„Það er svo hætt við því að listferillinn verði eins og eðli fyrirtækja í kapítalisma er, fari stækkandi og hlaði utan á sig. Mér finnst það ekkert sérlega heillandi.“
„Það er svo hætt við því að listferillinn verði eins og eðli fyrirtækja í kapítalisma er, fari stækkandi og hlaði utan á sig. Mér finnst það ekkert sérlega heillandi.“ — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekkert pólitískara en að segja að eitthvað eigi ekki að vera pólitískt. Því kynntist ég í Rússlandi. „Þetta er ekki pólitískt“ var stöðugt sagt við mann en maður vissi betur.

Eftir risastóra einkasýningu í á Louisiana-safninu nærri Kaupmannahöfn á síðasta ári snýr Ragnar Kjartansson aftur til málverksins á sýningunni Móðir og barn, gin og tónik í i8 galleríi. Á sýningunni eru ný olíumálverk eftir Ragnar, stemningar úr vinnustofu hans og af heimilinu.

Blaðamaður hitti Ragnar á vinnustofu hans úti á Granda. Hann deilir vinnustofu með vini sínum, tónlistarmanninum Davíð Þór Jónssyni. Þegar blaðamann bar að garði var Davíð Þór við píanóið og spilaði dágóða stund, bæði blaðamanni og myndlistarmanni til ánægju, á meðan viðtalið var tekið.

Þú ferð alltaf til baka til málverksins, sagði blaðamaður við Ragnar sem svarar: „Ég fór út í myndlist af því að mig langaði til að verða málari. Ég hef alltaf litið á vídeóin og gjörningana sem eitthvað mjög skylt málverkinu. Vídeóin eru mikið til málverk og gjörningarnir eru skúlptúrar.

Ég elska hugmyndina um heiðarlega málverkið. Að mála bara það sem maður sér, beint á strigann. Aðgerðin er svipuð því að skúra eða taka til. Bara að klára dæmið. Samt undarlegt hvað ljóðrænan kemur alltaf yfir mann í þessu ástandi. Vera bara að mála með penslinum og nota litina í túpunum, þetta er í raun drulla sem maður færir til með svínshárum.

Óreiða á vel við mig. Mér finnst til dæmis gaman að vera úti og mála í brjáluðu veðri. Málverk verða extra heiðarleg þegar manni er skítkalt, nennir þessu ekki og vill bara komast heim í kaffi. Maður vill bara ljúka þeim eins og hverju öðru útiverki. Þá er ekki hægt að vera að hugsa um einhverja fagurfræði.“

Vinátta og list

Af hverju ákvaðstu að gera málverk af heimilinu og vinnustofunni?

„Ég var eitt og hálft ár að finna tóninn fyrir þessa sýningu. Ég byrjaði á alls konar pælingum og svo kom hugmyndin um að reyna að fanga vinnuna og það sem er í gangi í kringum mann. Lífið í hlutum. Bösl í hnasli og sýsl í rusli eins og Halldór Laxness yrkir um í Á þjóðveginum, einu af mínum eftirlætiskvæðum.“

Ákvaðstu strax að hafa ekkert fólk á myndunum?

„Ég byrjaði á að gera portrett af Davíð Þór og hundinum hans og svo fór ég að mála draslið í kringum þá. En svo málaði ég yfir Davíð Þór og hundinn og hélt bara áfram með draslið, einhvern kassa af sjónvarpi, borðplötu, tuskur og eldhúspappír.“

Spurður hvort þeir Davíð Þór verði fyrir áhrifum hvor frá öðrum segir Ragnar: „Það er fáránlega inspírerandi að vera á vinnustofu með Davíð. Ég fæ innsýn í hans nálgun í spuna, hann er alla daga að æfa Bach og Rachmaninov og alls konar stórkostlega tónlist sem hann safnar í sarpinn til að hafa tónlistarlegt hlaðborð í fingrunum þegar hann heldur sína mögnuðu spunatónleika. Ég held svei mér þá að við Davíð Þór höfum inspírerað hvor annan í gegnum árin. Vinátta og list eru svo náskyld.

Þessi sýning, þó hún sé svona „illa basic“, málari málar í vinnustofunni, er að mörgu leyti samvinna. „Það þarf þorp,“ eins og Kaninn segir til að komast að tærleikanum. Konan mín, myndlistarmaðurinn Ingibjörg Sigurjónsdóttir, gerði sýninguna De Rien í Kling & Bang fyrir tveimur árum sem hafði mikil áhrif á mig varðandi sýnina á tómið og hið mikilfenglega. Ingibjörg hefur síðan verið að þróa með mér nálgunina að þessari sýningu sem og uppsetninguna. Hún er algerlega sýningarstjóri sýningarinnar. Lilja Gunnarsdóttir samstarfsmaður minn hefur líka verið mér mikill haukur í horni í þessari vinnu.“

Ragnar nefnir einnig vin sinn myndlistarmanninn Pál Hauk Björnsson sem skrifar sýningartexta sýningarinnar. Þeir áttu eftirminnilega samvinnu á Feneyjatvíæringnum árið 2009. Þá breytti Ragnar íslenska skálanum í vinnustofu málara og málaði Pál daglega í sex mánuði. „Eftir það ævintýri bundumst við sterkum böndum og hann kíkir alltaf við og við á vinnustofuna. Þegar ég var að vinna í þessari sýningu fóru allar hans heimspekilegu pælingar í sambandi við eðli málverksins og eðli myndlistar að smitast inn í verkin og ég sagði: Palli, viltu ekki skrifa sýningartextann?

Ég soga í mig áhrif alls staðar frá: Simone de Beauvoir og Mahler og eiginlega hvað sem er. Vinnutitill á þessari sýningu var Mahler í vinnustofunni. Heimildarmynd um Leonard Bernstein að æfa Mahler með Vínar-fílharmóníunni hefur heilmikið verið að malla á vinnustofunni. Áhrif þaðan hafa örugglega læðst inn í málverkin. Hvernig Bernstein talar um leik Mahlers að klisjunni og svo framvegis.“

Þú lærðir í Listaháskólanum og fórst ekki í framhaldsnám. Var það rétta leiðin fyrir þig, hefði meira nám heft þig á einhvern hátt?

„Ég er svo heppinn að þegar ég var í myndlistarnáminu þá var John Baldessari, einn frábærasti hugmyndalistamaður 20. aldarinnar, með gestafyrirlestur í skólanum. Ég spurði einhverrar asnalegrar spurningar og hann hugsaði sig um og sagði svo: Þú ættir að vinna í auglýsingageiranum. Ég tók hann á orðinu og sótti um vinnu á auglýsingastofu og vann þar í fjögur ár. Ég lærði gríðarlega mikið af því og leit á það sem mitt mastersnám.

Þegar maður er að vinna að eigin list þá verður maður að segja einhvern persónulegan sannleika en þegar maður er að vinna auglýsingu fyrir Símann þá er manni alveg sama hvort fólk er með símkort frá Vodafone eða Símanum. Maður er bara að ljúga einhverju upp fyrir Símann. Í listinni má ekki ljúga en í auglýsingunum þarf maður að gera það. En vinnuaðferðir auglýsingastofunnar urðu að mörgu leyti að mínum og vinnan á auglýsingastofunni var frábærlega skemmtileg og ég lærði ótalmargt á því að vinna með fólki úr alls konar geirum. Kynntist vinnuaðferðum grafískrar hönnunar, textagerðar, ljósmyndunar, kvikmyndagerðar og auglýsingaleikara.“

Allt er stöðugt hrun

Þér hefur gengið gríðarlega vel. Hugsarðu stundum: Þessi velgengni hlýtur að taka enda?

„Mér finnst allt vera stöðugt hrun. Mér hefur alltaf fundist það,“ svarar Ragnar og hlær: „En ferillinn hefur verið ótrúlegur. Það var mjög frelsandi að gera yfirlitssýninguna í Louisiana. Ég hugsaði með mér: Ég mætti alveg deyja núna því ég hef náð að segja það sem ég vildi segja. Þetta var eins og draumur. Það myndaðist ótrúlegt og frábært frelsi við að gera þá sýningu.“

Hvað er framundan?

„Ég er búinn að gera svo mikið af risastórum sýningum og hef núna verið að koma mér út úr alls konar verkefnum. Það er svo hætt við því að listferillinn verði eins og eðli fyrirtækja í kapítalisma er, fari stækkandi og hlaði utan á sig. Mér finnst það ekkert sérlega heillandi.

Þegar ég fór í myndlist fannst mér bóhem-heimurinn óskaplega spennandi. Ég sá þetta með stjörnur í augunum, mér fannst þetta geggjað kúl. Þetta bóhem-dæmi er ekki bara fyllirí og sígarettur, það er einhvers konar frelsi. Fyrir mér er númer eitt, tvö og þrjú að halda í frelsið.“

En er ekki verið að toga þig í alls konar áttir?

„Blessunarlega. Ekki kvarta ég. Mér finnst það algjör heiður en eina skylda manns er að fylgja innri köllun. Einu sinni sagði innri köllun mér að ég ætti að fara að vinna að auglýsingastofu.“

Hvað segir hún núna?

„Hún segir mér að velja kyrrðina og dvelja í fegurðinni – sem er vandræðalega sætt. Ég er ekki að segja að ég ætli bara að mála og ekki að tala um pólitík. Ég er alls ekki að meina það.

Ég hef upplifað svæsna pólitíska hluti í sýningum mínum í löndum sem maður ætti kannski ekki að sýna í. Þetta hafa verið ótrúlegar upplifanir sem hafa kennt mér mikið um eðli frelsisins og eðli illskunnar. Ég hef náð því að skilja heiminn á annan hátt en ella.“

Öll list er pólitísk

Ragnar hefur bæði sýnt í Ísrael og Rússlandi, löndum sem hvort á sinn hátt eru í blóðugum hernaði. Hann sýndi málverk og vídeóverk í Ísrael árið 2016 á sýningunni Architecture and Morality. „Ég var spurður hvort ég vildi gera sýningu í Tel Aviv og var í vafa hvort ég ætti að þiggja boðið en ég fékk hugmynd sem mér fannst spennandi og innri köllunin kitlaði.

Ég var á hernumdu svæðunum og málaði málverk af húsum landtökumanna þar. Svakalega stressandi að mála með stráhatt og fólk með vélbyssur spyr þig tortryggið hvað þú sért að gera. Við Ingibjörg ferðuðumst þá um Vesturbakkann í gömlum sendiferðabíl með strák sem heitir Yuval Abraham og var einmitt núna ásamt Palestínumanninum Basel Adra að vinna Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrir bestu heimildarmyndina, No Other Land. Hann sem Ísraeli og afkomandi eftirlifenda úr helförinni hafði mikla skömm á allri kúgun og aðskilnaðarstefnu gagnvart Palestínumönnum.

Þegar ég kom þarna hélt ég að átökin milli Ísrael og Palestínu væru flóknara mál en margir vildu vera láta en það er hræðilegt að verða vitni að því sem er að gerast þarna. Þetta varð allt saman einfaldara þegar maður sá með eigin augum hvað Palestínumenn eru beittir hrikalegri kúgun. Heyrði afmennskunina í tali fólks. Maður fann að þetta myndi enda í einhvers konar þjóðarmorði. Það lá í loftinu að það væri verið að bíða eftir tækifæri.“

Sýning Ragnars, Santa Barbara – A Living Sculpture, var sýnd um tíma í nýrri menningarmiðstöð Moskvu, GES-2, í lok árs 2021 og fram í febrúar 2022 þegar Ragnar ákvað að hætta sýningum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ragnar aðstoðaði síðan meðlim rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot, Maria Alyokhina, við að komast frá Rússlandi. Hann hefur ekki viljað ræða sinn þátt í því máli. Segir aðeins: „Að kynnast því að skapa list í einræðisríkjum þar sem illska er að byggjast upp er óhuggulegt og djöfullega magnað.“

Er ekki betra fyrir þig sem listamann að hafa farið til Ísraels og Rússlands og séð með eigin augum hvað er að gerast heldur en að einangra þig og sjá hluti bara í sjónvarpi?

„Mér finnst það. Ég veit samt ekki hvort maður gerir eitthvert gagn með því að fara og vera á staðnum.“

Á list að vera pólitísk?

„Öll list er í eðli sínu pólitísk. Mér finnst hlægilegt þegar fólk segir til dæmis að Eurovision eigi ekki að vera pólitískt, það er pólitískt í eðli sínu,“ segir Ragnar og vísar í Eurovision-lag Palestínumannsins Bashar Murad. „Hann er að gera frábært listaverk og þjónar engum áróðurstólum. Hann syngur um kúreka sem er tákn vestræna heimsins. Á einum stað segir: „Ég ætla að fara í vestrið villt þar sem illt og spillt er besta fólkið.“ Þetta er geggjuð lína. Að fara í villta vestrið er metafóra fyrir það að fara inn í hinn vestræna heim. Kúrekinn er eins og táknmynd um flóttamanninn í leit að einhverju betra. Svo kemur: Þó ég geri mjög gott mót, fari fót fyrir fót er ég aldrei hólpinn.

Í þessu eru djúpar pólitískar vísanir. Það er ekki hægt að gera svona listræna snilld nema brjóta einhverjar reglur. En það á ekki að setja listamenn í mót, það er hlægilegt að heimta að þeir hagi sér eftir gefnum reglum. Listamenn eru frjálsir í eðli sínu. Það þarf ótrúlegt hugrekki fyrir mann í stöðu Bashar Murad að vera jafn frjáls í sköpun sinni og hann er. Vonbrigði að hann vann ekki en stuðningurinn sem hann fékk hér var ótrúlegur. Við megum vera stolt af því. En hann er kannski að etja við öfl sem eru aðeins öflugri en kosningakerfi Söngvakeppninnar ræður við,“ segir Ragnar og bætir við: „Það er ekkert pólitískara en að segja að eitthvað eigi ekki að vera pólitískt. Því kynntist ég í Rússlandi. „Þetta á ekki að vera pólitískt“ var stöðugt sagt við mann en maður vissi betur.

Svo eftir allan þennan djöfulgang er alveg frábært að vera hér í vinnustofunni að mála draslið sitt.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir