Spursmál Sigmundur og Logi eru gestir Stefáns í Spursmálum.
Spursmál Sigmundur og Logi eru gestir Stefáns í Spursmálum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar takast hart á í Spursmálum en þátturinn er aðgengilegur á mbl.is. Þar ræða þeir meðal annar stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar takast hart á í Spursmálum en þátturinn er aðgengilegur á mbl.is. Þar ræða þeir meðal annar stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda. Logi telur mikilvægt að hefja að nýju það samráðsferli sem leiddi til nýrrar löggjafar um innflytjendamál árið 2016. Mikilvægt sé að kalla alla flokka á þingi að borðinu. Sigmundur Davíð er í öllum meginatriðum ósammála Loga og segist hafa varað mjög við því ferli sem leiddi löggjöfina til lykta fyrrnefnt ár. Segir hann fullkomið stefnuleysi ríkja í málaflokknum.

50 eða 500?

Í þættinum voru þeir spurðir út í þá yfirlýsingu Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að Íslendingar gætu tekið á móti allt að 500 flóttamönnum á ári. Logi vill ekki fullyrða hversu mikið svigrúm íslenska ríkisins sé í þessum efnum, en að það kunni að liggja nærri þeirri tölu sem Guðrún nefndi. Þar kom áherslumunur hans og Sigmundar Davíðs fram með afgerandi hætti. Segir formaður Miðflokksins að mörkin liggi nær 50.

Ljóst er af umræðunum að mikið ber í milli hjá flokkunum en þeir ræddu einnig um aðkomu stjórnvalda að nýgerðum kjarasamningum á vinnumarkaði. Lýsir Logi ánægju með þær breytingar sem gerðar hafa verið á millifærslukerfum barna-, húsaleigu- og vaxtabóta. Hann setur spurningarmerki við það hvernig fjármálaráðherra hyggst fjármagna þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Sigmundur Davíð segir hins vegar að þessar sömu aðgerðir séu til marks um það með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið eftir í hverju stórmálinu á fætur öðru. ses@mbl.is