekjur og það er margt mjög gott hérna. En margt fólk er haldið útþrá og ég held að þættirnir höfða til þeirra sem vilja láta sig dreyma og langar til að taka stökkið. En svo eru það allir hinir sem myndu aldrei taka stökkið en finnst gaman að sjá fólk í þessum aðstæðum,“ segir Lóa.
Öll skilningarvit galopin
Lóa hefur alla tíð verið með flökkueðlið í sér og er því klárlega í draumastarfinu í dag.
„Afi kallaði mig sígauna og ég gat aldrei verið kyrr. Það skemmtilegasta sem ég gerði var að ferðast, en ég eignaðist barn þegar ég var tvítug sem hamlaði aðeins ferðagleðinni,“ segir Lóa, sem segist hafa ferðast víða um Evrópu nítján ára og um þrítugt fór hún í tveggja mánaða ferð um Mið-Ameríku.
„Það sem ég elska við að ferðast er að öll skilningarvit eru galopin þegar maður kemur á nýjan stað. Á nýjum stöðum er maður stöðugt að taka allt inn. Þessi vinna, að heimsækja fólk sem býr í alls kyns aðstæðum, er algjör himnasending fyrir mig. Mér finnst þetta óvænta skemmtilegast í ferðalögum og að hlusta á sögur frá fólki,“ segir Lóa, sem hefur farið á um fjörutíu staði í fjölda landa við gerð þáttanna.
„Mig vantar svolítið Suður-Ameríku, þannig að fólk má alveg benda mér á Íslendinga sem þar búa,“ segir hún og segir ótrúlegt hversu margir séu til í að leyfa sér og tökumanni að fylgjast með lífinu í nokkra daga frá morgni til kvölds.
„Fólk gleymir myndavélinni eftir fimm mínútur.“
Fólk sem vildi hjálpa
Hvað stendur upp úr?
„Mér fannst magnað að koma til Grænlands. Ég hafði aldrei spáð í Grænland, næsta nágranna okkar. Svo fannst mér geggjað að koma til Balí, algjör paradís. Það var ótrúlega gaman að koma til Taílands og ótrúlega skrítið að koma til Ísraels og Síerra Leóne,“ segir Lóa, en einmitt í síðasta þættinum heimsótti Lóa fjölskyldu í Síerra Leóne.
„Þar hitti ég íslenska fjölskyldu úr miðbænum og eru þau að vinna að stórbrotnu verkefni og þau eru alsæl þarna. Flestir sem ég heimsæki eru að leita að streituminna lífi en þau voru ekki þarna til að dekra við sitt innra lúxusdýr heldur til að hjálpa öðrum,“ segir hún.
„Þarna er fólk sem er að fara í sturlað verðlag, en það er svakaleg verðbólga þarna og ég var hálfan daginn að telja peninga. En þarna er betra veður og gullfallegt, ofsalega grænt og fallegar strendur. Í þessu landi eru allir hrópandi og öskrandi og það var sturluð upplifun að vera þarna. Maður skynjaði ógnina í loftinu og áfallastreituna hjá fólki, en það eru um tuttugu ár síðan borgarastyrjöldinni lauk. Það er enn kaos og brotið kerfi. Það hafa svo mörg áföll dunið á þessari þjóð,“ segir Lóa, sem segir áreitið hafa verið mikið.
„Umferðin þarna er rosaleg og í þessari risavöxnu borg eru ein umferðarljós.“
Frelsi í kulda og hita
Og hvar er svo best að búa?
„Þetta er algengasta spurning sem ég fæ í lífinu,“ segir Lóa og hlær.
„Ég er búin að svara þessari spurningu fyrir mig, og það er að vera með annan fótinn í hita og hinn í kulda. En báða í frelsi. Og ég er búin að hanna líf mitt svona. Ég er í skíðabúbblu yfir skíðavertíðina, ég er stöðugt að flakka um heiminn í vinnunni og svo erum við hjón búin að koma okkur upp heimili á Suður-Spáni,“ segir Lóa, en hún og eiginmaðurinn, Jónas Valdimarsson, eru skíðafararstjórar fyrir Vita í Madonna tvo mánuði á ári.
„Það er aldeilis ekki leiðinlegt að vera í þeirri vetrarparadís þar sem er yfirleitt sól, logn og dýrð. Það er rosalega gefandi að vera innan um aktívt fólk í skíðafríi því það eru allir svo hamingjusamir,“ segir Lóa, sem viðurkennir að hún hafi alls ekki verið nein skíðadrottning áður en hún kynntist Jónasi fyrir sjö árum.
„Ég er sjúklega lofthrædd og hraðahrædd þannig að ég var ekkert efnileg í þetta,“ segir hún og brosir.
„En ég hef verið í stífri þjálfun hjá honum,“ segir hún og segir að eftir að hafa farið með honum fyrsta árið sem hann var fararstjóri, hafi hún einnig verið ráðin sem fararstjóri.
„Það er gott að hafa mig sem hef skilning á þörfum byrjenda, en við skiptum hópnum upp í „dólfara“, sem er minn hópur, og „spólfara“, sem er hans hópur,“ segir hún.
Við förum að slá botninn í skemmtilegt spjall, en áskrifendur geta hlustað á viðtalið í heild í Dagmálsþætti sem fer í loftið á mbl.is á mánudagsmorgun.