Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Leiðtogar Evrópusambandsins segja að vonir standi til að hægt verði að opna fyrir flutning hjálpargagna til Gasasvæðisins sjóleiðis frá Kýpur um helgina.
„VIð erum mjög nálægt því að geta opnað þessa leið, það gerist vonandi á sunnudag,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, eftir að hafa heimsótt hafnarborgina Larnaka á Kýpur ásamt Nikos Christodoulides, forseta Kýpur. Tilraunasending átti að fara í gær í samvinnu við Sameinuðu arabísku furstadæmin og hjálparsamtök.
Joe Biden Bandaríkjaforseti boðaði einnig í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í fyrrinótt að Bandaríkjaher kæmi upp bráðabirgðahöfn við strönd Gasa svo að hægt yrði að flytja hjálpargögn þaðan inn á svæðið.
Von der Leyen sagði að ástandið á Gasa væri alvarlegt og mannúðarkrísa yfirvofandi, en Sameinuðu þjóðirnar segja að um fjórðungur íbúa á Gasa sé á barmi hungursneyðar og að börn svelti til bana.
Flutningabílar með hjálpargögn hafa farið inn í suðurhluta Gasa gegnum Rafah-landamærastöðina, sem Egyptar stjórna, og Kerem Shalom-landamærahliðið sem Ísraelsmenn ráða. En litlar vistir hafa borist til norðurhluta svæðisins, þar sem hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna hófust fyrir fimm mánuðum, og um 300 þúsund Palestínumenn sem þar eru skortir mat og drykkjarvatn.
Evrópusambandið gaf út sameiginlega yfirlýsingu með Kýpur, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem lýst var stuðningi við að opna leið til að flytja hjálpargögn sjóleiðina til Gasa.
„Flutningur hjálpargagna sjóleiðis beint til Gasa verður flókinn og þjóðir okkar munu halda áfram að meta og endurskoða leiðir til að tryggja að þau berist eins örugglega og mögulegt er,“ segir í yfirlýsingunni. „Þessir sjóflutningar geta verið – og verða að vera – hluti af viðvarandi aðgerðum til að auka flutninga á hjálpargögnum og vörum inn í Gasa með öllum mögulegum leiðum.“
David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í færslu á samfélagsmiðlinum X að land hans, Bandaríkin og aðrir bandamenn myndu opna sjóflutningaleið til að koma hjálpargögnum beint til Gasa. En hann bætti við að Ísraelsmenn væru áfram hvattir til að heimila meiri flutninga á slíkum gögnum inn í Gasa því það væri fljótasta leiðin til að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem á þyrftu að halda. Ísraelsmenn neita því að þeir hindri flutninga hjálpargagna og saka hjálparsamtök um að dreifa þeim ekki.
Siglingin frá Larnaka til Gasa tekur um 10 klukkustundir en vegalengdin er um 370 km.
Ísraelsmenn sögðust fagna því að til stæði að opna þessa siglingaleið. „Frumkvæði Kýpur mun gera kleift að auka flutning hjálpargagna til Gasa eftir öryggiseftirlit í samræmi við ísraelskar kröfur,“ sagði Lior Haiat, talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraels, á X.