KR tók risastórt skref í áttina að úrvalsdeild karla í körfubolta með 82:76-útisigri á ÍR í toppslag í 1. deildinni í gærkvöldi. Liðin voru jöfn að stigum á toppnum fyrir leikinn, en KR-ingar eru nú með tveggja stiga forskot þegar liðin eiga þrjá leiki eftir. Efsta liðið fer beint upp og næstu fjögur í umspil. KR mætir Þrótti úr Vogum, ÍA og Ármanni í þremur síðustu umferðunum. Þróttur er efst liðanna í sjötta sæti og KR-ingar því í kjörstöðu.
Dani Koljanin skoraði 19 stig og tók 12 fráköst fyrir KR. Nimrod Hilliard bætti við 18 stigum. Collin Pryor skoraði 18 fyrir ÍR og Lamar Morgan 17.
Sindri, Fjölnir og Skallagrímur unnu öll leiki sína í gærkvöldi og eru fyrir vikið í góðri stöðu í baráttunni um að fara í umspilið.