Lögreglan réðst í vikunni í umfangsmiklar aðgerðir vegna gruns um vinnumansal, peningaþvætti og fleiri brot.
Lögreglan réðst í vikunni í umfangsmiklar aðgerðir vegna gruns um vinnumansal, peningaþvætti og fleiri brot. — Morgunblaðið/Eggert
Kvika hélt áfram að safnast saman undir Svartsengi og menn áttu von á eldgosi þá og þegar. Þegar þetta er skrifað hefur á hinn bóginn enn ekki gosið. En áfram er unnið með hinar ýmsu sviðsmyndir

02.03-08.03

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Kvika hélt áfram að safnast saman undir Svartsengi og menn áttu von á eldgosi þá og þegar. Þegar þetta er skrifað hefur á hinn bóginn enn ekki gosið. En áfram er unnið með hinar ýmsu sviðsmyndir.

Rýming í Grindavík og Svartsengi hafði ekki afgerandi áhrif á vinnu við varnargarða á svæðinu. Verkafólk sem þar vinnur hörðum höndum sex daga vikunnar, flesta daga allan sólarhringinn, fær nefnilega vanalega frí á sunnudögum og aðfaranótt sunnudags og mánudags.

Gott hljóð var í mönnum í Karphúsinu í byrjun vikunnar og ríkissáttasemjari kvaðst vera farinn að grilla í endamarkið. Sviðsmyndum sumsé fækkaði.

Offita er vaxandi heilbrigðisvandamál á Íslandi.

Hera Björk Þórhallsdóttir bar sigur úr býtum í Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Scared of Heights. Palestínumaðurinn Bashar Murad hafnaði í öðru sæti. Ýmsum svelgdist á úrslitunum og létu menn aursletturnar ganga hverjir yfir aðra á samfélagsmiðlum. Sviðsmyndirnar virðast í fljótu bragði vera tvær; annaðhvort tekur Hera Björk þátt í Júróvisjón í Málmey eða ekki. Jarðvísindamenn treysta sér ekki til að segja til um hvor sviðsmyndin sé líklegri.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrirtækið DK hugbúnað ehf. og tryggingafélagið VÍS til að greiða konu sem vann hjá DK hugbúnaði skaðabætur vegna heilsutjóns sem hún varð fyrir vegna myglu.

Trausti Hjálmarsson var kjörinn nýr formaður Bændasamtaka Íslands.

Nú þurfa allir sem ætla að fara í Perluna að kaupa aðgangsmiða að byggingunni.

Karl Gunnlaugsson, athafna- og akstursíþróttamaður, lést, 57 ára að aldri.

Gervigreind mun ekki taka heiminn yfir né gera störf mannfólksins óþörf,“ segir Viðar Pétur Styrkársson, verkfræðingur með sérhæfingu í gervigreind. Ekki eru þó allir sannfærðir um þá sviðsmynd.

Gera þurfti hlé á þingfundi á mánudag eftir að þrír aðgerðasinnar hófu háreysti á þingpöllum, en einn þeirra klifraði yfir handrið þeirra og gerði sig líklegan til þess að stökkva niður í þingsalinn. Starfsmenn þingsins og lögregla sýndu snarræði við að stöðva manninn, en Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra, kom jafnframt til aðstoðar við að koma manninum aftur inn á þingpallana.

Borgarfulltrúinn Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir lagði fram tillögu á fundi borgarstjórnar um að nýta húsnæðið á Ægisíðu 102 undir leikskólastarfsemi.

Kraftur, stuðningsfélag ungs fólks með krabbamein, hvetur til stofnunar embættis umboðsmanns sjúklinga.

Innbrot í geymslur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið tíð undanfarið.

Alls var varið 106 milljónum króna til fjárfestinga í skólphreinsistöð Hveragerðisbæjar á síðasta kjörtímabili.

Esjan hefur mikið aðdráttarafl og samkvæmt teljara Ferðamálastofu fóru samtals 114.295 framhjá teljara við bílastæðið neðan Þverfellshorns á árinu 2023.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, undirritaði samning við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu um aukið eftirlit með heimagistingu og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi.

heilsugæslustöð var vígð í Sunnuhlíð á Akureyri.

Lögreglan réðist í afar umfangsmiklar aðgerðir sem tengjast því að rökstuddur grunur leikur á að mansalsbrot, peningaþvætti og brot á atvinnuréttindum útlendinga hafi verið framin. Eins grunar lögreglu að um skipulagða brotastarfsemi hafi verið að ræða. Aðgerðirnar beindust að veitingastöðum, gistiheimilum og heimilum fólks. Að minnsta kosti hluti eignanna er í eigu Davíðs Viðarssonar, eiganda Vy-þrifa ásamt Wok On, Kastala Guesthouse og Pho Vietnam auk fleiri veitingastaða. Þrír karlar og þrjár konur voru úrskurðuð í gæsluvarðhald.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur hafa samþykkt kjarasamninginn sem gerður var við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Jón Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra, viðraði áhyggjur sínar af framgangi útlendingafrumvarps dómsmálaráðherra sem nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd. Hann segir ekkert svigrúm til málamiðlana.

Nær fjórir af hverjum tíu einstaklingum á vinnumarkaði eiga erfitt með að ná endum saman, samkvæmt nýrri könnun.

Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa ekki verið eins kaldir í Reykjavík síðan 2002.

Fimmtán þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að endurheimta handrit þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar.

Grænt ljós hefur verið gefið á þaraböð á Garðskaga.

Vel gengur að setja upp útveggjaeiningar á nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut.

Heildarkostnaður ríkisins við brottflutning umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi nam tæplega 256 milljónum króna árið 2022.

Robert Zemeckis, sem meðal annars leikstýrði Óskarsverðlaunakvikmyndinni Forrest Gump, verður gestur á Iceland Noir-bókmenntahátíðinni í haust.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði blóm og íslenskan stein að leiði Íslandsvinarins Grigols Matchavarianis í Georgíu.

Bessí Jóhannsdóttir var kjörin formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna.

Séra Cecil Kristinn Haraldsson, fv. sóknarprestur, lést, 81 árs að aldri.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, íhugar að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands í komandi kosningum.

Mikilvægt er að gæta þess við hönnun nýju þjóðarhallarinnar í Laugardal að hún beri ekki hina eldri Laugardalshöll ofurliði. Þetta kemur fram í umsögn Borgarsögusafns vegna nýs deiliskipulags fyrir Laugardal.

Björgvin Gíslason gítarleikari lést, 72 ára að aldri.

Samtök atvinnulífsins og breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn, undirrituðu nýjan kjarasamning. Um er að ræða langtímasamning sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Samningurinn felur í sér lágmarkshækkun launa um 23.750 krónur á hverju samningsári, en laun munu almennt hækka um 3,25% á fyrsta samningsárinu og síðan 3,5% samningsárin á eftir, eða annað, þriðja og fjórða samningsárið. Ánægja var með samninginn beggja vegna borðsins. Ríkið leggur til 800 milljarða króna á samningstímanum.

Endurgreiðsla kostnaðar vegna framleiðslu fjórðu þáttaraðar sjónvarpsþáttanna True Detective hér á landi nam alls rúmum fjórum milljörðum króna.

Tæplega 300 grindvísk börn komu saman í Laugardalshöll til að ræða stöðu sína og framtíð. Þau sakna frelsisins.

Nærri 300 álftir sáust við Hvalnes í Lóni á Suðausturlandi í vikunni. Aðrir farfuglar hafa verið að koma til landsins, til að mynda grágæsir, sílamávar, tjaldar og brandendur.

Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður lést, 81 árs að aldri.

Karlmaður um tvítugt lést í umferðarslysi í Garðabæ.